Rödd atvinnulífsins í dag kl. 17-18

Atvinnulífið hefur upp raust sína í dag á vef SA og á Útvarpi Sögu FM 99,4. Samtök atvinnulífsins munu senda út sex klukkustundarlanga umræðuþætti um íslenskt atvinnulíf fram að aðalfundi SA sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica, á síðasta degi vetrar, miðvikudaginn 22. apríl. Þættirnir verða sendir út milli kl. 17 og 18.

Í þættinum í dag verður m.a. fjallað um hvernig hægt sé að skapa störf og berjast gegn atvinnuleysi. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, mun fjalla um hvað þurfi til og hvaða aðstæður þurfi að vera fyrir hendi til að svo megi verða.

Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá SA, mun greina frá helstu niðurstöðum alþjóðlegra viðræðna um aðgerðir í loftslagsmálum sem lauk fyrir páska í Bonn. Viðræðurnar  eru  liður í undirbúningi fyrir stóru loftslagsráðstefnuna sem fram fer í Kaupmannahöfn í desember 2009 en þar er búist við því að lokið verði við gerð nýs alþjóðlegs samkomulags um loftslagsmál sem taka á við þegar tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur árið 2012.

Mikið er rætt um nýsköpun í atvinnulífinu um þessar mundir og mikilvægi hennar. Hilmar B. Janusson, þróunarstjóri hjá Össuri, lítur við og ræðir um nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og um umhverfi rannsókna og þróunarstarfs á Íslandi. Hvar stöndum við og hvar getum við bætt okkur á þessu sviði?

Í þættinum í dag verður ennfremur fjallað um áform Greenstone ehf. um uppbyggingu gagnavera á Íslandi. Greenstone er félag í eigu Íslendinga, Hollendinga og bandarískra aðila. Í tilkynningu frá félaginu segir að áform séu uppi um að framkvæmdir geti hafist á þessu ári og að fyrstu gagnaverin verði komið í notkun í janúar 2011. Í tilkynningu félagsins segir ennfremur að ritað hafi verið undir samning við bandarískt stórfyrirtæki, möguleg erlend fjárfesting hér á landi geti numið allt að 200 milljörðum króna og allt að 300 ný bein störf geti skapast auk fjölda afleiddra starfa. Rætt verður við stjórnarformann Greenstone, Svein Óskar Sigurðsson um þessi stórhuga áform.

Smellið á borðann hér að neðan til að hlusta á upptöku þáttarins 14. apríl.

Smelltu til að hlusta

SMELLIÐ HÉR TIL AÐ FÁ NÁNARI UPPLÝSINGAR UM AÐALFUND SA

Hægt er að hlusta á Útvarp Sögu um allt land á eftirfarandi tíðnum:

FM 99,4 - Höfuðborgarsvæðið
FM 92,1 - Akureyri og nágr.
FM 99,1 - Selfoss og nágr.
FM 93,7 - Skagafjörður
FM 101,0 - Ísafjörður
FM 104,7 - Vestmannaeyjar