Reykjavíkurborg kyndir verðbólguna með miklum gjaldskrárhækkunum

Reykjavíkurborg ber mikla ábyrgð gagnvart þróun verðbólgu á komandi ári. Áform borgarinnar um gjaldskrárhækkanir slá tóninn fyrir önnur sveitarfélög og verði þau að veruleika ganga þau í berhögg við  tilraunir til að koma á efnahagslegum stöðugleika í landinu. Skuldir heimilanna eru 2.000 milljarðar króna og þar af eru verðtryggðar skuldir 1.700 milljarðar króna. Áætla má að vísitala neysluverðs hækki um 0,15% vegna gjaldskrárhækkana Reykjavíkurborgar, og annarra sveitarfélaga sem sigla í kjölfarið, sem hækkar verðtryggðar skuldir heimilanna um 2,6 milljarða króna. Sú skuldahækkun nemur 3% af ráðstöfunartekjum heimilanna.

Áformaðar gjaldskrárhækkanir Reykjavíkurborgar stuðla að áframhaldandi háum verðbólguvæntingum og kunna að gera um sinn að engu tilraunir til þess að koma á stöðugu verðlagi hér á landi. Gjaldskrárhækkanir langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans munu rýra kjör fjölskyldna á tvennan hátt. Minna verður til ráðstöfunar til annarra nauðþurfta og gæða og húsnæðisskuldir hækka umfram það sem annars hefði orðið.

Það er allra hagur er að halda verðbólgu í skefjum og til mikils að vinna. Samtök atvinnulífsins hafa sýnt fram á að 1% hjöðnun verðbólgu skilar heimilunum fjórfalt meiri ávinningi en 1% launahækkun.

Með samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera er raunhæft að vinna bug á verðbólgunni og bæta þannig lífskjör heimilanna. Til að svo geti orðið verða bæði opinberir og einkaaðilar að halda aftur af hækkun gjaldskráa sinna og verðhækkun á vöru og þjónustu. Reykjavíkurborg gegnir þar lykilhlutverki.

Meginviðfangsefni komandi viðræðna um gerð kjarasamninga er að undirbyggja breiða sátt í samfélaginu um að ná tökum á gengi, verðbólgu og vöxtum. Reykjavíkurborg gengur í berhögg gegn þessu viðfangsefni með framkominni fjárhagsáætlun fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir að hækka margs konar þjónustu við fjölskyldur og barnafólk um allt að 10%.

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar byggir forsendum sem gefnar eru í þjóhagsspá Hagstofunnar frá 28. júní sl. Mikilvægustu forsendur áætlunarinnar eru að verðlag hækki um 3,5% og laun um 5,5% milli áranna 2013 og 2014. Það kalla talsmenn borgarinnar "ákveðna  vísitöluhækkun". Til viðbótar við þessar grunnhækkanir áformar síðan Reykjavíkurborg að hækka gjaldskrár sínar umtalsvert meira fyrir mikilvægustu þjónustuliði sína.

Undanfarna 8 mánuði hefur vísitala neysluverðs einungis hækkað um 1,3% sem samsvarar 2% verðbólgu á ársgrundvelli. Verðbólga án húsnæðis hefur hækkað enn minna eða um 0,56% undanfarna 8 mánuði. Það samsvarar 0,84% verðbólgu á ársgrundvelli.

Á þessu tímabili hefur Seðlabankanum tekist að halda gengi krónunnar nokkuð stöðugu og frá áramótum hefur það styrkst um 5%. Verðlag á innfluttum vörum hefur tekið mið af þeirri þróun og lækkað um 1,3% undanfarna 8 mánuði. Liðirnir sem vegna þyngst í verðbólgunni undanfarið er hækkun húsnæðisliðarins, landbúnaðarvara og þjónustuliða. Verðbólgan á árinu á sér því fyrst og fremst rætur í innlendum kostnaðartilefnum. Við erum því komin mjög nálægt verðstöðugleika ef verðbólguskrúfan verður ekki knúin áfram, t.d. af Reykjavíkurborg og öðrum leiðandi aðilum.

Allt að 0,2% hækkun á vísitölu neysluverðs ef önnur sveitarfélög fylgja fordæmi Rvk.

Ekki er auðvelt að meta nákvæmlega hver áhrif áform Reykjavíkurborgar um gjaldskrárhækkanir hafa á verðbólguna. Vissir liðir eru tilgreindir sérstaklega í vísitölu neysluverðs og aðrir ekki. Vísitöluliðirnir eru sorphreinsun, strætisvagnar  og leikskólar. Þeir liðir eru ekki sundurliðaðir eftir svæðum þannig að áhrif af hækkun eins sveitarfélags er ekki hægt að meta nákvæmlega. En ef gert er ráð fyrir að öll önnur sveitarfélög fylgi fordæmi Reykjavíkurborgar má ætla að áhrifin á vísitöluna nemi 0,13%.Áform um hækkanir annarra gjaldskráa, sem ekki er hægt að rekja til sérstakra liða í vísitölu neysluverðs, má sjá í eftirfarandi töflu.

Séu giskað á að áformaðar hækkanir framangreindra gjaldskráa vegi 0,02% í vísitölu neysluverðs eru heildaráhrif gjaldskrárhækkana Reykjavíkurborgar, að því gefnu að önnur sveitarfélög sigli í kjölfarið, áætluð 0,15%.

Skuldir heimilanna eru 2.000 milljarðar króna og þar af eru verðtryggðar skuldir 1.700 milljarðar króna. Hækkun vísitölu neysluverðs um 0,15% hækkar verðtryggðar skuldir heimilanna um 2,6 milljarða króna. Sú skuldahækkun nemur 3% af ráðstöfunartekjum heimilanna.