Ríkið selji flugstöð Leifs Eiríkssonar og tengda starfsemi vegna áhættu

Isavia hefur að undanförnu kynnt heildaráætlun um uppbyggingu innviða á Keflavíkurflugvelli (svk. Masterplan). Áætlunin felur í sér að á næstu 5-7 árum verði fjárfesting í flugstöð Leifs Eiríkssonar 50- 70 milljarðar króna. Eins og fram hefur komið hefur ríkið þegar hafist handa við þessa fjárfestingu því ekki er gert ráð fyrir neinni arðgreiðslu Isavia til ríkisins á þessu ári til að styrkja stöðu félagsins og þannig undirbúa fjármögnun framkvæmda.

Ástæða fjárfestinganna er sú að spáð er mikilli fjölgun flugfarþega um Keflavíkurflugvöll á komandi áum og áratugum. Á síðasta ári voru taldir tæplega 4 milljón farþega um völlinn og búist við að sá fjöldi muni tvöfaldast á næstu 7 árum eða svo að farþegar geti orðið um 14 milljónir árið 2040 eða þrefalt fleiri en 2014. Einnig er búist við að vöruflutningar aukist um ríflega 80% á þessum tíma.

Farþegar um flugstöðina eru bæði þeir sem eru að koma til landsins og fara og einnig farþegar sem einungis eiga stutta viðdvöl í flugstöðinni á leið sinni yfir Atlantshafið. Íslensku flugfélögin hafa kappkostað að byggja upp starfsemi sína í kringum flugstöðina og legu landsins auk þess að flytja til landsins allan þann fjölda fólks sem hingað vill ferðast. Auk þess hafa fjölmörg erlend flugfélög hafið flug hingað og fjölgað ferðum. Allt er þetta afar jákvætt og hefur átt stóran þátt í vexti efnahagslífsins undanfarin ár og spáð er að sé framundan.

Isavia er opinbert hlutafélag og að fullu í eigu ríkissjóðs. Þjónustugjöld standa undir kostnaði við reksturinn. Isavia á flugstöðina og annast uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli eftir því sem spáð er að umferð aukist og flugfélögin kalla eftir. Þarna er um að ræða nýjar flugstöðvarbyggingar, fjölgun farþegahliða, aukin aðstaða fyrir vöruflutninga og bílastæði auk fjölmargra annarra þátta. Allt þetta má kynna sér á vef Isavia.

Öll flugfélögin sem annast flutninga á farþegum og vörum til og frá Keflavíkurflugvelli eru í einkaeigu og þau bera sjálf ábyrgð á sínum fjárfestingum og taka áhættuna ef eitthvað bregður út af. En ekki þarf að skoða söguna lengi til að sjá að flugstarfseminni fylgja fjölmargir áhættuþættir sem geta haft áhrif á farþegafjölda og vöruflutninga án þess að þeir geri endilega boð á undan sér.

Uppbygging Isavia á flugvellinum er því líka áhættusöm og lýtur sömu lögmálum og fjárfesting flugfélaganna. Spurningin sem vaknar er hvers vegna ríkið sé að taka þessa áhættu og hvort henni sé ekki betur fyrir komið í höndum einkaaðila.

Með því að selja flugstöðina og þjónustu við flugfélögin á jörðu niðri myndi ríkið draga sig út úr þessum áhætturekstri og það yrði einkaaðila að annast uppbygginguna og bera áhættuna af því að vænt fjölgun farþega skili sér. Einkaaðilar annast rekstur fjölmargra flugvalla í nálægum löndum t.d. Í Kaupmannahöfn og London. Mjög algengt er að einkafyrirtæki annist alla þjónustu við farþega, vöruflutninga og öryggismál á flugvöllum.

Isavia gæti staðið ágætlega eftir og annast flugleiðsöguna og aðra þætti sem undir félagið falla. Ríkið fengi í sinn hlut söluandvirðið og greitt skuldir. Auðveldara yrði eftir á fyrir ríkið  að styrkja aðra innviði þar sem brýn þörf er á úrbótum.