Rótgróin sjávarútvegsfyrirtæki burðarásar í atvinnulífinu á landsbyggðinni

Þau tuttugu fyrirtæki í sjávarútvegi sem fá úthlutað mestu aflamarki gera út 126 skip, veiða 84% kvótans, hafa 4.355 manns í vinnu og einungis tvö þeirra eru innan við 30 ára gömul. Flest þeirra hafa starfað á sama stað í 40 - 70 ár og allt að 100 árum. Þau eru burðarásar í atvinnulífinu vítt og breitt um landið. Þetta kom fram í erindi Péturs H. Pálssonar, framkvæmdastjóra Vísis hf. í Grindavík á fundi SA um atvinnuleiðina.

Hann fjallaði einnig um kjarasamningana framundan og spurði: "Hvernig er hægt að ætlast til þess að gerðir séu kjarasamningar í sjávarútvegi þegar allar rekstrarforsendur eru óljósar, hvort heldur eru tekjur eða gjöld?"

Í erindi sínu varð Pétri tíðrætt um mikilvægi stöðugleika og sagði hann hafa skilað Íslendingum forskoti í harðri samkeppni fyrir sjávarafurðir á alþjóðlegum mörkuðum. Hann rakti í ræðu sinni að með stöðugu rekstrarumhverfi gætu stjórnendur lagt orku sína, tíma og fjármuni í áframhaldandi uppbyggingu, fjárfestingar og markaðsstarf með langtímasjónarmið að leiðarljósi.

Hann harmaði neikvæða umræðu um sjávarútveg og þá sem í honum starfa og beindi orðum sínum m.a. að núverandi stórnvöldum, sem hann sagði fylgja uppskrift að óstöðugleika. Stefna og markmið væri óljós og einkenndist af skammtímaákvörðunum. Umræðan tæki mið af því og væri ómálefnaleg og meiðandi. Viðvarandi stefnuleysi og óvissa gerði það að verkum að orka stjórnenda færi í allt annað en að efla reksturinn.

Pétur sagði umræðuna um sjávarútveg í grunninn snúast um það hvort önnur kerfi en núverandi kvótakerfi hefði væru betur til þess fallin að skapa stöðugleika. Hann sagði nær öll stærstu útgerðarfyrirtækin hafa starfað í áratugi, jafnt fyrir daga kvótakerfisins sem eftir. "Við höfum prófað hvoru tveggja. Látum söguna dæma," sagði Pétur í lok erindis síns.

Sjá nánar:

Glærur Péturs Pálssonar