Rafræn kosning formanns SA

Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins verður haldinn þann 17. apríl næstkomandi á Hótel Nordica. Stjórn Samtaka atvinnulífsins hefur ákveðið að taka upp rafræna kosningu við val formanns samtakanna og fer slík kosning í fyrsta sinn fram í vor.

Kosningin gengur þannig fyrir sig að félagsmenn fá sent lykilorð með aðalfundarboði sem opnar aðgang að kjörseðli á vef SA - www.sa.is. Þar verður kosningahnappur sem félagsmenn smella á til að komast inn á kosningasíðu, þaðan nálgast félagsmenn síðan kjörseðilinn með hjálp lykilorðsins. Á kjörseðlinum verða nöfn þeirra sem eru í framboði (auk venjulegra valkosta). Félagsmenn fylla kjörseðillinn út og smella loks á hnappinn kjósa. (Svörin verða þá send í gagnabanka sem heldur utan um fjölda atkvæða og hverjir hafa kosið). Þeir sem ekki eiga þess kost að greiða atkvæði rafrænt verður gefinn kostur á að greiða atkvæði á skrifstofu SA. Einnig geta félagsmenn fengið senda atkvæðaseðla ef þeir óska. Rafrænni kosningu lýkur kl. 12:00 á aðalfundardag þann 17. apríl 2007.

Kosningakerfið er hannað af fyrirtækinu Outcome hugbúnaði ehf. og mun umsjón kosninganna vera hjá þeim. Atkvæði kjósenda verða ekki rakin af SA og kosningin því leynileg.