Efnahagsmál - 

02. Nóvember 2006

RÚV og jafnræði á markaðnum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

RÚV og jafnræði á markaðnum

Eitt umdeildasta mál Alþingis í vetur er frumvarpið um Ríkisútvarpið. Þar er kveðið á um breytingu stofnunarinnar í opinbert hlutafélag og breytingu afnotagjalda í skatt sem skila á sambærilegum tekjum til fyrirtækisins eða 2,7 - 2,8 milljörðum króna. Sitt sýnist hverjum um málið en ljóst er að veruleg röskun verður á fjölmiðlamarkaðnum við þessa breytingu.

Eitt umdeildasta mál Alþingis í vetur er frumvarpið um Ríkisútvarpið. Þar er kveðið á um breytingu stofnunarinnar í opinbert hlutafélag og breytingu afnotagjalda í skatt sem skila á sambærilegum tekjum til fyrirtækisins eða 2,7 - 2,8 milljörðum króna. Sitt sýnist hverjum um málið en ljóst er að veruleg röskun verður á fjölmiðlamarkaðnum við þessa breytingu.

 

Lítil þörf fyrir RÚV

Markmiðið með rekstri Ríkisútvarpsins er "útvarpsþjónusta í almannaþágu" sem felur m.a. í sér stórt hlutverk í menningarlífi landsmanna, eflingu íslenskrar tungu og ákveðið öryggis- og þjónustuhlutverk við alla landsmenn. Ríkisútvarpið var sett á laggirnar í upphaflegri mynd vegna þess að reksturinn var talinn einkaaðilum ofviða, sérstalega m.t.t. dreifingar efnisins um allt land. Nú er Ríkisútvarpið líklega ein af þeim opinberu stofnunum sem minnst þörf er fyrir.

Styrkja ætti framleiðendur og dreifiaðila

Ef Ríkisútvarpið væri ekki til en Alþingi stæði frammi fyrir því verkefni að nýta 2,7 til 2,8 milljarða króna til þess að efla íslenska menningu og tungu með framleiðslu og dreifingu efnis fyrir sjónvarp og hljóðvarp til alls landsins myndi fáum ef nokkrum koma til hugar að hagkvæmasta leiðin til þess væri að setja á laggirnar ríkisstofnun eða opinbert hlutafélag til þess að sjá um málið. Miklu líklegra væri að alþingismenn teldu vænlegra að setja á laggirnar sérstakan sjóð sem styrkti marga framleiðendur efnis og dreifiaðila til þess að sjá um verkið og teldu að með slíkum styrkjum væri verið að ná miklu meiri árangri í magni og fjölbreytni á íslensku menningarefni en með rekstri sérstakrar stofnunar sem sæi sjálf um framleiðsluna og dreifinguna. Slíkt fyrirkomulag er t.d. við styrki til íslenskrar kvikmyndagerðar. Kvikmyndastofnun veitir sjálfstæðum framleiðendum styrki en framleiðir ekki sjálf allar þær kvikmyndir sem hún vill sjá gerðar.

 

Öflugri keppinautur en áður

En nú er Ríkisútvarpið staðreynd og starfar á fjölmiðlamarkaðnum í mikilli samkeppni við önnur fyrirtæki. Með áformuðum breytingum verður Ríkisútvarpið mun öflugri keppinautur en áður þar sem sveigjanleikinn í rekstrinum verður aukinn og litlar hömlur lagðar á þróun starfseminnar. Þótt sérstaklega sé kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað á milli útvarpsþjónustu í almannaþágu og annars rekstrar er það ekki líklegt til þess að virka í þessu tilviki þar sem skilgreiningin á útvarpsþjónustu í almannaþágu er svo rúm að hún getur náð yfir lang stærstan hluta starfseminnar. Því er hætt við að mjög þrengi að keppinautum Ríkisútvarpsins og það fái algjöra yfirburði á markaðnum með þeim afleiðingum að í heild verði framboð af efni fábreyttara og einhæfara en nú er enda mun Ríkisútvarpið ohf. fá afhenta 2,7 - 2,8 milljarða fyrirhafnarlaust frá skattgreiðendum meðan önnur fyrirtæki þurfa að leggja enn stífari arðsemismælikvarða á allt sitt efnisframboð og geta litla áhættu tekið. Þess vegna verður aldrei friður um Ríkisútvarpið ohf. í fyrirhugaðri mynd.

 

RÚV verði áskriftarmiðill

Önnur leið hefði verið heppilegri. Hún er að Ríkisútvarpið ohf. starfi á sambærilegum grunni og önnur fyrirtæki á markaðnum, þ.e. verði áskriftarmiðill án skylduáskriftar og leiti eftir viðskiptavinum eins og keppinautarnir. Hins vegar þarf líka að huga að því hvernig Ríkisútvarpið þróast frá stofnun að fyrirtæki og það væri ekki óeðlilegt að einhver aðlögunartími gæfist. Það er hægt að gera með því að stofna sérstakan sjóð fyrir framleiðslu og dreifingu á íslensku menningarefni sem hefði t.d. 700 - 800 milljónir árlega til ráðstöfunar. Í fyrstu gæti allt þetta fé runnið til Ríkisútvarpsins ohf. vegna umframkostnaðar fyrirtækisins en smám saman eða á 10 ára tímabili ætti föst hlutdeild þess að lækka en hinn hluti upphæðarinnar að úthlutast á samkeppnisgrundvelli. Ríkisútvarpið jafnt sem aðrir framleiðendur og dreifendur hefðu því aðgang að þessu fé. 

 Þannig gætu smám saman fleiri komið að framleiðslu og dreifingu efnis sem myndi tryggja aukna fjölbreytni og stuðla að meiri gæðum auk þess sem jafnræði yrði á milli keppinauta á markaðnum. Með svona leið væri verið að ná mun betur markmiðum um stuðning við íslenska menningu. Sú leið sem fyrirhuguð er í frumvarpinu vekur hins vegar upp þá spurningu hvort íslensk menning eigi aðeins að vera í þágu Ríkisútvarpsins ohf. eða hvort menningin eigi að vera í þágu allra landsmanna.

 Vilhjálmur Egilsson

Sjá einnig nýja umsögn SA til Alþingis um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. (PDF).

Samtök atvinnulífsins