Ríkisaðstoð við atvinnulíf með minnsta móti á Íslandi

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent frá sér skýrslu um ríkisaðstoð á árunum 2004 og 2005 í EFTA löndunum þremur sem aðild eiga að EES-samningnum (e. State Aid Scoreboard). Er þar að finna greinargerð um fjárhæðir ríkisstyrkja á Íslandi, í Liechtenstein og Noregi, ýmsa sundurliðun þeirra og  samanburð við ESB-ríkin. Þetta er fyrsta skýrslan sem ESA sendir frá sér um þetta efni.

Hvað er ríkisaðstoð?

EES-samningurinn felur í sér ákvæði um ríkisaðstoð sem takmarka heimildir hins opinbera í aðildarlöndunum til inngripa í atvinnulífið með fjárhagsstuðningi við ákveðin fyrirtækin eða tilteknar greinar atvinnulífsins. Almenna reglan er sú samkvæmt 61. gr. samningsins að ríkisaðstoð sem raskar samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum og hefur áhrif á viðskipti milli aðildarlanda er bönnuð. Eftirlitsaðilum, sem er ESA í tilviki EFTA-ríkjanna, er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu almenna banni að uppfylltum skilyrðum sem kveðið er á um.

Hugtakið ríkisaðstoð er víðtækt og nær ekki aðeins til beinna styrkveitinga ríkisins til fyrirtækja og atvinnulífs heldur til fjárhagsaðstoðar hins opinbera við atvinnufyrirtæki í heild og í hvaða formi sem er. Auk beinna styrkja nær það t.d. til skattaívilnunar, niðurgreiddra lánskjara, ódýrra ríkisábyrgða, áhættufjármagns og opinberra fjárfestinga þar sem ekki er gerð eðlileg arðsemiskrafa. Ríkisstyrkjaákvæði EES-samningsins takmarkast við gildissvið hans, sem þýðir að þau ná til allra atvinnugreina annarra en landbúnaðar og sjávarútvegs.

Eftirlit byggt á tilkynningarskyldu

Eftirlit með ríkisaðstoð samkvæmt EES-samningnum grundvallast á skyldu stjórnvalda í hverju ríki til að tilkynna ESA fyrirfram um öll áform um að veita ríkisaðstoð. Efnislega byggist eftirlitið ekki á heildarfjárhæðum styrkveitinga heldur á mati á löggjöf og reglum sem hvert ríki setur um aðstoð og hvort reglurnar feli í sér að ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara sé ívilnað. Á hinn bóginn er aðildarríkjum skylt að senda ESA eftir á ársskýrslur um fjárhæðir styrkveitinga samkvæmt öllum styrkjakerfum eða einstökum aðgerðum sem ESA hefur samþykkt. Umrædd skýrsla ESA byggist á þessum heimildum. Niðurstaðan fyrir EFTA ríkin er dregin saman í eftirfarandi töflu þar sem sýnd er heildarfjárhæð styrkja í hverju landi og fyrir EFTA löndin alls ásamt hlutfalli þeirra af vergri landsframleiðslu (VLF).

Ríkisaðstoð í EFTA ríkjum 2004 og 2005

Ríkisaðstoð í EFTA ríkjunum

Smellið á töfluna til að sjá stærri mynd!

Heildarfjárhæð veittra styrkja í EFTA ríkjunum nam á árinu 2004 um 1,4 milljörðum evra (um 122 milljörðum ísl. króna skv. gengi í maí 2007) og um 1,6 milljörðum evra (138 ma.kr.) árið 2005. Tölurnar endurspegla þó mikinn mun milli EFTA ríkjanna varðandi stefnu stjórnvalda að þessu leyti. Heildarfjárhæð styrkja er að sjálfsögðu langhæst í Noregi. Það helgast þó ekki aðeins af margfaldri stærð hagkerfisins miðað við hin EFTA löndin, heldur er hlutfall styrkja af vergri landsframleiðslu á árinu 2005 (0,647%) ríflega fjórfalt miðað við samsvarandi hlutfall hér á landi (0,145%) og sautján-falt miðað við Liechtenstein.

Samanburður við ESB

Framkvæmdastjórn ESB aflar með sambærilegum hætti upplýsinga um ríkisaðstoð í aðildarlöndunum. Er í skýrslu ESA sýndar nokkrar niðurstöður um þetta efni sem draga má saman á eftirfarandi mynd:

 

Ríkisaðstoð í EES-löndum árið 2005

sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (án flutningsaðstoðar)

 

Ríkisaðstoð í EES-löndum

 

Smellið á töfluna til að sjá stærri mynd!

 

Upplýsingarnar staðfesta að sem hlutfall af stærð hagkerfisins hefur ríkisaðstoð á Íslandi verið með minnsta móti samanborið við önnur ríki EES. Liechtenstein er sér á báti í þessum samanburði, en þar er ríkisaðstoð óveruleg. Ísland er í hópi með Lúxemborg, Grikklandi, Eistlandi og Litháen, en þetta eru þau lönd innan EES þar sem ríkisaðstoð er lægst, á bilinu 0,12 - 0,15% af VLF á árinu 2005. Meðaltal ríkisaðstoðar í ESB-ríkjunum var tæplega þrefalt miðað við Ísland, en meðaltal EFTA-ríkjanna 3,5 falt.

Áhrif ríkisaðstoðar á samkeppni

Hvað varðar áhrif ríkisaðstoðar á samkeppni er það ekki aðeins heildarumfangið sem máli skiptir heldur ekki síður hvers eðlis aðstoðin er og hvaða markmiðum er stefnt að með henni. Framkvæmdastjórn ESB og ESA heimila því aðeins ríkisaðstoð að hún sé talin uppfylla skilyrði Evrópuréttar um undanþágur, sbr. 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins. Í þessu felst m.a. krafa um að aðstoðin miði að skilgreindu þróunarmarkmiði. Aðstoð sem engin skýr markmið hefur er almennt ekki heimiluð. Sama gildir um magntengda aðstoð við útflutning og í flestum tilvikum rekstraraðstoð og björgunaraðgerðir við fyrirtæki í fjárhagsvanda.

Hvað markmið varðar er ríkisaðstoð að öðru leyti gjarnan skipt í þrjá flokka: aðstoð til eflingar tiltekinna atvinnugreina, byggðaþróunaðstoð  og aðstoð sem hefur svonefnd lárétt markmið sem hvorki eru bundin við ákveðna atvinnugrein né landsvæði. Atvinnugreinabundin aðstoð felur oft í sér mikla hættu á því að samkeppni sé raskað. Aðstoð sem hefur lárétt markmið og beinist t.d. að því að efla rannsóknar- og þróunarstarfsemi, umhverfisvernd, starfsþjálfun eða lítil og meðalstór fyrirtæki, miðar oft að því að leiðrétta markaðsbresti og er þá oft ekki talin hafa jafn skaðleg áhrif á samkeppni. Með vísan til svonefndra Lissabon-markmiða hefur framkvæmdastjórn ESB t.d. hvatt til þess að dregið verði úr ríkisaðstoð en um leið að hún ætti í ríkara mæli að beinast að slíkum láréttum markmiðum (e. less and better targeted state aid).

Ólík markmið ríkisaðstoðar

Skýrsla ESA leiðir einnig í ljós athyglisverðan mun milli landa hvað varðar markmið ríkisaðstoðar sem endurspeglar atvinnustefnu stjórnvalda í hverju landi. Á Íslandi nam lárétt aðstoð 68% af aðstoð alls á árinu 2005, þar af vó þyngst aðstoð til rannsóknar- og þróunarstarfsemi (48%). Aðstoð við einstakar atvinnugreinar nam 24% af heild og byggðaaðstoð 8%. Í Noregi var vægi byggðaaðstoðar hins vegar mun meira, eða 29%, hlutfall atvinnugreinaaðstoðar var 44% en láréttrar aðstoðar aðeins 28%. Þótt aðstoð í Liechtenstein sé í heild lítil er hún öll atvinnugreinabundin og veitt til fjölmiðla og fjármálafyrirtækja. Af þessu má draga þá ályktun að auk þess sem ríkisaðstoð á Íslandi er hlutfallslega lág er hún þess eðlis að ætla má að hún hafi tiltölulega lítil áhrif á samkeppni sérstaklega miðað við lönd sem veita margfalt hærri styrki til fyrirtækja í einstökum atvinnugreinum.

Mismunandi form ríkisaðstoðar

Loks má nefna sundurliðun ríkisaðstoðar eftir því í hvaða formi hún er veitt, en eins og áður var nefnt getur ríkisaðstoð verið í hvaða formi sem er. Aðferðir til styrkveitinga eru ólíkar milli EFTA landanna. Á Íslandi var yfir 95% aðstoðar veitt í formi beinna styrkja á árunum 2004 og 2005, en mismunurinn var einkum skattaívilnun. Í Noregi var hátt í 65% aðstoðar veitt með skattaívilnun, rösklega 30% voru beinir styrkir og hagstæð lán um 3%. Ríkisaðstoð í formi hagstæðra ríkisábyrgða var óveruleg í EFTA-ríkjunum.

Sjá nánar: Skýrsla ESA