Ræktun á hampi í Rödd atvinnulífsins

Fimmti umræðuþáttur SA um íslenskt atvinnulíf verður sendur út á vef SA í dag kl. 17-18. Nýsköpun og menntamál verða þar í forgrunni en m.a. verður rætt um tilraunaræktun á hampi sem hefst í vor til að framleiða vefnaðarvöru sem verður nýtt í íslensk föt. Markmiðið er að framleiða algjörlega sjálfbæra náttúrulega vöru. Einnig verður kynnt til sögunnar ný íslensk vara sem hefur hlotið góðar viðtökur: Hlaupabretti fyrir hesta.

Rætt verður við Dögg Hjaltalín, bóksala, um hampræktunina en hún mun einnig segja frá vinsælustu bókunum um viðskipti þessa dagana og kynna til leiks nýjar bækur sem fjalla um árangur, nýsköpun og leiðtoga.

Bjarni Sigurðsson, framkvæmdastjóri Formax - Paralamp segir frá framleiðslu á hlaupabrettum fyrir hesta og útflutningi á lömpum til notkunar við fiskvinnslu.

Í síðari hluta þáttarins verða mennta- og fræðslumálin í sviðsljósinu. Rætt verður við Margréti Pálu Ólafsdóttur, stofnanda Hjallastefnunnar, um Hjallastefnuna og tækifæri til atvinnusköpunar í skólamálum.

Þá mun Ingibjörg E. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, segja okkur frá starfsemi fræðslumiðstöðvarinnar en aðilar vinnumarkaðarins hafa sett sér háleit markmið um að árið 2020 hafi 90% fólks á íslenskum vinnumarkaði lokið viðurkenndu námi úr framhaldsskóla.

Smellið á borðann hér að neðan til að hlusta á upptöku þáttarins 20. apríl.

Smelltu til að hlusta