Reykjavík hækkar sorphirðugjöld og gjaldskrá Sorpu hækkar sjálfvirkt

Í gær, 9. janúar, birti Reykjavíkurborg í Stjórnartíðindum nýja gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í borginni. Samkvæmt gjaldskránni hækkar gjald fyrir blandaðan heimilisúrgang um 10%. Sem dæmi má nefna að gjald fyrir venjulega gráa tunnu sem sótt er á 10 daga fresti hækkar um tæp 10%, úr 18.600 kr. í 20.400 kr. Sé tunnan í meira en 15 metra fjarlægð frá sorphirðubíl hækkar gjaldið úr 23.100 kr. í 25.400 kr. sem svarar til 10% hækkunar.

Þessar gjaldskrárhækkanir voru ákveðnar í borgarráði Reykjavíkurborgar í október síðastliðnum. Til grundvallar voru lagðar forsendur um verð- og launaþróun sem gefnar voru í þjóðhagsspá Hagstofunnar í júlí 2013. Gengið var út frá þeim forsendum að á árinu 2014 myndu laun hækka um 5,6%, verðbólga vera 3,4% og gengisvísitala krónunnar verða 240 í árslok. Ekki þarf að fjölyrða um það að nú hafa verið lagðar allt aðrar forsendur um launabreytingar og verðbólgu á árinu og gengi krónunnar er töluvert sterkara nú en þá var gengið út frá.

Athygli vekur að gjald fyrir bláar tunnur hækkar ekki, en þar er borgin í samkeppni við einkafyrirtæki sem einnig bjóða fram þjónustu við heimilin og sækja til þeirra flokkaðan úrgang.

Samkvæmt greinargerð með fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2014 tekur gjaldskrá SORPU sjálfvirkum breytingum tvisvar á ári, 1. janúar og 1. júlí, skv. breytingu á svokallaðri Sorpu-vísitölu, sem er reiknuð þannig að byggingarvísitala vegur 75% og launavísitala 25%. Gjaldskrá fyrir helstu gjaldskrárflokka taka breytingum skv. þessari samsettu vísitölu og Sorpu-vísitalan mun jafnframt vera notuð til að bæta alla langtíma verktakasamninga sem er gert einu sinni á ári, þann 1. janúar.

Ekki þarf að taka fram að hækkun sorphirðugjalda er mun meiri en gefið var til kynna af forsvarmönnum borgarinnar og töluvert umfram verðlagsþróun, t.d. Sorpu-vísitölunnar. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg endurskoði hækkun sorphirðugjaldanna sem fyrst.

Gjald fyrir venjulega tunnu hefur þróast með eftirfarandi hætti undanfarin ár:Gjaldið hefur hækkað um 104% frá 2005 en á sama tíma hefur Sorpu-vísitalan hækkað um 85%. Frá síðustu hækkun hefur Sorpu-vísitalan hækkað um 3,9% en en tunnugjaldið um 9,7%.

Þarna er ekki miðað við minni þjónustu sem felst í því að tunnur eru tæmdar sjaldnar en áður. Lækkun þjónustustigsins árið 2010 (tæming á 10 daga fresti í stað 7) fól í sér að einingaverðið hækkaði um 40%. Einnig er lagt á sérstakt 5.000 kr. gjald ef tunnan er meira en 15 m frá götu sem enn hækkar kostnað heimila frá því sem áður var.

Einnig er rétt að minna á að heimilum stendur nú til boða græn tunna sem ber helmingi lægra gjald en sú gráa, enda er hún tæmd á 20 daga fresti í stað 10. Þannig geta heimilin lækkað þennan kostnað búi þau við slíkar aðstæður.

Gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 1270/2013

Fyrri gjaldskrá nr. 1280/2012

Leiðrétting: Í upphaflegri frétt var ranglega sagt að ákvörðun um hækkun sorphirðugjalda hefði verið tekin í stjórn Sorpu bs., en hún var að sjálfsögðu tekin í borgarráði Reykjavíkurborgar.