SA mótmæla ríkisvæðingu á þjónustustarfsemi

Samtök atvinnulífsins mótmæla harðlega þeirri ákvörðun utanríkisráðuneytisins að fela sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli að taka um áramót yfir þann hluta öryggiseftirlits sem fyrirtækin Securitas og Öryggismiðstöð Íslands hafa haft með höndum á flugvellinum frá því í sumar. Sýslumannsembættið hefur annast hluta af þessu eftirliti en í kjölfar aukinna krafna frá Evrópusambandinu þurfti með skömmum fyrirvara að auka þessa starfsemi á Keflavíkurflugvelli síðastliðið sumar. Í samræmi við nýja útvistunarstefnu ríkisins voru einkafyrirtækjum falin þau viðbótarverkefni sem þörf var fyrir vegna eftirlits með flugfarþegum og farangri þeirra. Fyrirtækin fengu samning til sex mánaða en nú hefur utanríkisráðuneytið ákveðið að sýslumannsembættinu verði falin þessi verkefni um áramót, án þess að útboð hafi farið fram og án þess að nokkrar skýringar hafi verið gefnar. Fyrirtækin töldu sig síðastliðið sumar hafa ríka ástæðu til að ætla að um áframhaldandi verkefni yrði að ræða og lögðu í töluverðan kostnað við þjálfun starfsfólks fyrir þessi nýju verkefni.

Aukinn kostnaður

Þjónusta fyrirtækjanna tveggja hefur komið vel út í prófunum þriggja viðurkenndra eftirlitsaðila. Engin opinber úttekt hefur hins vegar gerð hérlendis á reynslunni, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum virðist sem kostnaður sýslumannsembættisins af starfseminni sé 44% hærri en kostnaður fyrirtækjanna. Kostnaðurinn er innheimtur með vopnaleitargjaldi sem leggst á flugfarþega og ekki verður séð að það gjald muni lækka við þessa ráðstöfun.

Gengur gegn nýrri útvistunarstefnu ríkisins

Í nýrri útvistunarstefnu ríkisins, sem kynnt var í vefriti fjármálaráðuneytisins í júní sl., er þeim tilmælum beint til ráðuneyta og ríkisstofnana að þau fari með skipulegum hætti yfir hagkvæmni og árangur þeirra rekstrarverkefna sem ríkið annast með beinum hætti eða hafa þegar verið falin aðilum á markaði. Þá er stefnt að auknu hlutfalli innkaupa á vöru og þjónustu og sett fram töluleg markmið um ávinning ríkissjóðs af þeirri þróun. Útvistun á hluta öryggiseftirlits á Keflavíkurflugvelli til tveggja fyrirtækja á markaði var í anda þessarar mjög svo ánægjulegu stefnu. Tilfærsla þjónustunnar aftur til sýslumannsembættisins gengur hins vegar þvert gegn þessari stefnu.

Fyrirtækin tvö hafa sýnt fram á að þau geta rekið þessa þjónustu með mun lægri tilkostnaði en sýslumannsembættið. Starfsemin hefur komið vel út í prófunum viðurkenndra eftirlitsaðila. Víðast hvar í nágrannalöndum okkar fara einkafyrirtæki með slíka starfsemi, a.m.k. að hluta. Engin skýring hefur verið gefin á þessari breytingu af hálfu utanríkisráðuneytisins, enda enga skýringu að finna. Samtök atvinnulífsins mótmæla þess vegna harðlega þessari öfugþróun og ríkisvæðingu á þjónustusviði.