Ræða formanns Samtaka atvinnulífsins á aðalfundi 2010

"Íslensk fyrirtæki verða að fjárfesta,  hafa greiðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum án gjaldeyrishafta, lágum vöxtum og bankakerfi með góð alþjóðleg tengsl til þess að standast alþjóðlega samkeppni. Þau verða að hafa aðgang að markaði fyrir skuldabréf og hlutabréf og endurreisn trausts á verðbréfamarkaði er einn lykilþáttur í uppbyggingunni. Fyrirtækin verða að hafa svigrúm til þess að stunda nýsköpun, skapa ný störf og geta hagnast og greitt eigendum sínum eðlilegan arð. Fjárfestingar í útflutningsgreinum þurfa að verða á breiðu sviði, allt frá orkufrekum iðnaði, meðalstórum iðnaðarkostum til uppbyggingar ferðaþjónustu.

Til þess verða allir ábyrgir aðilar - stjórnvöld, hagsmunasamtök, fólk og fyrirtæki  - að standa saman um þessi lykilatriði." Þetta sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, m.a. á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem nú stendur yfir.

Í ávarpi sínu fjallaði Vilmundur m.a. um komandi kjarasamninga, skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, frávísun SA frá stöðugleikasáttmálanum og andstöðu SA við frekari skattahækkanir, misrétti í lífeyrismálum og nauðsynlegar fjárfestingar í atvinnulífinu til að skapa ný störf.

Ræðuna í heild má lesa hér að neðan:


Forsætisráðherra, góðir gestir.

Í desember næstkomandi verða nánast allir kjarasamningar lausir, bæði á almennum markaði og hjá opinberum starfsmönnum. Það tímabil sem nú er að renna sitt skeið er hið fjórða í röð kjarasamninga sem hvert um sig hefur staðið í þrjú til fjögur ár. Markmið með langtímasamningum hafa verið að  hér ríkti stöðugleiki, bæði gengis og verðlags,  og friður á vinnumarkaði sem skapaði jarðveg fyrir vöxt og framfarir í atvinnulífinu, og þar með kjarabætur. Við endurskoðun samninganna  á síðasta ári var markmiðið enn að í lok árs 2010 hefðu verið stigin marktæk skref til þess að uppfylla svonefnd Maastricht-skilyrði sem fela í sér að verðbólga yrði minni en 2,5%, hallarekstur hins opinbera í samræmi við áætlun AGS og stjórnvalda og að vaxtamunur við evrusvæðið yrði minni en 4% og gengi krónu yrði á bilinu 130-140 krónur fyrir evru.

Því miður hefur þetta ekki gengið eftir og ljóst að kjarasamningar í haust verða mjög erfiðir. Bæði er að verðbólga er enn allt of mikil, gengi krónunnar lægra en gert var ráð fyrir og vextir allt of háir. Raungengi íslensku krónunnar er nú í lágmarki og um 30 - 40% lægra en sögulegt meðaltal eftir því hvort miðað er við verðlag eða laun. Hættan er sú að þetta lága gengi leiði til krafna um miklar launahækkanir en verði sú niðurstaðan leiðir það til enn meiri verðbólgu. Íslendingar gætu þá komist aftur á fornar slóðir með stöðugum gengislækkunum, margfaldri verðbólgu miðað við viðskiptalöndin og háum vöxtum. Efnahagsstefna stjórnvalda verður að koma í veg fyrir slíkar ófarir og skapa skilyrði fyrir styrkingu krónunnar og vaxtalækkunum. Verðbólguleiðin mun draga enn frekar þróttinn úr íslensku atvinnulífi, hamla fjárfestingum og halda aftur af hagvexti. Sú leið mun viðhalda atvinnuleysi, og seinka kjarabótum. Það má minna á að á tímabilinu 2004 - 9 hækkuðu laun hér á landi um 50% en kaupmáttur rýrnaði um 2%. Á sama tíma voru launahækkanir í samkeppnislöndum um 10 - 15%. Það eru því ný sannindi og gömul að launahækkanir tryggja ekki kjarabætur.

Ríkisstjórnin hlýtur að koma gerð kjarasamninga í haust til þess að unnt verði að skapa samfélagssátt um það efnahagsumhverfi sem atvinnulífið og fólkið í landinu býr við. Sú sátt verður að byggja á því að hér ríki efnahagslegt jafnvægi með stöðugu gengi, hóflegum vöxtum og án halla á rekstri ríkissjóðs og sveitarfélaga.

Það er fagnaðarefni að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur nú samþykkt aðra endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Þar með er ljóst að unnt verður að standa við skuldbindingar íslenska ríkisins á næstu árum. Einnig þarf að ljúka sem fyrst samningum um Icesave. Þannig á gengi krónunnar að geta hækkað, lánshæfismat Íslands batnað og unnt verður að afnema gjaldeyrishöftin hratt og örugglega. Sömuleiðis á að geta opnast aðgangur að erlendum fjármagnsmörkuðum en án hans fá hvorki fyrirtækin né fjármálakerfið nauðsynlegt erlent fjármagn til uppbyggingar.

Skýrsla rannsóknarnefndar
Fyrir tíu dögum birti rannsóknarnefnd Alþingis niðurstöður sínar um aðdraganda og orsakir falls bankanna árið 2008. Skýrsla nefndarinnar virðist afar vel unnin og trúverðug og þar er dregið fram margt sem kemur á óvart. Ljóst virðist að þann tíma sem skýrslan fjallar um hafi leikið lausum hala ýmsar höfuðsyndir mannkyns um árþúsundir; óhóf, græðgi, dáðleysi, heift, öfund og dramb. Einnig koma fram sterkar vísbendingar um lögbrot sem framin hafa verið í rekstri þeirra fyrirtækja sem mest er um fjallað í skýrslunni.

Það er óásættanlegt að fyrirtæki og stjórnendur gangi á svig við lög og reglur sem gilda um viðskiptalífið eins og fjölmargar vísbendingar eru um í skýrslunni. Bankarnir og mörg eignarhaldsfélög tóku allt of mikla áhættu í rekstri sínum með kunnum afleiðingum sem bitna ekki síður á þúsundum fyrirtækja en almenningi.

Þetta tímabil þegar eignarhaldsfélög og fjármálafyrirtæki gerðust hvað umsvifamest er ótrúlega stutt. Ógnvænlegt er hvað unnt var að valda miklum skaða á skömmum tíma. Samtök atvinnulífsins voru andvaralaus gagnvart því sem raunverulega var að gerast og tóku ekki mark á þeim aðvörunum sem þó komu fram á þessu tímabili um hætturnar sem hagkerfinu voru búnar. Samtökin munu taka alvarlega ábendingar sem fram koma í viðauka skýrslunnar um siðferði og starfshætti í tengslum við fall íslensku bankanna árið 2008. Farið verður yfir ábendingarnar og metið hvað megi betur fara í starfsemi samtakanna og hvort setja eigi viðmiðunarreglur fyrir þá sem starfa á vegum SA í stjórnum sjóða og stofnana.

Yfirgnæfandi hluti fyrirtækja tók ekki þátt í þeirri hegðan sem lýst er í skýrslu rannsóknarnefndarinnar þótt annað mætti halda af umræðum. Þvert á móti stunda flestir rekstur sinn af kostgæfni, hófsemd, þrautseigju og heiðarleika eins og almennt tíðkast í daglegu lífi fólks. Í könnun sem SA létu gera nýlega kom í ljós að þrír af hverjum fjórum Íslendingum eru jákvæðir í garð íslenskra fyrirtækja og að næstum allir eru jákvæðir í garð síns vinnuveitanda. Þetta eru fyrirtækin sem hagvöxtur næstu ára þarf að byggja á. Það eru þau sem þurfa á lágum vöxtum að halda, stöðugu verðlagi og gengi og tryggum aðgangi að góðri fjármálaþjónustu til þess að geta ráðist í þær fjárfestingar og nýsköpun sem þarf til að draga úr atvinnuleysi og bæta lífskjör í landinu.

Samtök atvinnulífsins eru hagsmunasamtök alls atvinnulífs á Íslandi og vinna að því að skapa fyrirtækjum starfsskilyrði og rekstrarumhverfi sem er sambærilegt því sem best gerist í kringum okkur. Samtökin hafa þá stefnu að lög og reglur séu ekki meira íþyngjandi en almennt gerist í Evrópu, en sé það nauðsynlegt þá verði markmiðin að vera skýr og afleiðingar ljósar. Í okkar litla landi sem býr við ýmsa ókosti smæðar og fjarlægðar frá mörkuðum má sá kostnaður sem stjórnvöld leggja á fyrirtækin ekki vera óhóflegur með þeim afleiðingum að samkeppnisstaða þeirra skerðist.

Skattahækkanir ekki í boði
Samtök atvinnulífsins líta þannig á að þeim hafi verið vísað frá stöðugleikasáttmálanum sem gerður var milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda í júní á síðasta ári. Þetta gerðist með því að einstakir ráðherrar töldu sig ekki bundna af sáttmálanum sem undirritaður var af forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Umhverfisráðherra, félagsmálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ýmist hunsuðu sáttmálann eða gengu þvert gegn honum. Í gær funduðu aðilar vinnumarkaðarins, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði,  um nýjar viðræður til að endurreisa efnahags- og atvinnulífið. Þar var ákveðið að hittast að nýju í næstu viku. Gera á tilraun til að ná saman um nýja endurreisnaráætlun og láta reyna á hvort ríkisstjórnin hefur raunverulegan vilja til samstarfs. Hver sem niðurstaðan verður er nauðsynlegt að  gengið verði tryggilegar frá hlutum þannig að fyrri atburðarás endurtaki sig ekki. Samninga á að virða og orð skulu standa.

Samtök atvinnulífsins sýndu mikla ábyrgð þegar þau ákváðu að andmæla ekki skattahækkunum sem ákveðnar voru seinni hluta 2009 og samþykktu að tryggingagjald sem leggst á allar launagreiðslur hækkaði í 8,6% til að standa undir kostnaði við Atvinnuleysistryggingasjóð. Það var mat SA að betra væri fyrir atvinnulífið að taka á sig þennan kostnað strax í stað þess að hann safnaðist upp og legðist á með auknum þunga síðar. Jafnframt reyndu SA að sníða verstu agnúana af skattatillögum ríkisstjórnarinnar til að koma í veg fyrir skerta samkeppnisstöðu  einstakra fyrirtækja og atvinnugreina. Þetta tókst ekki að öllu leyti. Sem dæmi má nefna að með lögum var ákveðið að leggja kolefnisgjald á allt þotueldsneyti sem selt er hér á landi. ´

Fljótlega kom í ljós að samkvæmt alþjóðasamningum má ekki leggja gjald sem þetta á eldsneyti sem ætlað er til alþjóðaflugs. Erlend flugfélög sem hingað fljúga hefðu aldrei þurft að greiða gjaldið. Í stað þess að breyta lögunum eru sendar út tilkynningar til innheimtuaðila skattsins um að fallið sé frá innheimtu á kolefnisgjaldi á þotueldsneyti í alþjóðaflugi. Slík vinnubrögð eru ólíðandi.  Það er svo eftir öðru að hugmyndafræðingar að þessu fúski skuli nú verðlaunaðir með því að raða þeim í nýja skattanefnd. Sú nefnd er án allrar aðildar aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga sem þó eiga grundvallarhagsmuna að gæta.

Samtök atvinnulífsins munu standa fast gegn frekari skattahækkunum enda hafa þeir þegar verið hækkaðir um rúma 70 milljarða króna á ári. Áður en stjórnvöld svo mikið sem hugleiða að hækka skatta frekar verða þau að lækka árleg útgjöld ríkissjóðs um 50 milljarða króna.  Það er nauðsynlegt til þess að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum en halli á rekstri ríkissjóðs verður um 100 milljarðar króna á árinu samkvæmt fjárlögum. Engin lausn felst í því að skattleggja lífeyrissparnað landsmanna í séreignasjóðum það mun í besta falla fresta nauðsyn niðurskurðar ríkisútgjalda um eitt ár en um leið draga úr áhuga á sparnaði og framboði á nauðsynlegu fé til almennra fjárfestinga og uppbyggingar. Samtökin styðja að sem fyrst verði hrint í framkvæmd margháttuðum umbótum í áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum á árabilinu 2009 -2013. Þeim er ætlað að festa í sessi skipulag og vinnubrögð rammafjárlagagerðar.

Fjárlög næstu ára verða að byggja á forgangsröðun og endurmati á öllum gjaldaliðum. Samtökin taka einnig undir með OECD - Efnahags- og framfarastofnun Evrópu - um að unnt sé ná verulegum sparnaði í útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála, en stofnunin telur að unnt sé að ná fram lækkun útgjalda til hvors málaflokks sem svarar 1,5% af vergri landsframleiðslu án þess að fórna gæðum þjónustunnar.

Innan tíðar mun ESB samþykkja formlega umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Mikilvægt er að vandað verði mjög til þessara viðræðna en ótvírætt er að þær verða mjög gagnlegar hvort sem af aðild verður eða ekki. Þannig hefur rýni ESB á íslenska löggjöf leitt í ljós fjölmargt sem betur má fara og nægir að nefna nauðsyn umbóta til að auka sjálfstæði Seðlabanka Íslands . Ávinningur fyrir Ísland yrði mestur af aðild að myntsamstarfi Evrópu, svokölluðu ERM-2,  og til lengri tíma með upptöku evru. Búast má við að ferlið taki lengri tíma en talið hefur verið og nauðsynlegt að efnahagsstefna stjórnvalda allan tímann miðist við aðild að myntsamstarfinu og Maastricht-skilyrðin. Ekki þarf að minna hér á nauðsyn þess að vel verði haldið á íslenskum hagsmunum en á sama tíma má ekki missa sjónar á öflugri þátttöku í EES-samningnum.

Misrétti í lífeyrismálum
Almennir lífeyrissjóðir hafa byggst upp hér á landi á löngum tíma og verið viðfangsefni  samtaka vinnuveitenda og launþega í áratugi. Í kjarasamningum er samið um iðgjöld til þess að unnt verði að standa undir lífeyri sjóðfélaga. Það eru samtökin á vinnumarkaði sem skipa stjórnir sjóðanna og er það í samræmi við það sem algengast er í nálægum löndum. Atvinnurekendur líta þannig á að þetta verkefni sé á þeirra ábyrgð og því engin rök til að breyta því hvernig sjóðsstjórnirnar eru skipaðar. Með svokölluðu sjóðfélagalýðræði væri opnað fyrir átök milli einstakra hópa innan sjóðanna eins og dæmi sanna og rofin tengslin við vinnumarkaðinn. Þar væri um að ræða grundvallarbreytingu á þessu kerfi og mikla afturför. Samtök atvinnulífsins eru andvíg öllum hugmyndum um breytingar í þessa veru.

Margir lífeyrissjóðir munu á þessu ári þurfa að skerða réttindi sjóðsfélaga til þess að bregðast við áföllum í kjölfar bankahrunsins 2008 og sumir í annað sinn á jafnmörgum árum. Auknar ævilíkur, hærri örorkutíðni, fábreyttir fjárfestingarkostir og gjaldeyrishöft hafa einnig neikvæð áhrif á stöðu sjóðanna. Þrátt fyrir allt eru áföll íslensku lífeyrissjóðanna þó ekki meiri en hjá lífeyrissjóðum í nálægum löndum. Á Íslandi eru tæplega sex sinnum fleiri á vinnualdri en þeir sem eru 65 ára og eldri. Þetta mun breytast og eftir 30 ár verður hlutfallið farið að nálgast tvo á vinnualdri á móti hverjum eftirlaunaþega. Það er því gríðarlega mikilvægt að búa við öfluga lífeyrissjóði sem geta greitt eftirlaunaþegum sómasamlegan lífeyri sem þeir greiða skatt af til samneyslunnar. Þannig verður því forðað að skattbyrði vinnandi fólks verði of þung og það dragi úr vinnuframboði þess. . Í hugmyndum um skattlagningu innborgana í lífeyrissjóði felst að lífeyrir í framtíðinni yrði lægri, skattgreiðslur lífeyrisþega minni og tekjutilfærslur frá almannatryggingum meiri. Það hefði í för með sér flutning á skattbyrði frá núverandi kynslóð til þeirrar næstu. SA eru andvíg slíkum breytingum. Þá er alls óvíst og raunar mjög ólíklegt að við loforð um skattfrelsi lífeyris verði hægt að standa í framtíðinni.

Á hinn bóginn þurfa lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna ekki að glíma við skerðingu. Þar hafa hrúgast upp skuldbindingar langt umfram inngreiðslur. Lífeyrissjóðir á vegum opinberra aðila voru með yfir 500 milljarða króna tryggingafræðilegan halla í árslok 2008 sem er ávísun á miklar skattahækkanir í framtíðinni. B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins tæmist um árið 2020 og þá þarf ríkissjóður að leggja henni til árlega fjármuni sem nemur yfir 1% af landsframleiðslu í meira en áratug en síðan lækkar það hlutfall smám saman fram á miðja öldina. Vandamálin eru því miklu nær í tíma en oft er talið og stækka ár frá ári á meðan ekki er á þeim tekið. Sá mikli munur sem er á lífeyrisréttindum á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera fær ekki staðist. Á almennum vinnumarkaði þurfa lífeyrissjóðir að rísa undir skuldbindingum sínum og skerða réttindi þegar illa árar en opinberu sjóðirnir eru með ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda og þar með skattgreiðenda. Skattgreiðendur á almennum markaði þurfa því bæði að þola skert lífeyrisréttindi frá eigin sjóðum og skertar ráðstöfunartekjur til viðbótar vegna lífeyrissjóða hins opinbera.

Þótt fjárfestingarkostum hafi fækkað um sinn munu lífeyrissjóðir fjárfesta stóran hluta af ráðstöfunarfé sínu í atvinnulífinu þegar frá líður og eru mjög mikilvægir fyrir nýja sókn upp úr kreppunni. Að sjálfsögðu verða þeir að gæta fyllsta öryggis og krefjast viðunandi arðsemi. Lífeyrissjóðirnir hljóta eins og aðrir að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og draga lærdóm af henni og meta hvort ástæða sé til að skerpa á þeim reglum sem gilda um starfshætti sjóðanna.

Fjárfestingar eru nauðsynlegar
Skýrsla rannsóknanefndar Alþingis leiðir í ljós að í rekstri fjármálafyrirtækja og eignarhaldsfélaga hafi áhættusækni verið í fyrirrúmi og allt of mikil áhætta tekin. Það má þó ekki verða til þess að Íslendingar hætti að fjárfesta. Allri fjárfestingu fylgir áhætta og menn geta aldrei séð fyrir nákvæmlega hver útkoman verður. Það er áhættusamt að leggja hlutafé í fyrirtæki og næsta víst að ekki ganga þau öll vel. Það er þess vegna nauðsynlegt að almennt sé viðurkennt að þeim sem taka áhættu beri umbun þegar vel gengur. Til þess að komast út úr kreppunni verður að örva fjárfestingar með öllum tiltækum ráðum og leggja megináherslu á útflutningsgreinar og þær greinar innanlands sem skapa tekjur í erlendum gjaldeyri.

Nauðsynlegt er að ýta undir fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og annari starfsemi sem nýtir orkulindirnar á sjálfbæran hátt. Í stöðugleikasáttmálanum hét ríkisstjórnin því að greiða götu framkvæmda en því miður var það ekki efnt. Umhverfisráðherra hefur lagt sig fram um að tefja sem mest allar framkvæmdir þótt umhverfislegur ávinningur af ákvörðunum ráðherrans verði væntanlega lítill. Tilgangurinn virðist fyrst og fremst sá að þjóna þröngum, pólitískum hagsmunum. Nú er verið að vinna að rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða og meðal annars fjallað um hugsanlega nýtingu jarðhita í Gjástykki. Þá ákveður umhverfisráðherra að rífa málið úr þeim farvegi og hefja undirbúning að friðlýsingu svæðisnis í fullkominni andstöðu við heimamenn. Undarleg er einnig sú samþykkt stjórnar Landsvirkjunar að ekki megi selja orku frá virkjunum í neðri hluta Þjórsár nema til notenda á Suðurlandi. Stjórnvöld verða að virða þá staðreynd að verðmæti eru sköpuð í atvinnulífinu - um allt land.

Atvinna fyrir alla
"Atvinna fyrir alla" - aðgerðaáætlun um uppbyggingu atvinnulífsins - er heiti á riti sem SA gáfu út fyrir tveimur mánuðum. Þar er fjallað um fjölmargar aðgerðir til þess að koma Íslandi af stað. Verði ekki að gert munu lífskjör halda áfram að versna og stórfellt atvinnuleysi verða viðvarandi. Lykilatriði er að örva fjárfestingar í landinu. Þær eru á þessu ári um 10 - 14% af vergri landsframleiðslu og í sögulegu lágmarki. Þetta lága hlutfall mun einungis hafa í för með sér áframhaldandi hnignun samfélagsins. Nauðsynlegt er að hlutfallið verði tvisvar til þrisvar sinnum hærra til að hagvöxtur verði nægilegur til að hér verði full atvinna árið 2015 og að endurheimta fyrri lífskjör.

Íslensk fyrirtæki verða að fjárfesta,  hafa greiðan aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum án gjaldeyrishafta, lágum vöxtum og bankakerfi með góð alþjóðleg tengsl til þess að standast alþjóðlega samkeppni. Þau verða að hafa aðgang að markaði fyrir skuldabréf og hlutabréf og endurreisn trausts á verðbréfamarkaði er einn lykilþáttur í uppbyggingunni. Fyrirtækin verða að hafa svigrúm til þess að stunda nýsköpun, skapa ný störf og geta hagnast og greitt eigendum sínum eðlilegan arð. Fjárfestingar í útflutningsgreinum þurfa að verða á breiðu sviði, allt frá orkufrekum iðnaði, meðalstórum iðnaðarkostum til uppbyggingar ferðaþjónustu.

Til þess verða allir ábyrgir aðilar - stjórnvöld, hagsmunasamtök, fólk og fyrirtæki  - að standa saman um þessi lykilatriði.  Með samstöðu mun okkur takast ætlunarverkið.

ÍSLAND AF STAÐ!

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins