Ræða formanns SAF á aðalfundi 2013

Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) kom víða við í erindi sínu á aðalfundi samtakanna 2013. Hann fjallaði m.a. um góðan árangur sem hefur náðst í markaðsátakinu Inspired by Iceland og mikilvægi þess að félagsmenn SAF komi vel að seinni hluta átaksverkefnisins. Hann fjallaði um samfélagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar, lýsti áhyggjum af litlum fjárfestingum í þjóðfélaginu og varaði við innistæðulausum launahækkunum.

"Tölur um brottfarir erlendra ferðamanna nú í vetur hafa verið með ólíkindum og sýnir sú þróun fram á að þær markaðsaðgerðir sem unnar hafa verið á undanförnum árum eru að skila sér.  Úrtölumenn vilja halda því fram að þær markaðsaðgerðir sem stundaðar hafa verið og árangur af þeim sé fyrst og fremst tilkominn vegna hins áhrifamikla eldgoss í Eyjafjallajökli eða vegna hruns krónunnar sem gert hafi Ísland hagkvæmari áfangastað en ella. En þá má spyrja sig, hvað höfðu þessir þættir með árstíðarsveifluna að gera og jöfnun hennar? Hvatti eldgos í Eyjafjallajökli til þess að ferðamenn kæmu til Íslands að vetrarlagi? Nú eða hrun íslensku krónunnar, hvað hafði það með ferðaþjónustu að vetrarlagi að gera?"

Árni sagði samfélagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar verða sífellt meira með beina tengingu við afkomu heimilanna í landinu.

"Stjórnmálamenn sem nú gera hosur sýnar grænar fyrir okkur kjósendum ættu að hafa þetta í huga þegar þeir eru að leggja áherslu á að bæta stöðu heimilanna. Ferðaþjónustan er ekki bara grein sem býr til störf án milljarða fjárfestinga heldur aflar einnig verðmæts gjaldeyris sem styrkir stöðu krónunnar og þar með stöðu allra landsmanna."

Um horfur á vinnumarkaði sagði Árni þetta:

"Innan nokkurra mánaða verða langflestir kjarasamningar í landinu lausir. Gasprarar og lýðskrumarar munu án efa  hafa stór orð um að nú þurfi að setja stóra tveggja stafa tölu fyrir framan prósentumerkið til að efla kjör landsmanna. En hver er reynslan af slíkri aðferðafræði, hafa innistæðulausar launahækkanir verið það sem skilar samfélögum áfram? Höfrungahlaup þar sem verðbólga og prósentuhækkanir launa keppast við í tilgangslausu kapphlaupi hefur ávallt leitt til minnkandi kaupmáttar og óstöðugleika ásamt auknu atvinnuleysi.  Hér er nær að horfa til þeirra landa sem standa best í dag, hvaða lönd eru það sem koma best út úr þeim samdrætti sem hefur einkennt stöðuna í mörgum löndum í okkar heimsálfu.  

Nágrannar Þýskalands hafa kvartað undan því að þar í landi hafi verið haldið aftur að launahækkunum sem gert hafi það að verkum að Þýskaland stendur nú mun sterkar en önnur nágrannalönd þeirra. Sérstaklega hafa Spánverjar og Frakkar veist að Þjóðverjum vegna þessa en hvað skildi nú vera ástæða þessa að Spánn og Frakkland standa verr að vígi en Þjóðverjar. Er ekki líklegra að innistæðulausar og loftbólukenndar launahækkanir í þessum löndum sé ástæða þess að þar gengur ekki sem skildi í stað þess að kenna þeim um sem haldið hafa skynsamlega á málum með raunhæfum launahækkunum og þar með fylgjandi kaupmáttaraukningu.

Sömu sögu er að segja af nágrönnum okkar á Norðurlöndunum en þar hafa aðilar vinnumarkaðarins búið til agað vinnuferli þar sem raunhæfar kjarabætur eru markmiðið en ekki uppblásnar prósentuhækkanir sem skila engri raunverulegri aukningu kaupmáttar. Hér er ástæða til að staldra við og velta fyrir sér hvort hér sé ekki um að ræða fordæmi sem stéttarfélögin hér á landi þurfa að læra af. Reynsla okkar og annarra þjóða er einmitt sú að einungis með launahækkunum þar sem innistæða er fyrir er hægt að auka kaupmátt launþega. Ég hvet stéttarfélögin til að hafa þetta í huga þegar þau móta stefnu sína fyrir komandi kjarasamninga. Sterkar útflutningsgreinar með öflugri stöðu á erlendum samkeppnismarkaði er það sem skilar okkur auknum fjárfestingum og öflugum hagvexti."

Í erindinu fjallaði formaður SAF einnig um varnarbaráttu samtakanna vegna aukinnar skattlagningar á greinina og lýsti áhyggjum sínum af því flækjustigi sem breytt skattakerfi veldur.

 "Um miðjan ágúst síðastliðinn bárust okkur þær fréttir úr fjölmiðlum að fjármálaráðherra hefði ákveðið að hækka virðisaukaskatt á gistingu úr 7% í 25,5% með mjög stuttum fyrirvara eða frá 1. maí á þessu ári. Fylgdi þáverandi fjármálaráðherra þessari fyrirhuguðu breytingu með einhverjum lágkúrulegasta málflutningi sem nokkur ráðherra hefur flutt gagnvart okkar grein þar sem hún taldi ferðaþjónustuna vera niðurgreidda atvinnugrein sem skilaði ekki sínu í þjóðarbúið. Í framhaldi af þessu voru síðan kynntar hugmyndir um breytingar á vörugjöldum á bílaleigubílum sem að óbreyttu hefðu gengið mjög nærri rekstri þeirra, flotinn hefði elst til muna og endurnýjun orðið helmingi minna en að var stefnt auk þess sem verð á bílaleigubílum til ferðamanna hefði þurft að hækka um þriðjung.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa sjaldan staðið frammi fyrir annarri eins ógn af hendi stjórnvalda og var því strax ákveðið að grípa til varna með því að fá færustu sérfræðinga til að gera stjórnvöldum grein fyrir því að þessar aðgerðir myndu ekki skila þjóðarbúinu auknum tekjum af ferðaþjónustu heldur þvert á móti myndu tekjur dragast verulega saman. Endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtæki voru fengin til verksins og hleypur kostnaður samtakanna á milljónum vegna þessa en með vandaðri vinnu þeirra, starfsmanna SAF og margra félagsmanna var niðurstaðan sú að mun lengri fyrirvari er á breytingunni á virðisaukaskattinum  og verður aftur tekið upp 14% þrep eins og var í gildi fyrir nokkrum árum síðan.

Breytingar á vörugjöldum á bílaleigur voru jafnframt að nokkru leyti dregnar til baka og hafði því þessi barátta þó nokkurn árangur þó auðvitað hefðum við viljað að gengið yrði lengra. Flækjustigið í virðisaukaskattkerfinu er með þessari síðustu breytingu hinsvegar orðið það mikið að einn reikningur til ferðamanns getur innihaldið allt að 4 mismunandi virðisaukaskattsþrep.  Hér er því enn verk að vinna til að einfalda hlutina og gera kerfið markvissara."

Sjá nánar:

Ræða Árna Gunnarssonar á aðalfundi SAF 2013

Ítarleg umfjöllun um aðalfund SAF á vef samtakanna