Ríkið greiðir 15-20% húsnæðisverðs
Styrkur ríkisins við húseigendur nemur samtals 10-15 milljörðum króna á ári, eða um 15-20% af kaupverðinu. Ríkistryggð lán til húseigenda hafa aukist um rúm 50% frá 1995 og sterk rök hníga að því að útlán Íbúðalánasjóðs eigi mikinn þátt í þenslu undanfarinna ára.
Auknar lánveitingar Íbúðalánasjóðs má rekja til þess að lánareglur hafa verið rýmkaðar og almenningur hefur óspart nýtt sér nýjar lánsheimildir. Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins á dögunum sagði Finnur Geirsson, formaður samtakanna, sterk rök hníga að því að útlán sjóðsins ættu mikinn þátt í þeirri þenslu sem verið hefur hér á landi undanfarin ár.
50% aukning frá 1995
Ríkistryggð lán til húseigenda hafa aukist um meira en 50%
umfram almennt verðlag frá 1995. Í nýlegum Peningamálum
Seðlabankans kemur fram að íslensk heimili eru einhver hin
skuldsettustu í heimi, en skuldir þeirra námu um áramót 167% af
ráðstöfunartekjum þeirra á liðnu ári. Þar af eru húsnæðislán nú um
helmingur. Leiddar eru líkur að því að húsnæðislánin hafi þó aðeins
náð 70% af endanlegri stærð. Því megi búast við að þau eigi enn
eftir að vaxa um sinn, ef ekki verði dregið úr skuldahvata í
kerfinu. Ríkisstyrkir af tvennu tagi, ríkisábyrgð og vaxtabætur,
hvetja fólk til þess að safna skuldum. Hin umfangsmikla
lánaniðurgreiðsla hér á landi hlýtur raunar að skekkja allan
samanburð á fjárhagsstöðu heimilanna hér og erlendis, því að fólk
kýs fremur að auka eyðslu sína en að greiða upp lánin, þótt það
hafi getu til.
(smellið á myndina)
Ríkisábyrgð - dulin
ríkisútgjöld
Vextir á húsbréfum eru líklega nálægt 2% lægri en vera
myndi ef ríkið tæki ekki ábyrgð á bréfunum. Vextir á lánum
Landsbankans til húsnæðiskaupa eru um 1,75% hærri en vextir á
húsbréfum á markaði. Lán Landsbankans líkjast um margt
húsbréfalánum. Þau eru til 30 ára og eru í mesta lagi 65% af
kaupverði húsnæðis. Húsbréf eru til 25 eða 40 ára og geta numið
65-70% af kaupverði húsnæðis. En bankalánin eru aðeins veitt gegn
fyrsta veðrétti og hafa því forgang á húsbréf ef lánþegi stendur
ekki í skilum og ganga þarf að húseigninni. Því má gera ráð fyrir
að styrkurinn sem felst í ríkisábyrgð á húsbréfum sé ívið meiri en
nemur muninum á vöxtum bréfanna og lána Landsbankans.
Útistandandi húsbréf og húsnæðisbréf voru tæpir 300 milljarðar króna um áramót og 1,75% af því eru fimm milljarðar króna. Ef litið er til eftirstöðva af öðrum húsnæðislánum ríkisins og haft í huga að tryggingar fyrir bankalánum eru traustari en fyrir húsbréfalánum má ætla að niðurgreiðslur á lánum sem felast í ríkisábyrgðinni séu á bilinu 5-10 milljarðar króna á ári.
Útgjöld ríkisins vegna ábyrgða á húsnæðislánum eru að miklu leyti dulin fyrst í stað. Útlán í húsbréfakerfinu eru ekki færð til skuldar í ríkisreikningi. Þess vegna hafa útlánareglur líkast til verið ákveðnar af minni fyrirhyggju en ella.
Tvöfalt
styrkjakerfi
Ríkisstyrkir til húsbyggjenda eru tvenns konar, ríkisábyrgðin, sem
fyrr var nefnd, og vaxtabætur. Vaxtabætur eru tekju- og
eignatengdar, þannig að þær greiða mestan hluta vaxta hjá tekju- og
efnalitlu fólki, en meðal- og hátekjufólk greiðir stærri hluta
húsnæðis síns sjálft. Vaxtabætur eru um fjórir milljarðar króna á
ári. Alls nemur styrkur ríkisins við húseigendur því samtals 10-15
milljörðum króna á ári. Þegar saman er talin ríkisábyrgð og
vaxtabætur virðist ekki fjarri lagi að ríkið greiði vexti af
húsnæðislánum alls niður um nálægt 3% að jafnaði.
15-20% af
kaupverði
Raunvextir af húsnæðislánum nema um þessar mundir 4,5-5% að
jafnaði, þegar vaxtabætur hafa verið dregnar frá. Ávöxtunarkrafa á
markaði, án ríkisábyrgðar, er hins vegar 7,45%. Þegar
endurgreiðslur af 25 ára húsbréfaláni eru núvirtar með 7,45%
ávöxtunarkröfu kemur í ljós að aðeins eru um þrír fjórðu hlutar
lánsins í raun endurgreiddir. Ríkið greiðir með öðrum orðum
fjórðung lánsins. Niðurgreiðslurnar eru enn meiri af húsnæðislánum
til 40 ára. Ef reiknað er með að húskaupendur leggi sjálfir fram
rúman þriðjung af kaupverði húsnæðis, en taki húsbréfalán fyrir því
sem eftir er, nema niðurgreiðslur ríkisins 15-20% af verðinu.
Hagkvæmara hjá
einkaaðilum
Í ræðu sinni á aðalfundi SA benti Finnur Geirsson ennfremur á að
Íbúðalánasjóður er með um 50% hlutdeild lánamarkaðar til
einstaklinga hér á landi. Hann sagði ekkert mæla sérstaklega
með því að meginstarfsemi slíks sjóðs væri á vegum ríkisins og að
fastlega mætti reikna með því að einkaaðilar gætu rekið hann með
betri og hagkvæmari hætti en nú væri gert.