Ryðjum hindrunum úr vegi: Hádegisfundur í Hörpu 26. september

Samtök atvinnulífsins efna til opins umræðufundar um hvernig nýta megi sóknarfæri í atvinnulífinu, mánudaginn 26. september í Hörpu - Silfurbergi á 2. hæð. Fundurinn hefst kl. 12 og verður lokið ekki síðar en 13.30. Yfirskrift fundarins er Ryðjum hindrunum úr vegi - atvinnulíf í uppnámi.

SA hvetja alla áhugamenn um eflingu atvinnulífsins til að mæta en löngu tímabært er að ryðja ýmsum hindrunum úr vegi og hefja kröftuga atvinnusókn til að kveða niður atvinnuleysið, auka tekjur  fólks, fyrirtækja og hins opinbera. Einungis kröftugt atvinnulíf leggur grunn að sjálfbærri velferð.

Frummælendur eru Grímur Sæmundsen, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, Kolbeinn Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Ístaks, Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ - Landssambands íslenskra útvegsmanna og Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.


Fundarstjóri er Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

SMELLTU TIL AÐ SKRÁ ÞIG

Ryðjum hindrunum úr vegi:

Af nægu er að taka, í Fréttablaðinu kemur t.d. fram að Ísland fær verstu einkunn allra vestrænna ríkja í nýju áhættumati tryggingafyrirtækisins Aon sem gert er fyrir fjárfesta. Þar segir að áhætta fylgi fjárfestingum hér á landi vegna hættu á pólitískum afskiptum, verkföllum, óeirðum og jafnvel greiðsluþroti íslenska ríkisins. Lönd sem lenda í sama áhættuflokki og Ísland eru til dæmis Egyptaland, Rússland, Kína, Tyrkland, Lettland og Albanía. Lönd sem talin eru skárri til fjárfestinga eru til dæmis Mexíkó, Marokkó, Túnis, Búlgaría og Litháen.