SA funda um gjaldmiðilsmál og ESB

Samtök atvinnulífsins efna til umræðufundar um gjaldmiðilsmál fimmtudaginn 17. janúar næstkomandi á Hótel Loftleiðum. Fundurinn er opinn fulltrúum í stjórn SA og aðildarsamtaka SA auk starfsmanna samtakanna. Frummælendur eru  Daniel Gros, framkvæmdastjóri Center for European Policy Studies,  Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, Ásgeir Jónsson, forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings og Guðmundur Magnússon, prófessor emeritus og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands.

Fundurinn stendur frá kl. 13:30-17:00. Þátttaka tilkynnist  á jonina@sa.is

Þann 31. janúar fer síðan fram á Hótel Loftleiðum umræðufundur um Ísland og Evrópusambandið.  Frummælendur eru m.a. Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, Michael Emerson, sérfræðingur frá Center for European Policy Studies, en hann hefur m.a. sérhæft sig í málefnum sem tengjast stækkun ESB og Katrín Júlíusdóttir, formaður þingmannanefndar EES. Sá fundur stendur einnig frá kl. 13:30-17:00 og er jafnframt opinn fulltrúum í stjórn SA og aðildarsamtaka SA auk starfsmanna samtakanna.

Tími krónunnar liðinn?

Stjórn Samtaka atvinnulífsins hefur fjallað um stöðu krónunnar sem gjaldmiðils og innan stjórnarinnar hafa verið sterkar raddir um að æskilegt sé að Íslendingar taki upp Evru sem gjaldmiðil. Um þetta hefur hins vegar ekki verið samstaða innan samtakanna og þau því ekki sett það fram sem stefnu sína. Í byrjun október beindi stjórn SA því  hins vegar  til allra aðildarsamtakanna að taka gjaldmiðilsmálið til umfjöllunar. Kannað yrði hvort þær breytingar sem hafa orðið á íslensku atvinnulífi og efnahagslífi leiði til endurmats á því hvort einstakar atvinnugreinar telji sér betur borgið með öðrum gjaldmiðli en íslensku krónunni.