Réttur til orlofstöku, ekki orlofslauna

Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur komist að niðurstöðu í máli er varðar rétt foreldra sem hafa tekið fæðingarorlof til greiðslna í orlofi. Niðurstaða nefndarinnar er sú að 2. mgr. 14. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, felur ekki í sér rétt til orlofslauna heldur einungis rétt til orlofstöku. Er það í samræmi við álit SA sem fram kemur í umsögn samtakanna til úrskurðarnefndarinnar

Sjá nánar á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins.

Félagsmálaráðuneytið hafði áður sett fram það álit sitt að Fæðingarorlofssjóði bæri að greiða foreldrum orlofslaun. Sú túlkun kom Samtökum atvinnulífsins mjög á óvart og gekk að mati samtakanna þvert á þær forsendur sem byggt var á við setningu fæðingarorlofslaga nr. 95/2000 og viðtekinn skilning á orlofslögum. 

Sameiginleg afstaða SA og ASÍ
Því til stuðnings hafa Samtök atvinnulífsins minnt á sameiginlega skýrslu samtakanna og Alþýðusambands Íslands, "Fæðingar og foreldraorlof - mat á kostnaði við aukinn rétt foreldra", sem unnin var í aðdraganda setningar fæðingarorlofslaga. Í kostnaðarútreikningum skýrslunnar var ekki gert ráð fyrir orlofsgreiðslum.

Orlof reiknast ekki af greiðslum úr opinberum sjóðum

Er það í samræmi við þann skilning sem byggt hefur verið á varðandi orlofslög, þ.e. að orlofslaun reiknist af launagreiðslum vinnuveitanda. Hingað til hefur ekki verið litið svo á að greiðslur úr opinberum sjóðum, hvaða nafni sem þær kunna að nefnast, bætur, dagpeningar eða greiðslur í fæðingarorlofi teldust til launa í skilningi laganna. Þá má benda á að enginn eðlismunur er á greiðslum í fæðingarorlofi samkvæmt núgildandi lögum og dagpeningagreiðslum eldri laga annar en sá að upphæð greiðslna tekur nú mið af fyrri launum í stað unnins tíma. Orlofslaun eru auk þess meðtalin í þeim launum sem fæðingarorlofsgreiðslur taka mið af. Þá er samningur ríkisins við samtök opinberra starfsmanna um greiðslu orlofslauna í fæðingarorlofi einnig til marks um að sjóðnum var ekki ætlað að greiða orlof.

Myndi leiða til hærri skatta á atvinnulífið
Stórfelld rýmkun reglna um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði, sem fólgin var í fyrrnefndu áliti ráðuneytisins, myndi leiða til hækkunar skatta á atvinnulífið þar sem bein tengsl eru milli þeirra réttinda sem sjóðurinn veitir og skattsins sem fjármagnar hann og borinn er af fyrirtækjunum. Hærri greiðslur myndu þar af leiðandi skerða samkeppnisstöðu atvinnulífsins.

Með vísan til þessa fóru SA þess eindregið á leit að mál þetta yrði skoðað vandlega í heild og fagna því niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar.