Ræða formanns SA á aðalfundi samtakanna 2011

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, lauk  rétt í þessu ávarpi sínu á aðalfundi SA sem nú stendur yfir. Vilmundur kom víða við í ræðu sinni, ræddi m.a. stöðu kjaraviðræðna, nauðsynlegan viðsnúning í efnahagslífinu og samskiptin við stjórnvöld. Vilmundur sagði aðeins eina leið vera færa út úr kreppunni, en það væri atvinnuleiðin, með kröftugri uppbyggingu atvinnulífsins.Aðeins þannig mætti skjóta styrkum stoðum undir velferðarkerfið og koma í veg fyrir aukinn hallarekstur ríkissjóðs og frekari niðurskurð á opinberri þjónustu.

Vilmundur Jósefsson á aðalfundi SA 2011

Ávarp Vilmundar má lesa í heild hér að neðan:

Ræða formanns Samtaka atvinnulífsins
á aðalfundi SA 2011

Forsætisráðherra, góðir gestir, félagar!

Kjarasamningar á vinnumarkaðnum hafa verið lausir í nokkra mánuði. Lokið er fjórða tímabili kjarasamninga sem hvert um sig stóð í þrjú til fjögur ár. Samtök atvinnulífsins telja nauðsynlegt að enn á ný verði samið til langs tíma - þriggja til fjögurra ára. Þannig eru lögð drög að stöðugleika, öryggi skapað um rekstur fyrirtækjanna og friður ríkir á vinnumarkaði. Þetta er jafnframt nauðsynlegt til tryggja almennar kjarabætur og til að endurheimta að hluta kaupmátt sem tapast hefur að undanförnu vegna lágs gengis krónunnar og verðbólgu.

Samtökin telja að launabreytingar þurfi að vera sambærilegar við það sem gerist í nálægum ríkjum og samræmast getu fyrirtækjanna til hagræðingar og nýsköpunar og almennri framþróun í hagkerfinu.

Við gerð kjarasamninga er valið milli tveggja leiða. Önnur leiðin byggir á auknum fjárfestingum og samningum til langs tíma. Fyrirtækjum landsins er tryggð full og eðlileg þátttaka í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og stöðugt, öruggt og hagstætt rekstrarumhverfi. Samkeppnisskilyrði atvinnulífsins jafnast á við það sem best gerist í nálægum löndum. Í þannig umhverfi vegnar fyrirtækjunum best, þau skapa verðmæti, störf, tekjur fyrir starfsfólkið og hagnað fyrir eigendur sem tekið hafa áhættu og lagt fram vinnu við uppbyggingu þeirra. Þetta umhverfi tryggir aukinn kaupmátt, dregur úr atvinnuleysi og eykur skatttekjur hins opinbera. Þetta er ATVINNULEIÐIN, leið samstöðunnar, leið Samtaka atvinnulífsins út úr kreppunni.

En þessi leið er ekki sjálfgefin. Þeir eru margir sem vilja feta aðra slóð og fara hina leiðina, leið sundrungarinnar, verðbólguleiðina. Hún er Íslendingum að góðu kunn. Hún var farin um áratuga skeið. Leiðin felst í miklum launahækkunum, þar sem hver hópur reynir að knýja fram sem mestar hækkanir til sín. Í kjölfarið fylgir svo mikil verðbólga þar sem launahækkanir eru ekki í neinu sambandi við aukna verðmætasköpun í fyrirtækjunum. Svo fellur gengið til að rétta af hlutina og allir sitja eftir í engu betri stöðu en í upphafi. Samtök atvinnulífsins hafna verðbólguleiðinni.

Í samtölum okkar við fulltrúa Alþýðusambandsins og landssambanda þess undanfarnar vikur hefur ríkt góður andi þrátt fyrir aðstæður sem ekki eiga sér hliðstæðu. Báðir aðilar gera sér fulla grein fyrir erfiðri stöðu launafólks og fyrirtækja eftir hremmingar undanfarinna ára. Við samningsgerðina verður að feta vandratað einstigi þar sem lítið má út af bregða þannig að illa fari. Aðilar hafa nálgast verulega en ekkert er fast í hendi enn. Nú er verið að vinna að lausn ýmissa mála sem eru nauðsynlegur hluti heildarsamkomulags gagnvart landssamböndum og landsfélögum ASÍ. Einnig hafa samningsaðilar lagt fram sameiginlegar tillögur til ríkisstjórnarinnar þar sem fram koma viðbrögð við hugmyndum stjórnvalda frá því fyrir viku síðan.

Forsenda þess að kjarasamningar takist er að aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld skapi sameiginlega sýn um þróun efnahagsmála á næstu misserum. Nauðsynlegt er að atvinnutryggingagjald lækki til samræmis við minnkandi atvinnuleysi eins og kveðið er á um í lögum. Það skapar svigrúm til launahækkana og einnig hafa SA viljað leggja sitt af mörkum til unnt sé að bjóða fleirum tækifæri til menntunar sem nýst getur atvinnulífinu og eins að gert verði sérstakt átak til að auka hér ferðamannastrauminn allan ársins hring.

Gjaldeyrishöftin seinka efnahagsbatanum

Íslenskt atvinnulíf getur ekki búið við gjaldeyrishöft til lengri tíma. Gjaldeyrishöftin eru óásættanleg og fela í sér að fyrirtæki hér á landi geta ekki átt samstarf við erlend fyrirtæki á jafnréttisgrundvelli. Atvinnulífið getur ekki fjárfest erlendis og höftin stöðva framþróun og nýsköpun í fyrirtækjunum. Það er sama í hvaða atvinnugrein fyrirtækin starfa - hvort það er verslunarfyrirtæki, ferðaþjónusta, útflutningsfyrirtæki eða fyrirtæki sem lifir á sköpunarkrafti starfsmanna sinna - þau verða öll fyrir áhrifum af höftunum og þau dragast aftur úr keppinautum sínum. Nútíma atvinnulíf verður að búa við frjálst fjármagnsflæði og óheftan aðgang að erlendum fjármagnsmörkuðum og geta sótt sér bæði lánsfé og eigið fé. Gjaldeyrishöftin eru til þess fallin að seinka efnahagsbata, þau eru yfirlýsing stjórnvalda um að hagkerfið hér á landi sé annars flokks. Höftin eru yfirlýsing um að stjórnvöld trúi ekki á gjaldmiðilinn sem þau sjálf gefa út - því skyldu þá aðrir gera það.

Það hafa allir gott af því að kynna sér hve erfitt það var að afnema öll þau höft sem lögð voru á efnahagslífið á síðustu öld. Hluta þeirrar sögu og þeim tímamótum, sem urðu árið 1959, lýsir Gylfi Þ. Gíslason í bók sinni Viðreisnarárin, sem út kom árið 1993. Hann lýsir hvernig hans eigin skoðanir breyttust á sjötta áratugnum og segir svo:

"Ég sannfærðist um að sá haftabúskapur, sem stundaður hafði verið í nærfellt þrjá áratugi, stuðlaði hvorki að hagvexti né kjarabótum, ekki að heilbrigðu atvinnu- og viðskiptalífi, yki ekki skilyrði til þess að bæta og fegra mannlífið. Vænlegasta leiðin til þess að auka framleiðslu og bæta lífskjör væri að efla frjálsræði í atvinnulífi og viðskiptum en jafnframt yrði að tryggja jafnræði í tekjuskiptingu."

Tilvitnun lýkur. Þetta er rifjað upp hér vegna þess að alveg sama hvernig hlutunum er snúið þá er áætlun um gjaldeyrishöft í fimm ár afar metnaðarlítil og seinkar lífkjarabata alls almennings í landinu.

Samþykkt Icesave er liður í endurreisninni

Samtök atvinnulífsins álíta mikilvægt að Icesave-samkomulagið frá því í desember síðastliðnum verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn og telja hagsmunum atvinnulífsins og alls samfélagsins best borgið með því að ljúka málinu. Menn geta hér á landi verið ósammála alþjóðlegu matsfyrirtækjunum um neikvæð áhrif þess að Icesave-samningurinn verði felldur, á sama hátt og menn voru ósammála umfjöllun Danske Bank um íslenska bankakerfið fyrir nokkrum árum. Það breytir því ekki að á þessi fyrirtæki er hlustað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og áhrif mats þeirra eru mikil. Samþykkt Icesave-laganna styrkir forsendur kjarasamninganna um hagvöxt, framkvæmdir og fjárfestingar. Það er einn þáttur í endurreisn hagkerfisins og liður í því að opna atvinnulífinu aðgang að innlendu og erlendu lánsfé á viðráðanlegum kjörum og unnt verður að afnema gjaldeyrishöftin hraðar en ella.

Fjárfestingar, virkjanir og orkunýting

Fjárfestingar eru í sögulegu lágmarki en þær eru forsenda hagvaxtar. Fjárfestingar auka umsvif í hagkerfinu, fjölga störfum hratt, þjónustufyrirtækin fá aukin verkefni og aukin tiltrú breiðist út um þjóðfélagið að samdráttarskeiðinu sé að ljúka. Störf verða til bæði á uppbyggingartíma og eins varanleg störf til lengri tíma. Fjárfestingar þurfa að verða í öllum greinum, og í alls kyns fyrirtækjum, bæði stórum og smáum. Sérstaklega verður að beina sjónum að aukinni útflutningsframleiðslu og öðrum greinum í alþjóðlegri samkeppni. Tækifærin eru til staðar. Það er kunnara en frá þurfi að segja að raungengi íslensku krónunnar er nú lægra en það hefur áður verið. Samt hefur vöruútflutningur ekki aukist nema óverulega. Einmitt nú ætti að vera tækifæri til að fjárfestinga í útflutningsgreinum þar sem bæði eru sköpuð störf og greidd samkeppnishæf laun.

Nýlegar áætlanir um framvindu efnahagsmála  gera ráð fyrir allt of litlum hagvexti. Til þess að breyta þessu verður að auka verulega fjárfestingar í landinu frá því sem nú er gert ráð fyrir. Þar blasa við tækifæri í orkuframkvæmdum og tengdum iðnaðarframkvæmdum. Taka verður sem fyrst ákvarðanir um virkjanir á Suður- og Suðvesturlandi og hefja undirbúning við virkjanir þar, sem skilað geta 850 MW á næstu þremur árum. Þarna er um að ræða Búðarhálsvirkjun, stækkun Reykjanesvirkjunar, nýjar virkjanir í Eldvörpum, Krýsuvík og Hverahlíð og þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Það er ekki unnt að láta hagkvæmar, umhverfisvænar og nauðsynlegar virkjanir bíða eftir því að ferlinu endalausa um svokallaða rammaáætlun ljúki, sérstaklega í þeim tilvikum að umhverfismat liggur fyrir eins og á við um virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Þess má geta að uppbygging álvers í Helguvík og stækkun í Straumsvík eru fjárfestingar sem samtals geta numið um 5 - 6% af landsframleiðslu á hvoru árinu fyrir sig 2012 og 13. Þetta eru því lykilverkefni við að auka fjárfestingar á Íslandi. Ekkert annað jafnast á við það.

Það er einnig mjög mikilvægt að stjórnvöld láti af öllum tafaleikjum við uppbyggingu orkuvinnslu og tengdrar starfsemi í Þingeyjarsýslum. Þar verður að tryggja að ekki verði kastað frá stórum verkefnum sem staðið geta undir nauðsynlegum innviðum eins og flutningskerfi raforku og hafnarmannvirkjum.

Á aðalfundi okkar fyrir ári síðan sagði forsætisráðherra að skapast hefðu aðstæður fyrir orkufyrirtækin að hefjast handa með verkefnafjármögnun í samstarfi við innlenda og erlenda aðila. Það er nauðsynlegt að stjórnvöld greiði götu þess að fjárfestar eins og lífeyrissjóðir geti tekið yfir einstakar virkjanir og virkjanaáform sérstaklega ef það getur orðið til þess að flýta framkvæmdum. Tryggja verður fjárfestum eðlilegan nýtingartíma sem samræmist hefðbundnum afskrifta- og nýtingartíma virkjana og þeirra fyrirtækja sem orkuna nýta og skapar þeim nauðsynlegt öryggi. Þær hugmyndir sem fram koma í drögum stjórnvalda að orkustefnu um 25 - 30 ára samningstíma um nýtingu orkulinda eru algerlega óraunhæfar enda er samkvæmt skattalögum heimilt að afskrifa orkumannvirki á allt að 100 árum. Afleiðingin verður sú að orkuverð til fólks og fyrirtækja hér á landi hleypur upp úr öllu valdi og stöðvar allar hugmyndir um nýtingu orkulinda og tengdar framkvæmdir. Því fyrr sem þessar hugmyndir eru dregnar til baka því betra.

Sjávarútvegur á markaðsforsendum

Sjávarútvegurinn er einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Í áranna rás hefur hann gengið í gegnum margar kollsteypur. Lengst af hefur hann lifað við mikil opinber afskipti og stjórn efnahagsmála hér á landi snerist um það í áratugi að forða útgerð og fiskvinnslu frá rekstrarstöðvun. Stjórnvöld réðu því hvert nýir togarar komu, þau réðu því hvar fé fékkst til uppbyggingar frystihúsa, þau stýrðu afurðaverði og afkomu greinarinnar í gegnum gengisfellingar. Helstu sveitarfélög landsins ráku stór sjávarútvegsfyrirtæki og skil milli sveitarsjóðs og áhættureksturs voru lítil. Alkunna er að Reykjavíkurborg þurfti reglulega að leggja Bæjarútgerð Reykjavíkur til fé. Síðustu meiri háttar inngrip stjórnvalda til bjargar sjávarútveginum voru fyrir rúmum tveimur áratugum. Þá fengu kröfuhafar sjávarútvegsfyrirtækja, sem ekki voru alveg á hausnum, kröfur sínar  greiddar úr því sem hét Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina og þeir sem áttu kröfur á fyrirtæki sem voru alveg á hausnum en ríkið vildi láta reka áfram fengu ávísun á svokallaðan Hlutafjársjóð.

Sem betur fer er þessi tími liðinn og upp frá þessu hefur sjávarútvegurinn verið rekinn á markaðsforsendum og án opinberra styrkja. Það hefur gerst á forsendum kvótakerfisins sem byggir á því að fyrirtækin fái úthlutað veiðiheimildum sem svarar til hlutdeildar í viðkomandi fisktegund. Á sama tíma þurfti að bregðast við ofveiði fyrri ára og þorskaflinn hefur dregist saman um meira en 50% og minnkað úr tæpum 400 þúsund tonnum í innan við 200 þúsund tonn. Sjávarútvegurinn hefur sjálfur greitt fyrir alla hagræðingu í greininni og er vel rekin og arðsöm atvinnugrein. Þetta má bera saman við sjávarútveg í flestum nálægum löndum sem er allur meira eða minna á framfæri opinberra styrkja.

Það þarf því engum að koma á óvart að Samtök atvinnulífsins bregðist hart við þegar vegið er að grundvelli sjávarútvegsins og boðað að gera eigi upptækar veiðiheimildir og taka upp handstýrða ríkisúthlutun kvóta eftir geðþótta stjórnmálamanna. Með þessu er horfið marga áratugi aftur í tímann til miðstýringar og skömmtunar. Samtökin hafa kallað eftir samræðu við stjórnvöld um framtíð greinarinnar og kynnt hugmyndir sem unnt er að ræða og vilja kanna hvort finna megi sameiginlega fleti sem tryggja bæði hagsmuni atvinnugreinarinnar og nálgast þau pólitísku markmið sem stjórnvöld vilja ná. Niðurstaða verður að liggja fyrir áður en kjarasamningarnir verða undirritaðir. Óljós áform stjórnvalda hafa þegar valdið miklu tjóni ekki bara fyrirtækjunum heldur einnig starfsfólki þeirra og fjölmörgum öðrum sem byggja afkomu sína á viðskiptum við sjávarútveg. Stærstu og öflugustu sjávarútvegsfyrirtækin eru undirstaða byggðar um allt land og flest þeirra hafa starfað á sama stað um áratuga skeið. Atlaga að rekstrarforsendum þeirra er atlaga að þessum byggðum. Það á vart að þurfa að taka það fram að efnahagsleg áhrif sjávarútvegsins hríslast um allt þjóðfélagið og það er mikið hættuspil sem ríkisstjórnin spilar í þessu máli.

Íslendingar geta verið stoltir af sjávarútveginum, fyrirtækjunum og starfsfólkinu, sem er fremstu röð og markmið Samtaka atvinnulífsins er að tryggja að svo geti verið um ókomna tíð.

Atvinnuleiðin er velferðarleiðin

Samtök atvinnulífsins hafa verið gagnrýnd fyrir að leggja í málflutningi sínum mesta áherslu á orku- og iðnaðarmál og svo sjávarútvegsmálin. Þessi gagnrýni er ekki sanngjörn. Frá hruni hafa Samtökin lagt fram margvíslegar tillögur um hvernig unnt sé að komast út úr kreppunni. Í þessu sambandi má nefna tvö rit sem út komu með árs millibili: Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna sem kom út snemma árs 2009 og Atvinna fyrir alla, aðgerðaáætlun um uppbyggingu atvinnulífsins sem kom út í febrúar 2010. Þær aðstæður sem nú  eru uppi kalla hins vegar á markvissa stefnumótun og umfjöllun SA um orku- og sjávarútvegsmál.

Því miður hafa stjórnvöld ekki borið gæfu til að taka mið af tillögum SA um uppbyggingu atvinnulífsins. Í raun virðist sem það ríki ákveðið andvaraleysi í þjóðfélaginu. Það minnir að nokkru á stöðuna í aðdraganda bankahrunsins. Kreppan varð hér dýpri en í nálægum löndum og opinberar spár benda að auki til þess að  hagvöxtur verði minni en í nálægum löndum. Afleiðing þess er sú að lífskjör munu halda áfram að versna í samanburði við aðra á komandi árum.

Ábyrg stjórnvöld hljóta að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að snúa þróuninni við. Auka hagvöxtinn, draga úr atvinnuleysinu, bæta hag ríkissjóðs, bæta lífskjörin og  hag fyrirtækjanna. Takist þetta ekki blasir við frekari niðurskurður í útgjöldum hins opinbera og að allir innviðir samfélagsins halda áfram að ganga úr sér.

Það er í raun aðeins ein leið fær; ATVINNULEIÐIN. Það er sú leið sem farin hefur verið við uppbyggingu velferðarsamfélags á Norðurlöndum og byggir á frjálsum markaðsbúskap, öflugum fyrirtækjum, miklum útflutningi, stöðugu og fyrirsjáanlegu rekstrarumhverfi í opnu og alþjóðlegu hagkerfi. Á Norðurlöndum er það viðurkennt að verðmætasköpunin í atvinnulífinu er undirstaða velferðarinnar - vinnan skapar velferð.

Samtök atvinnulífsins kalla eftir samstöðu um atvinnuleiðina; aukinn hagvöxt, auknar framkvæmdir, minna atvinnuleysi og bætt lífskjör.

Förum atvinnuleiðina út úr kreppunni.