SA bakhjarl nýsköpunarkeppni framhaldsskólanna og alþjóðlegrar athafnaviku

Samtök atvinnulífsins og Innovit skrifuðu í dag undir samning um áframhaldandi stuðning SA við nýsköpunarkeppni framhaldsskólanna - Snilldarlausnir Marel - og alþjóðlega athafnaviku á Íslandi sem fer fram í þriðju viku nóvember 2012. SA hafa undanfarin ár stutt við þetta góða framtak en margar snilldarlausnir hafa svo sannarlega litið dagsins ljós. SA munu veita framhaldsskólanemum verðlaun fyrir þá hugmynd líklegust er til framleiðslu.

Framhaldsskólanemum er falið það hlutverk í Snilldarlausnum Marel að gera sem mest virði úr einföldum hlut og skila lausninni í myndbandsformi. Undanfarin ár hafa þessir hlutir verið herðatré, pappakassi og dós.

Árið 2011 veittu SA nemendum úr Menntaskólanum á Akureyri sérstaka viðurkenningu fyrir að búa til hleðslutækjahaldara en frumgerð hans var búin til úr skyrdós og þótti hann svo vel heppnaður að líkur voru taldar á að gripurinn yrði framleiddur fyrir almennan markað.

Samtök atvinnulífsins bíða spennt eftir snilldarlausnum framhaldsskólanema 2012!

Sjá nánar:

Úrslit Snilldarlausna 2011

Verðlaunahafar í Snilldarlausnum Marel


 Nánari upplýsingar má finna á www.snilldarlausnir.is