Regluleg laun stjórnenda hækkað minna en launavísitalan 2006-2014

Umræða um launaþróun stjórnenda hefur verið fyrirferðamikil, ekki síst í kjölfar birtingar tekjublaðs Frjálsrar verslunar. Því hefur verið haldið fram að launaskrið meðal stjórnenda hafi verið mikið á síðasta ári og að laun þeirra hækkað umfram aðra. Þessar staðhæfingar koma ekki heim og saman við niðurstöður Hagstofunnar um launabreytingar stjórnenda í samanburði við aðra.

Hagstofan reiknar út launavísiölur á grundvelli breytinga reglulegra launa sömu einstaklinga í sömu störfum í sama fyrirtæki milli tveggja tímapunkta. Greiðslur fyrir yfirvinnu og tilfallandi greiðslur sem ekki greiðast reglulega eru ekki taldar með. Niðurstaða Hagstofunnar er sú að regluleg laun stjórnenda hafi hækkað um 5,4% milli áranna 2012 og 2013, en til samanburðar hækkaði launavísitala Hagstofunnar í heild um 6,1%.

Hagstofan birtir reglulega meðallaun þriggja hópa stjórnenda. Stjórnendahópnum er skipt í forstjóra og aðalframkvæmdastjóra, yfirmenn framleiðslu- og rekstrardeilda og loks yfirmenn annarra deilda. Að beiðni Samtaka atvinnulífsins útbjó Hagstofa Íslands sérvinnslu um launaþróun þessara þriggja hópa stjórnenda frá árinu 2006. Hagstofan gerir þann fyrirvara við sérkeyrsluna að um sé að ræða niðurbrot sem er meira en finnst í opinberri útgáfu.  Útfærsla á aðferðafræði með svo miklu niðurbroti er enn í vinnslu og byggir því sérkeyrslan á ákveðinni nálgun sem er enn í mótun og því beri að fjalla um niðurstöðurnar með þeim fyrirvara.

Niðurstaðan fyrir tímabilið í heild, þ.e. frá september 2006 til júní 2014, er sú að forstjórar og aðalframkvæmdastjórar hafi hækkað um 46,5%, yfirmenn framleiðslu- og rekstrardeilda um 47,4% og yfirmenn annarra deilda um 52,5%. Til samanburðar hækkaði launavísitalan í heild um 61,5% á þessu tímabili.

3 hopar ny.jpg

Við skoðun á breytingum launa forstjóra og aðalframkvæmdastjóra einstök ár kemur í ljós að árið 2008 hækkuðu þau rúmlega 2% minna en launavísitalan, árið 2009 lækkuðu þau um rúmlega 3% á sama tíma og launavísitalan hækkaði um tæp 4%, árin 2010-2013 var hækkun launa forstjóra svipuð og hækkun launavísitölunnar og á þessu ári hefur hækkun forstjóranna verið heldur minni, eða 3,4% samanborið við 4,1% hækkun launavísitölunnar. 

3 hópar 3.jpg