Rætt um samfélagsábyrð fyrirtækja í Reykjavík
Norræn ráðstefna um samfélagsábyrgð fyrirtækja fer fram í Reykjavík dagana 14.-15. maí nk. Um er að ræða ráðstefnu fyrirtækja á Norðurlöndum sem hafa skrifað undir Global Compact, sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð. Mörg framsæknustu fyrirtækja Norðurlanda eiga fulltrúa á ráðstefnunni en þar mun fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í New York m.a. fara yfir stöðu mála og framtíðarstefnumörkun Global Compact.
Ísland og Grænland taka höndum saman
Samtök atvinnulífsins eru tengiliður á Íslandi við Global
Compact en samtök atvinnulífsins á Grænlandi eru einnig gestgjafar
ráðstefnunnar með SA. Er þetta í fyrsta sinn sem tvö lönd eru
sameiginlega gestgjafar ráðstefnu sem þessarar og ánægjulegt að
Ísland og Grænland taki þetta skref.
Meðal fyrirlesara er Maalina Abelsen, þingmaður og fyrrverandi fjármálaráðherra Grænlands, sem mun fjalla um tækifæri til samstarfs atvinnulífsins og stjórnvalda á sviði samfélagsábyrgðar, verkefni sem tengjast menntamálum, atvinnusköpun, heilbrigðis- og umhverfismálum svo eitthvað sé nefnt.
Aukinn áhugi á Íslandi
Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja hefur verið
ráðgefandi við undirbúning ráðstefnunnar. Áhugasamir
stjórnendur um Global Compact geta haft samand við Hörð Vilberg hjá
SA til að kynna sér málið frekar en aukinn áhugi er meðal íslenskra
fyrirtækja að vinna að samfélagsábyrgð með formlegum hætti.
Alls hafa 12 aðilar skrifað undir Global Compact á Íslandi en viðbúið er að það fjölgi í hópnum á næstu vikum og mánuðum. Nú þegar hafa Ölgerðin, Síminn, Prentsmiðjan Oddi, ÁTVR, FESTA, Össur, Íslandsbanki, Íslandsstofa, Íslandspóstur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Alta og Landsbankinn skrifað undir sáttmálann.
Öflugt framtak
Global Compact er eitt öflugasta framtakið í heiminum á
sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja og sjálfbærni. Sameinuðu
þjóðirnar hleyptu verkefninu af stokkunum í júlí árið 2000 en um er
að ræða 10 viðmið sem fyrirtæki setja sér að fara eftir. Fyrirtæki
sem taka þátt í verkefninu geta notað Global Compact til að gera
viðskiptavinum sínum, birgjum og opinberum aðilum grein fyrir
samfélagsstefnu sinni. Aukin krafa er um að fyrirtæki geri
opinberlega grein fyrir hvernig þessum málum er háttað innan
fyrirtækjanna.
Meira en sjö þúsund fyrirtæki hafa skrifað undir Global Compact í heiminum en alls hafa yfir yfir 10.000 aðilar hafa skrifað undir sáttmálann í 145 löndum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér það markmið að 20 þúsund fyrirtæki hafi skrifað undir sáttmálann árið 2020 með það að markmiði að auka sjálfbærni efnahagslífs heimsins.