SA, BSRB, ASÍ og ríkisstjórnin hvetja til samstöðu

Samtök atvinnulífsins (SA), Bandalag starfsmanna ríkis og bæja (BSRB), Alþýðusamband Íslands (ASÍ) og ríkisstjórnin hvetja þessa dagana til samstöðu um að halda aftur af verðhækkunum, auka kaupmátt og tryggja stöðugleika. Tækifærið til þess er núna.

Hvatning SA, BSRB, ASÍ og ríkisstjórnarinnar birtist í fjölmiðlum þessa dagana en þar er dregið fram að verðbólgan er Íslendingum dýrkeypt. Það á jafnt við um fólk, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög og því sameiginlegir hagsmunir allra að verðbólgan hjaðni.

Í nýjum kjarasamningum sem Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök Alþýðusambands Íslands skrifuðu undir 21. desember sl. kemur fram að markmið samningsaðila með samningunum sé að stuðla að efnahagslegum stöðugleika sem sé forsenda aukins kaupmáttar og stöðugs verðlags. Atkvæðagreiðsla um samningana, sem aðeins eru til eins árs, stendur nú yfir en gert er ráð fyrir því að fljótlega hefjist undirbúningur við gerð kjarasamninga til a.m.k. tveggja ára og mótun nýs íslensks kjarasamningalíkans. Þar verður m.a. horft til Norðurlandanna þar sem hefur tekist að auka kaupmátt meira en hér á landi samhliða minni launabreytingum en á Íslandi á grundvelli stöðugs verðlags.

Í tengslum við kjarasamningana gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu sem lýtur að breytingum á tekjuskatti einstaklinga, gjaldskrám, menntamálum o.fl. Sveitarfélög víða um land hafa tilkynnt að þau muni ekki hækka gjaldskrár á árinu. Fjölmörg fyrirtæki hafa sömuleiðis lýst yfir að þau muni ekki hækka verð eða jafnvel lækka verð til að styðja við markmið nýrra kjarasamninga. Yfirlit yfir þau má meðal annars nálagst á Facebook-síðunni Við hækkum ekki þar sem er að finna upplýsingar frá SA og ASÍ.

Tengt efni:

Hvatning SA, BSRB, ASÍ og ríkisstjórnarinnar (PDF)