Ríkið verður af milljarðatekjum

Upptaka skatts á vaxtagreiðslur til erlendra aðila olli því að tíu erlend fyrirtæki lögðu niður starfsemi í fyrra. Tvö fyrirtækjanna greiddu einn milljarð í skatt á síðasta ári. Tæplega 740 manns með rúmar 420 þúsund krónur í mánaðarlaun þarf til að vega upp tapið. Um tíu dótturfélög erlendra stórfyrirtækja hættu starfsemi hér síðasta haust eftir að afdráttarskattur á vaxtagreiðslur til erlendra aðila var innleiddur. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en Samtök atvinnulífsins hafa lagt til að skatturinn verði felldur niður.

Í umfjöllun Fréttablaðsins 30. september segir m.a.:

"Þótt fyrirtækin hafi haft litla eiginlega starfsemi voru þau á meðal hæstu skattgreiðenda landsins á síðasta ári. Tvö þeirra greiddu samtals um einn milljarð króna í skatta. Það jafngildir tekjuskatti 738 einstaklinga með 423 þúsund krónur í laun á mánuði, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.

"Fyrirtækin hættu starfsemi gagngert vegna afdráttarskattsins," segir Andri Gunnarsson, lögmaður hjá Nordik Legal, sem vann að því að vinda ofan af starfsemi fyrirtækjanna. Hann bendir á að þau hafi kosið að hafa rekstur hér vegna lágs tekjuskattshlutfalls. Öðru máli gegni um afdráttarskattinn, sem tíðkast ekki á Norðurlöndunum og hefur að mestu verið lagður af innan Evrópusambandsins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur til í nýlegri skýrslu sinni að skatturinn verði lagður af eða umfangsmiklar breytingar gerðar á honum. Þá leggja bæði Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins til að hann verði felldur niður."

Skattkerfi atvinnulífsins - smelltu til að sækjaSamtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands kynntu í síðustu viku ítarlegar tillögur til umbóta á íslensku skattkerfi en þar er m.a. fjallað um skaðleg áhrif á atvinnulífið vegna upptöku umrædds skatts sumarið 2009.

Fjallað er um málið í kafla 4.9 (bls. 58) en tillögur samtakanna má nálgast hér að neðan:

Tillögur SA og VÍ til umbóta má nálgast hér