Rýrnun reynist versluninni dýrkeypt

SVÞ - Samtök verslunar og þjónustu efna til morgunverðarfundar um rýrnun í verslun föstudaginn 20. febrúar á Grand Hótel Reykjavík. Framsögumenn á fundinum verða Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Eyþór Víðisson, öryggisfræðingur hjá VSI - öryggishönnun & ráðgjöf, Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögmaður hjá SA og Jackie Lambert, framkvæmdastjóri RLP (Retail Loss Prevention) í Bretlandi.

Í tilkynningu frá SVÞ kemur fram að áætlaður kostnaður verslunar á Íslandi af þjófnaði sé um 5-6 milljarðar króna á ári hverju og hafi hann aukist mjög mikið undanfarin ár. Við þetta bætist kostnaður verslunarinnar upp á um 1,5 milljarða króna fyrir þjónustu öryggisfyrirtækja, rekstur öryggisdeilda, öryggisvarða og kaup á öryggisbúnaði. SVÞ segja þennan kostnað geta ráðið úrslitum um framtíð margra verslana í erfiðu árferði og mikill fjöldi starfa sé í húfi.

Nánari upplýsingar og skráning á vef SVÞ