Róbert Trausti Árnason til SA

Róbert Trausti Árnason hefur verið ráðinn verkefnastjóri Evrópumála á stefnumótunar- og samskiptasviði Samtaka atvinnulífsins og hefur þegar tekið til starfa. Um nýtt starf er að ræða og mun Róbert Trausti verja um helmingi starfstímans í Brussel. Verkefni Róberts Trausta munu m.a. snúa að því að fylgja eftir hagsmunamálum atvinnulífsins í tengslum við þær breytingar sem á hverjum tíma er verið að vinna að á Evrópulöggjöfinni. Vera íslenskum fyrirtækjum innan handar í Brussel, viðhalda tengslaneti innan stjórnkerfisins hér á landi, aðildarsamtaka SA, einstakra fyrirtækja og víðar ásamt því að vera tengiliður íslensks atvinnulífs við stjórnvöld í Brussel.

Undanfarið hefur Róbert Trausti unnið við sjálfstæðan rekstur en áður starfaði hann m.a. sem forstjóri Keflavíkurverktaka, hjá utanríkisráðuneytinu á árunum 1986-2000 sem ráðuneytisstjóri, sendiherra og forsetaritari og hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO) í höfuðstöðvum þess í Belgíu frá 1981 til 1986.