Ræða fráfarandi formanns Samtaka atvinnulífsins

Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins 2013 stendur nú yfir. Opin dagskrá hófst kl. 14 á Hilton Reykjavík Nordica þrátt fyrir stórhríðina sem nú leikur um höfuðborgina. Vilmundur Jósefsson, fráfarandi formaður SA, flutti ræðu sína rétt í þessu og ræddi um mikilvægi þess að atvinnulífið, verkalýðshreyfingin og stjórnmálaflokkarnir á Íslandi nái á næsti vikum og mánuðum samstöðu um að skapa fleiri og betri störf á Íslandi á næstu árum og bæta lífskjör landsmanna.

Ræða  Vilmundar Jósefssonar á aðalfundi SA 2013:

 Vilmundur Jósefsson á aðalfundi SA 2013

Félagar, góðir gestir

Þegar kom að því að meta stöðu og framhald kjarasamninga í janúar síðastliðnum var ekki sjálfgefið að Samtök atvinnulífsins myndu vilja að samningarnir giltu áfram út þetta ár. Forsendur þeirra höfðu ekki haldið. Tryggingagjaldið lækkaði ekki eins og lofað hafði verið. Fjárfestingar og umsvif í hagkerfinu höfðu ekki aukist eins og ætlað var. Innistæða fyrir launahækkunum í febrúar var því minni en byggt var á við gerð kjarasamninga í maí 2011.

Í stað þess að efna til óvissu á vinnumarkaði ákváðu samtökin að láta samninginn gilda áfram. Jafnframt að strax yrði hafinn undirbúningur að næstu samningum. Í þeim samningum er það markmið SA að semja til langs tíma þar sem launahækkanir taka mið af framleiðniaukningu í atvinnulífinu. Geta atvinnulífsins til að standa undir auknum kaupmætti launa ræðst líka af því hvort stöðugleiki ríki í efnahagsmálum og verðbólga sé lág, að það takist að auka fjárfestingar, að skattkerfið styðji við fjárfestingar, að fyrirtækin búi við samkeppnishæft rekstrarumhverfi og að skólakerfið tryggi að atvinnulífið fái til starfa fólk með viðeigandi menntun.

Ég hef á undanförnum vikum ferðast um landið og hitt hundruð manna; forystufólk í atvinnulífinu og verkalýðshreyfingu, launafólk og sveitarstjórnarmenn. Nánast undantekningarlaust kallar fólk eftir samstöðu til að hefja Ísland upp úr efnahagslægðinni. Það vonast eftir sameiginlegri sýn stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um eflingu atvinnulífsins, efnahagslegan stöðugleika, fleiri störf og betri störf. Það ríkir djúpur skilningur á því meðal þjóðarinnar að verðmætasköpun fyrirtækjanna standi undir velferðarkerfinu. Sá skilningur hefur því miður ekki verið til staðar hjá núverandi stjórnvöldum.

Á sama tíma hefur fólk áhyggjur af því að rafmagnið detti út í óveðrum, að netsamband sé ótryggt,að viðhaldi vega sé ekki sinnt og öryggisleysi vegna heilbrigðisþjónustu. Fólk horfir á opinber störf hverfa á brott, og innviði samfélagsins ganga úr sér. Miklar áhyggjur eru af gríðarlegri sértækri skattheimtu á landsbyggðarfyrirtækin þar sem milljarðatugir eru sogaðir burt til ríkisins.

Þegar vel gengur í atvinnulífinu mælist það í auknum hagvexti og fólk sér að verið er að byggja upp, fjárfesta og búa í haginn til framtíðar. Við skynsamlega efnahagsstefnu tekst að auka kaupmátt og bæta lífskjör. Störfum fjölgar og skatttekjur hins opinbera hækka. Svigrúm allra til að takast á við nýja hluti batnar.

En þetta gerist ekki nema menn vilji vinna saman, hafa sameiginleg markmið og fara ákveðna leið.

Samstöðuleið.

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að horft sé til næstu fimm ára og sett ákveðin markmið um mikilvægustu þættina í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.

Frá aðalfundi SA 2013

Stöðugleiki

Íslendingar hafa mikla og langvarandi reynslu af víxlhækkunum launa og verðlags. Þar reynir hver að ota sínum tota og ná sem mestum launahækkunum fyrir sig. Svo kemur hver hópurinn á fætur öðrum og bætir aðeins við kröfugerðina. Þetta leiðir til innistæðulausra kauphækkana, viðvarandi verðbólgu, stöðugt lækkandi gengis krónunnar og þannig heldur þetta áfram hring eftir hring. Þegar upp er staðið hefur enginn fengið neitt og allir tapað. Lífskjörin hafa ekki batnað. Nú er hættan sú að launahækkanir heilbrigðisstétta breiðist yfir allan vinnumarkaðinn. Við sjáum hvern hópinn af öðrum grípa til tiltækra aðgerða og þeir ætla greinilega ekki að sætta sig við neitt minna en næsti hópur á undan.

Þennan bolta hafa stjórnvöld sett af stað og það er alfarið á ábyrgð þeirra að sjá til þess að hann stöðvist. Það er ekkert svigrúm til undanbragða. Valkostirnir eru skýrir. Hóflegar launabreytingar í samræmi við getu atvinnulífsins til að standa undir þeim eða endalausar kollsteypur.

Í stað þess að hrekjast úr einu í víginu í annað verða stjórnvöld að móta trúverðuga stefnu um stöðugleika til næstu ára. Lykilatriðið er að ná 2,5% verðbólgumarkmiði á öllu tímabilinu 2014 til 2019. Afnema verður gjaldeyrishöftin sem allra fyrst. SA hafa sett fram hugmyndir og tillögur um hvernig það getur gerst. Það er ekki eftir neinu að bíða.

Gjaldeyrishöftin skapa samfelldan þrýsting til lækkunar krónunnar. Atvinnulífið skiptir ekki á erlendum gjaldmiðlum fyrir krónur nema til þess að greiða kostnað, afborganir af lánum eða til að kaupa eignir. Afgangur sem myndast byggist fyrst og fremst upp erlendis en ekki á Íslandi. Peningarnir leita alltaf þangað sem þeir eru frjálsir.

Samtök atvinnulífsins telja að fast gengi krónunnar á næstu árum sé besta framlagið til efnahagslegs stöðugleika og að rétt sé að sameinast um fast gengi og gera næstu kjarasamninga á þeim grunni. Margt hefur orðið til þess að grafa undan þeirri tilraun sem gerð var um fljótandi gengi og verðbólgumarkmið sem útgangspunkt í stöðugleikastefnu. Hæpið er að halda áfram á þeirri braut vegna þess að það er ekki nægilega trúverðugt. Fast gengi með ábyrgum og hallalausum rekstri ríkis og sveitarfélaga er mun vænlegra til að efla að nýju tiltrú á stöðugleika og ná samstöðu um skynsamlega niðurstöðu kjarasamninga. Takist þetta geta vextir lækkað og ýtt undir fjárfestingar.

Það er einnig mikilvægt fyrir stöðugleika í efnahagslífinu að það ríki pólitískur stöðugleiki í landinu. Kollsteypur í pólitík, þar sem sífellt er verið að breyta um stefnu, eru ekki til þess fallnar að styðja við stöðugleika í efnahagslífinu. Umræða um verðtryggingu er gott dæmi um skaðlega pólitíska óvissu sem verið er að skapa. Allir eru sammála um að verðtrygging er ekki vandamál þegar verðbólgan er lág. Nú er mikið kapphlaup um að lofa að afnema verðtrygginguna. En enginn lofar af afnema verðbólguna.

Hvað er að gerast?

Er stjórnmálastéttin að lofa að afnema verðtryggingu en treystir sér ekki til að lofa að afnema verðbólgu? Ætla menn að hætta með verðtrygginguna en halda áfram með verðbólguna? Væri ekki betra að einbeita sér að því að lofa að afnema verðbólgu? Byrja þar og sjá svo til með verðtrygginguna.

Fjárfestingar

Stöðugleiki er mikilvægur til þess að fyrirtæki fjárfesti. Óvissa og óstöðugt ástand er eitur í beinum þeirra sem fjárfesta og þurfa að tryggja ávöxtun fjármuna sinna til langs tíma. Fjárfestingar hér á landi drógust gríðarlega saman eftir 2008 og voru í lágmarki árið 2010. Þrátt fyrir að hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu hafi aukist lítillega er það enn lágt hvort sem er í sögulega samhengi eða í samanburði við iðnríkin. Fjárfestingarnar vaxa einnig hægar en gerst hefur í öðrum ríkjum sem gengið hafa í gengum svipaða kreppu. Nauðsynlegt er að fjárfestingar aukist á næstu árum og verði um 21 - 24% af landsframleiðslu á næstu fimm árum. Þær þurfa að aukast í heild um 100 - 150 milljarða króna á ári til að ná þessu marki.

Til þess þarf að létta óvissu af atvinnulífinu. Herferðinni gegn sjávarútveginum verður að linna. Það verður að hvetja til uppbyggingar starfsemi sem nýtir orkulindir þjóðarinnar. Það þarf að laða að erlenda fjárfesta í stað þess að fæla þá frá með hringlandahætti í skattheimtu. Stjórnvöld verða að sýna á borði það sem þau segja í orði um að erlend fjárfesting sé æskileg.

Það verður að vera áhugavert fyrir fólk að stofna ný fyrirtæki og þeir sem leggja fé og hugvit til að byggja upp rekstur verða að fá að njóta þess þegar vel gengur. Ýmsar hindranir eru nú í vegi þess að hér eflist öflugur hlutabréfamarkaður , auðlegðarskattur dregur mátt úr fólki og hátt tryggingargjald leggst þungt á lítil fyrirtæki.

Skattamál

Veiðigjald, sem sjávarútvegsfyrirtækin um allt land eru nú farin að greiða, mun soga aflið úr fyrirtækjunum og sjávarbyggðunum á undraskömmum tíma. Breytingar, sem gjaldið hefur í för með sér, eru einungis að litlu leyti komnar fram. Gjaldið mun, ásamt fyrirhuguðum breytingum á fiskveiðistjórnuninni, leiða til þess að skammtímahugsun verður ríkjandi, ríkisafskipti aukast og geðþóttaúthlutanir stjórnmálamanna munu aukast. Lagt er af það kerfi sem hefur verið grundvöllur hagræðingar og arðsemi greinarinnar í tvo áratugi.

Sem dæmi má nefna að fyrirtækin í Grundarfirði greiða nú veiðigjald sem slagar hátt upp í útsvarstekjur sveitarfélagsins. Í Skagafirði mun eitt fyrirtæki greiða á næsta ári gjald sem jafnast á við allar tekjur sveitarfélagsins af útsvari íbúanna. Á móti þessu hyggst ríkisvaldið leggja minni háttar fé til svokallaðrar sóknaráætlunar. Á sama tíma fækkar störfum við heilbrigðisþjónustu, löggæslu, menntastofnanir og eftirlit og þau eru ýmist lögð af eða flutt til höfuðborgarinnar.

Nei, veiðigjaldið verður að endurskoða - það verður að lækka og skattstofninn verður að laga. Fyrirtækin, fólkið sem þar starfar og byggðarlögin verða að fá að njóta þeirra verðmæta sem þar eru sköpuð.

Tryggingargjaldið verður að lækka til samræmis við minnkandi atvinnuleysi. Eigið fé atvinnuleysistryggingasjóðs er nú komið í svipaða upphæð og var fyrir hrun. Sjóðurinn er vel í stakk búinn að takast á við hugsanleg áföll. Með því að halda tryggingargjaldinu háu er dregið úr hvata fyrirtækjanna til að ráða nýtt fólk.

Samtök atvinnulífsins hvetja til þess að skattkerfið sé hagkvæmt, einfalt og gegnsætt. Skattstofnar þurfa að vera breiðir, skatthlutföll lág og undanþágur fáar. Á undanförnum árum hefur skattkerfinu verið breytt í þveröfuga átt. Flækjustig hefur verið aukið, nýir skattar teknir upp og aðrir hækkaðir. Lítt var spáð í afleiðingar skattheimtunnar en skatttekjur ríkissjóðs urðu einatt minni en ætlað var. Sem dæmi um þetta geta menn fylgst með kapphlaupi um að breyta lögum um vörugjöld sem tóku gildi nú um mánaðamótin og skapa óeðlilega mismunun og eru nánast óframkvæmanleg vegna flækjustigs.

Auk þessa hafa sífelldar skattbreytingar þrengt að rekstri fyrirtækjanna og hafa dregið úr vilja og getu til fjárfestinga. Nauðsynlegt er að hér sé stigið skref til baka og augljós sá lærdómur sem stjórnvöld geta dregið að það sé gott að hafa samráð við hagsmunaaðila og sérfræðinga til þess að hjálpa til við að gera breytingarnar á skynsamlegan hátt.

Samkeppnishæfni

Ísland hefur undanfarin ár fallið um mörg sæti á listum sem mæla samkeppnishæfni landa. Það er erfitt að sjá fyrir sér mikinn bata meðan hagkerfið er lokað og gjaldeyrishöft eru við lýði. En það er nauðsynlegt að taka mark á þessum könnunum og setja ákveðin markmið um að koma Íslandi aftur í fremstu röð, til dæmis á næstu fimm árum.

Það verður að auðvelda aðgengi að mörkuðum til dæmis fyrir fjármálaþjónustu, heimila fjármagnsflutninga og skapa fyrirtækjum möguleika til að keppa á jafnréttisgrundvelli við samkeppnisaðila í nálægum löndum. Það er ekki hægt að búa við það að íslenskt fyrirtæki geti ekki stofnað dótturfélag erlendis með 100 þúsund dollara hlutafé nema bíða í marga mánuði eftir svari Seðlabankans.

Á sama tíma er engin fyrirstaða fyrir erlent fyrirtæki að flytja svipaða upphæð til viðhalds í dótturfélagi sínu hérlendis og fá þar að auki 20% hærra verð fyrir gjaldeyrinn en öðrum býðst. Á fjölmörgum öðrum sviðum býr atvinnulífið við samkeppnistakmarkanir sem einnig auka kostnað fyrirtækjanna og almennings í landinu og eiga þátt í að lífskjör fólks halda áfram að dragast aftur úr því sem best gerist.

Við sjáum eftirlitsstofnanir tútna út og þær fá sífellt auknar heimildir til að rukka kostnað hjá fyrirtækjunum. Ekkert aðhald er hins vegar að kostnaði stofnananna og einungis í undantekningartilvikum er þess gætt að kynna gjaldskrárnar og forsendur þeirra fyrir þeim sem greiða gjaldið. Það er nauðsynlegt að eftirlit með atvinnulífinu verði markvissara og taki mið af þeirri áhættu sem fólgin er í viðkomandi rekstri. Einnig ætti að umbuna þeim sem standa sig vel með því að fækka eftirlitsheimsóknum og minnka kostnað þeirra. Þeir sem slugsa myndu þá gjalda þess í auknu eftirliti. Það er líka hægt að sjá fyrir sér að með því að fylgjast með innra gæðakerfi fyrirtækjanna megi fækka eftirlitsheimsóknum. Það er brýn þörf á nútímavæðingu allrar eftirlitsstarfseminnar, það verður að fækka leyfum, samræma skilyrði stofnana til atvinnustarfseminnar og tryggja að erindum sé svarað á réttum tíma og að umsagnir dragist ekki von úr viti.

Tækifærin

Ég minntist áður á það hvernig verið er að draga þróttinn úr sjávarbyggðunum með skattheimtu og hugmyndafræðilegu stríði sem ekki tekur neitt tillit til hagkvæmni og arðsemi. Af þeirri braut verður að snúa. Fyrirtækin verða að hafa svigrúm til að stunda vöruþróun, rannsóknir og nýsköpun.

Það er merkilegt að verða vitni af ítrekuðum tilraunum nokkurra alþingismanna til að leggja hindranir í veg eins merkasta nýsköpunarfyrirtækis Íslendinga sem er Orf líftækni. Orf líftækni var stofnað af nokkrum háskólamönnum og hefur náð undraverðum árangri við að þróa verðmæt prótein sem eru notuð í snyrtivörur og á rannsóknastofum um heim allan.

Það er heldur ekki hægt annað en fyllast aðdáun á hugmyndaauðgi og merku frumkvöðlastarfi sem rekið er undir heitinu CODLAND. Þar hafa öflug sjávarútvegsfyrirtæki ákveðið að þróa nýjar vörur, til notkunar til dæmis í lyfjaiðnaði, úr slógi sem hingað til hefur verið talið verðminnsti hluti fisksins. Takist áformin mun verðmæti þorsks og þorskafurða aukast verulega frá því sem við höfum þekkt.

Þetta mun gerast vegna þess að fyrirtækin sá sér hag í því og vegna þekkingar og langrar reynslu sem þar er að finna. Það er mikil missýn að aukin verðmæti í atvinnulífinu verði til með auknum ríkisafskiptum og skattlagningu. Þvert á móti verða áhrifin þau að draga úr rannsóknum, þróun og nýsköpun þar sem hið opinbera tekur til sín nánast allan afrakstur sem til kann að verða.

Eins og ég sagði frá hér í upphafi þá hef ég á undanförnum vikum heimsótt mjög mörg fyrirtæki og rætt við forsvarsmenn þeirra. Það er sammerkt þeim öllum að hugsa til framtíðar, þau eru að búa í haginn fyrir sig, hagræða og velta fyrir sér möguleikum á markaði og hvernig unnt sé að skapa aukin verðmæti.

Þetta er einnig reynsla mín eftir að hafa tekið þátt í félagsstörfum atvinnulífsins í ríflega tvo áratugi. Íslenskt atvinnulíf er frábært, þar starfar ótrúlega margt hæfileikaríkt fólk sem er fullfært um að auka verðmætasköpun, sækja fram, búa til nýjar vörur, nýja þjónustu og skapa fleiri störf og betri störf.

En menn verða að stefna að sama marki. Það verður að ríkja skilningur á því hvar bætt lífskjör verða til. Þau verða til í fyrirtækjunum með okkar daglega puði og með því að nýta öll tækifæri sem bjóðast til að skapa ný verðmæti.

Tækifærið er núna á næstu vikum. Alþingiskosningar munu færa okkur nýja ríkisstjórn. Það verður á hennar ábyrgð að móta stefnu til næstu ára. Samtök atvinnulífsins eru reiðubúin til samstarfs við ný stjórnvöld og vonast til þess að það geti orðið farsælt.

Með sameiginlegu átaki mun okkur takast að ná að hefja nýja sókn til framfara. Sókn sem byggir á samstöðu. Sókn sem hefur að markmiði að bæta lífskjörin í landinu og býr til fleiri störf og betri störf.

Ég þakka að lokum öllum þeim fjölmörgu sem ég hef kynnst og átt samstarf við undanfarin ár og áratugi í störfum mínum fyrir Samtök atvinnulífsins og áður Samtök iðnaðarins. Einkum og sér í lagi vil ég þakka Vilhjálmi Egilssyni og samstarfsfólki hans fyrir einstaklega gott samstarf á undanförnum árum. Á það samstarf hefur hvergi borið skugga. Á skrifstofu Samtaka atvinnulífsins er valinn maður í hverju starfi. Vilhjálmur og hans fólk hefur unnið mjög gott starf í mótbyr síðustu ára. Ég óska Samtökum atvinnulífsins góðs gengis í sínu mikilvæga starfi á komandi árum.

Takk fyrir.