Rafrænar þinglýsingar verða að veruleika á árinu

Rafrænar þinglýsingar verða að veruleika á árinu 2021. Þetta kom fram í máli Andra Heiðars Kristinssonar, leiðtoga verkefnisins Stafræns Íslands á fundi sem Samtök fjármálafyrirtækja stóðu meðal annars fyrir fyrr í dag. Rafrænar þinglýsingar eru lykilþáttur í að Íslandi verði fremst í flokki í stafrænni stjórnsýslu. Þjóðhagslegur ávinningur er mikill og er að lágmarki metinn á bilinu 1.2-1.7 milljarðar króna á ári, samkvæmt útreikningum Stafræns Íslands. Ávinningurinn er þó fyrst og fremst sparnaður á tíma hjá sýslumönnum, lánastofnunum, fasteignasölum og almenningi.

Áhersla stjórnvalda á innleiðingu stafrænna lausna er skref í rétta átt að sjálfsögðum aðgangi  einstaklinga og fyrirtækja að opinberri þjónustu sem felur í sér mikið hagræði, að mati Samtaka atvinnulífsins. Í því samhengi má taka dæmi af þinglýsingum í nágrannalöndum á borð við Danmörku og Bretland. Þar er ferlið þegar rafrænt og tekur ekki lengri tíma en nokkrar mínútur. Hér á landi hefur móttaka, þinglýsing, afgreiðsla, aflýsing og afhending þinglýstra skjala farið fram á skrifstofu embættis sýslumanns sem tekur í mörgum tilvikum margar vikur að afgreiða erindið. Sú breyting sem nú er boðuð er þannig framfaraskref í átt að því sem tíðkast í nágrannalöndunum.

Verkefnið Stafrænt Ísland, sem heldur utan um framkvæmd verkefnisins, er talið geta sparað allt að 4 milljarða króna á ári með stafrænni umbyltingu í hvers kyns þjónustu hins opinbera. Á fundinum í dag kom fram að markmiðið sé að Ísland verði komið í hóp fimm efstu þjóða í stafrænni þjónustu samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum innan fimm ára.

Hér er hægt að horfa á fundinn í heild.