Efnahagsmál - 

27. Apríl 2006

SA lýsa undrun á frumvarpi um kjararáð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA lýsa undrun á frumvarpi um kjararáð

Kjararáði er samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi ætlað að leysa af hólmi kjaradóm og kjaranefnd. Verkefni kjararáðs verður að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara og annarra ríkisstarfsmanna sem ekki ráðast með samningum.

Kjararáði er samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi ætlað að leysa af hólmi kjaradóm og kjaranefnd. Verkefni kjararáðs verður að ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara og annarra ríkisstarfsmanna sem ekki ráðast með samningum.

Fyrirkomulag sem olli miklu tjóni áratugum saman

Í 10. grein frumvarpsins er ákvæði sem heimilar kjararáði að láta launabreytingar þeirra, sem taka laun samkvæmt ákvörðun kjararáðs, taka breytingum almennrar launavísitölu sem ráðið velur í samráði við Hagstofu Íslands. Samtök atvinnulífsins lýsa í umsögn sinni undrun á þessu ákvæði frumvarpsins. Í frumvarpinu er lagt til að á ný sé tekin upp vísitölubinding launa á Íslandi sem kostaði gríðarleg átök að afnema á níunda áratug síðustu aldar. "Ekkert vestrænt ríki hefur gengið lengra í vísitölubindingum launa en Ísland og þarf ekki að hafa mörg orð um það að fyrirkomulagið olli miklu tjóni á efnahagslífi landsmanna áratugum saman. Nú er lagt til að vísitölubindingin nái til forystumanna þjóðarinnar og helstu embættismanna og hætt við að hún yrði öðrum fordæmi og breiddist hratt út," segir í umsögn SA þar sem minnt er á að þáverandi fjármálaráðherra flutti sjálfur frumvarp árið 1990 um afnám slíks ákvæðis í kjarasamningi sem hann hafði gert við háskólamenn í starfi hjá hinu opinbera.

Hætta á launaspíral kjararáðshóps

Í umsögn SA er sýnt með dæmi hvernig umrædd vísitölubinding felur í sér mikla hættu á víxlverkandi hækkunum launa, eins konar launaspíral, þar sem sífellt dregur sundur með kjararáðshópnum og öðrum. Samtök atvinnulífsins mótmæla eindregið þessari heimild til vísitölubindingar og hvetja Alþingi til að fella hana brott úr frumvarpinu.

Sjá umsögn SA.

Samtök atvinnulífsins