SA árétta mikilvægi samstarfs ASÍ og SA um aðhald gegn verðhækkunum, sem staðfest var við framlengingu kjarasamninga þann 21. janúar síðastliðinn.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt áherslu á sameiginleg meginmarkmið um aukinn kaupmátt og þar með lífskjör allra Íslendinga. SA árétta að hækkun vörugjalda og innflutningshöft eru á ábyrgð stjórnvalda en ekki atvinnulífsins.

SA taka ekki undir aðdróttanir í garð einstaka fyrirtækja af hálfu ASÍ vegna ágreinings um verklag, gæði vinnubragða og áreiðanleika verðkannana, sem framkvæmdar eru fyrir opinbert fé. Ágreiningur um verðkannanir hefur varað um árabil og hafa aðildarfélög SA ítrekað gagnrýnt þann óáreiðanleika sem birst hefur í niðurstöðum ASÍ.

SA lýsa sig reiðubúin til þess að vinna að heilum hug að þeim markmiðum sem sett voru þann 21. janúar síðastliðinn um aðhald að verðhækkunum í tengslum við kjarasamninga og minna enn fremur á að lækkun vörugjalda og afnám innflutningshafta myndu lækka útgjöld heimilanna umtalsvert og þar með hafa mjög jákvæð áhrif á kaupmátt.