Rætt um geðheilsu og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja

Þriðjudaginn 5. febrúar kl. 8.00-10.00 munu Straumhvörf - efling þjónustu við geðfatlaða og Samtök atvinnulífsins standa fyrir morgunverðarfundi um geðheilsu og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja á Hilton Reykjavík Nordica. Á undanförnum árum hefur átt sér stað aukin umræða um hlutverk fyrirtækja í samfélaginu og að þau taki aukna samfélagslega ábyrgð með því að taka þátt í ýmsum verkefnum sem varða heilsu og hag samfélagsins. Stjórnendur og eigendur fyrirtækja hafa áttað sig á því að þátttaka fyrirtækja í samfélagslegum verkefnum hvort sem það er fjárhagslega eða á annan veg getur skilað sér með margvíslegum hætti.

Verkefnin geta verið margvísleg og ólík en hafa það sammerkt að þau snerta hagsmuni og velferð einstaklinga sem búa í þessu samfélagi. Um getur verið að ræða stuðning við starfsmenn, umhverfismál, menntamál, íþróttir, listir og rannsóknir sem snerta velferðarmál svo eitthvað sé nefnt. Stjórnendur og eigendur fyrirtækja hafa orðið þess áskynja að heilbrigt og framsækið samfélag er ávinningur fyrir fyrirtækin þar sem það gefur færi á fleiri sóknarfærum fyrir þau.

Straumhvörf - efling þjónustu við geðfatlaða hafa tekið höndum saman við Samtök atvinnulífsins að vekja athygli á þeim ónýtta mannauð sem býr í geðfötluðu fólki. Geðfatlaðir geta lagt sitt af mörkum í meira mæli en nú er. Fram kemur í opinberum gögnum að fjöldi þeirra hefur töluverða vinnugetu en hefur samt sem áður ekkert hlutverk á vinnumarkaði. Þessu er hægt að breyta með samstilltu átaki fyrirtækjanna í landinu og þeirra sem starfa með geðfötluðu fólki frá degi til dags.

Á málfundinum verður skipst á skoðunum um efnið og farið í brúarsmíð milli þeirra sem málið snertir þannig að allir geti lagt sitt af mörkum til almennrar hagsældar fyrir samfélagið allt. Fundurinn er öllum opinn og hefst stundvíslega kl. 8.00.

Dagskrá fundarins

Straumhvörf í lífi geðfatlaðra.

Ásta R. Jóhannesdóttir, alþingismaður og formaður verkefnisstjórnar Straumhvarfa.

Viðskiptalífið og mannauður sem býr í geðfötluðum.

Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr.

Tækifæri - sjónarmið notanda.

Nanna Þórisdóttir, starfsmaður AE starfsendurhæfingar.

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja - hagur allra.

Páll Ásgeir Davíðsson, sérfræðingur hjá Háskólanum í Reykjavík.

Umræður

Samantekt

Pétur Reimarsson, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins.