SA ráða fulltrúa til að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi

Þann 15. ágúst 2010 tók gildi samkomulag SA og ASÍ um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Vinnustaðaskírteinum er ætlað að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði en mikilvægt er að öll fyrirtæki sitji við sama borð og fylgi settum reglum. Til að stuðla að framgangi þessa samkomulags hafa Samtök atvinnulífsins ráðið tvo eftirlitsfulltrúa sem bætast í hóp eftirlitsmanna sem stéttarfélög hafa tilnefnt.

Eftirlitsfulltrúar SA eru þeir Jóhannes Ottósson og Hergeir Elíasson og hafa þeir aðstöðu á 2. hæð Húss atvinnulífsins. Nánari upplýsingar um þá má finna á www.skirteini.is og hér að neðan en SA hvetja aðildarfyrirtæki til að hafa samband við þá varðandi spurningar um innleiðingu vinnustaðaskírteina.

Samkvæmt lögum nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum hafa eftirlitsfulltrúar rétt til aðgangs að vinnustöðum og heimild til að krefja atvinnurekanda og launamenn hans um að sýna vinnustaðaskírteini. Skulu þeir skrá niður upplýsingar og senda áfram til opinberra aðila s.s. RSK og Vinnumálastofnunar.

Einungis fyrirtæki sem skráð eru undir ÍSAT2008 númerunum 41, 42, 43, 55 og 56 falla undir eftirlitið til að byrja með, þ.e. í byggingariðnaði og mannvirkjagerð, veitingastarfsemi og rekstri gististaða. SA beina því til annarra fyrirtækja sem senda starfsmenn sína mikið til að starfa á byggingarvinnustöðum, t.d. vegna járnsmíði, vélaviðgerða eða glerísetningar, að þau útvegi starfsmönnum sínum vinnustaðaskírteini. Það mun auðvelda mjög eftirlit á byggingarvinnustöðum.

Eftirlitsfulltrúar SA:

Jóhannes Ottósson - johannes@sa.is
Eftirlitsfulltrúi - sími: 821-0012

Hergeir Elíasson - hergeir@sa.is
Eftirlitsfulltrúi - simi: 821-0011

Upplýsingavefur um vinnustaðaskírteini: www.skirteini.is