Ræða Birnu Einarsdóttur á aðalfundi SA 2010

"Það er orðið afar brýnt að koma íslensku atvinnulífi í gang fyrir alvöru - núna er annaðhvort að duga eða drepast." Þetta sagði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, í upphafi ræðu sinnar á aðalfundi SA sem fram fór á síðasta degi vetrar. Íslandsbanki hefur frá hruninu 2008 lánað samtals 50 milljarða króna í nýjum peningum en í erindi Birnu kom fram að Íslandsbanki hefur síðastliðna 18 mánuði unnið að ýmsum verkefnum með fjölmörgum viðskiptavinum - bæði stórum og smáum - þrátt fyrir erfitt efnahagsástand.

Unnið að uppbyggilegum verkefnum

Á aðalfundi SA kynnti Birna nokkur af þeim verkefnum sem bankinn hefur unnið að ásamt viðskiptavinum sínum að undanförnu og má lesa um þau hér að neðan. M.a. fjármögnun á 300 nýjum bifreiðum hjá Bílaleigunni Höldur á Akureyri, fjármögnun á smíði nýs togveiðiskips í Vestmannaeyjum og samning við Landsvirkjun um lánalínu upp á þrjá milljarða króna sem Landsvirkjun getur dregið á eftir þörfum. Skrifað var undir samninginn á þriðjudag.

Tilgangurinn með láni Íslandsbanka til Landsvirkjunar er að auka enn frekar aðgengi Landsvirkjunar að fyrirvaralítilli fjármögnun í íslenskum krónum og bæta þar með lausafjárstöðu fyrirtækisins. "Þessi samningur sýnir svart á hvítu að bankinn hefur fulla burði til þess að veita stórum jafnt sem smáum fyrirtækjum á Íslandi þá þjónustu sem þau þurfa á að halda - sem er mikilvægt í því uppbyggingar- og endurreisnarstarfi sem framundan er á Íslandi."

Birna sagðist vonast til þess að þau dæmi sem hún tiltók á fundinum sýni að íslenskt bankafólk hafi ekki setið auðum höndum síðastliðna 18 mánuði og tekið þar með þátt í að koma Íslandi af stað. Verkefnin sem unnið sé að séu miklu fleiri og svipaða sögu sé að segja úr hinum bönkunum.

Viðbrögð við þungri skuldastöðu fyrirtækja

Þá vék Birna að skuldastöðu íslenskra fyrirtækja en Birna segir þunga skuldastöðu íslenskra fyrirtækja í erlendri mynt eitt af því sem helst standi í vegi fyrir því að þau komist aftur af stað.

 "Íslandsbanki mun í næstu viku hefja að bjóða fyrirtækjum sem eru með tekjur í íslenskum krónum og lán í erlendri mynt að sækja um höfuðstólslækkun þannig að höfuðstól lánanna færist eins og hann var  29. september 2008.  Um leið verður lánunum  breytt í verðtryggð eða óverðtryggð lán í íslenskum krónum og við það getur höfuðstóll erlendra lána til fyrirtækja lækkað allt að 30%."

Varðandi umræðu um eignarhald fyrirtækja sem lenda í eigu bankanna sagðist Birna vilja árétta að ef Íslandsbanki lendi í þeirri aðstöðu að þurfa að leysa til sín fyrirtæki vegna skulda sé það markmið bankans að koma þeim sem fyrst í hendur á áhugasömum fjárfestum og rekstraraðilum í gagnsæju og opnu söluferli.

Ræðu Birnu má lesa í heild hér að neðan:

Það viðfangsefni sem við erum að fást við í dag er svo sannarlega mikilvægt.  Það er orðið afar brýnt að koma íslensku atvinnulífi í gang fyrir alvöru - núna er annaðhvort að duga eða drepast.

Síðastliðna 18 mánuði höfum við fólkið í bönkunum oft mátt þola gagnrýni þess efnis að allt sitji fast í bönkunum. Svo undarlega sem það hljómar þá höfum við stundum klórað okkur í höfðinu yfir slíkum fullyrðingum.

Auðvitað hefur það sem gerðist haustið 2008 haft áhrif á starfsemi bankanna og alla ákvarðanatöku innan þeirra - skárra væri það nú. Breytingar á eignarhaldi, erfið fjölmiðlaumfjöllun og pólitísk umræða hefur haft sitt að segja í þeim efnum.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram svart á hvítu að við þurfum læra af fortíðinni. 

Voru bankarnir of áhættusæknir? Já - það er augljóst.

En við verðum að gæta þess núna - þegar mest ríður á - að öfgarnar fari ekki í hina áttina.

Það er hlutverk banka reyna að meta áhættu og veita fjármagni út í atvinnulífið og þess vegna verða bankarnir að vera tilbúnir til þess að fjármagna góðar hugmyndir sem byggja á raunhæfum og vönduðum áætlunum.

Við hjá Íslandsbanka höfum síðastliðna 18 mánuði unnið með fjölmörgum viðskiptavina okkar, bæði stórum og smáum, og taka slaginn með þeim þrátt fyrir erfitt efnahagsástand.

Ég hef á síðustu mánuðum heimsótt fjölda allan af viðskiptavinum um land allt til þess að kynnast starfsemi þeirra.  Það sem ég hef rekið mig á oftar en einu sinni og ofar en tvisvar er að þessi fyrirtæki hafa hreinlega ekki þorað að óska eftir fyrirgreiðslu þar sem þau hafa ályktað sem svo að bankarnir væru jú lokaðir og enga fyrirgreiðslu að fá.

Enn staðreyndin er sú að Íslandsbanki er nú ekki meira lokaður en svo að bankinn hefur frá hruni lánað samtals 50 milljarða í nýjum peningum.

Vissulega væri ásókn í lánsfé meira ef vaxtastigið væri hagstæðara - ég dreg enga dul á það.  Önnur ástæða er sú að fyrirtæki erum mjög skuldsett nú þegar, og einnig spilar óvissa í efnahagsumhverfinu stórt hlutverk líka.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna umræðu og ákvörðun varðandi fyrningarleið þar sem ég tel persónulega tímasetningu hafa verið afar óheppileg.  Sjálf hafði ég haldið að sjávarútvegurinn væri sú atvinnugrein sem helst gæti hjálpað okkur útúr þessum ógöngum.

Og hvert hafa svo þessir fjármunir farið. Í ný verkefni, útvíkkun á starfsemi fyrirtækja og fjárfestingum í framtíðinni.

Þegar ég var beðin um að tala á þessum fundi undir yfirskriftinni "Ísland af stað" tók ég því fagnandi og ákvað að setja mig í samband við nokkra af þeim viðskiptavinum sem við höfum verið að vinna með  á undanförnum mánuðum og fá leyfi til þess að deila með ykkur nokkrum dæmisögum um þau verkefni sem við höfum ráðist í með þeim.

Byrjum í ferðamannaiðnaðinn.  Bílaleigan Höldur á Akureyri er gott dæmi um fyrirtæki sem hefur verið í blómlegum vexti enda má segja að kjöraðstæður hafi ríkt í íslenskum ferðamannaiðnaði á síðustu misserum.  Fyrirtækið sér um 105 manns fyrir atvinnu og meðalstarfsaldur er um 11 ár.

Steingrímur Birgisson, forstjóri félagsins, lýsti því þannig fyrir mér að bílaleiga væri fjárfrek starfsemi þar sem endurnýja þarf töluverðan hluta bílaflotans á ári hverju.  Höldur leitaði til Íslandsbanka þar sem þá vantaði fjármögnun á um 300 nýjum bílum. Íslandsbanki ákvað að taka þátt í þessu verkefni, fjármagna bílakaupin auk þess sem bankinn endurskipulagði greiðsluflæði fyrirtækisins þannig að það greiðir hærri afborganir á háannatímanum þegar sjóðstreymið er gott.

Kexverksmiðjan Frón er án nokkurs vafa eitthvert þekktasta vörumerki í íslenskum matvælaiðnaði.

Fyrirtækið starfaði lengst af í miðborg Reykjavíkur, í Þingholtunum og á Skúlagötu. Sjálf gleymi ég seint vanillulyktinni sem lagðist yfir Einholtið í gamla daga frá verksmiðjunni í Skúlagötu.

Í dag er félagið hluti af Íslensk-ameríska og hefur bankinn unnið náið með félaginu í tengslum framleiðslu fyrir innlendan markað og tekið þátt í auknum áherslum á útflutning.  Má í því sambandi nefna að Frón framleiðir uppáhalds kex Færeyinga - en félagið flytur út um 40 tonn af kexi á ári til þessara góðu nágranna okkar.

Ós er fjölskylduútgerð í Vestmannaeyjum. Félagið er að smíða nýtt togveiðiskip - Þórunni Sveinsdóttur VE sem er þriðja fleyið sem smíðað er undir þessu nafni.

Það var verið að skera fyrstu plöturnar í bátinn haustið örlagaríka 2008 þegar bankakerfið hrundi og þá ætluðu Sigurjón Óskarsson og fjölskyldan hjá Ós  ehf.  að hætta við smíðina í ljósi óvissunnar. Við hjá Íslandsbanka hvöttum þau til þess að halda áfram og smíðin fór í gang aftur tveimur mánuðum seinna.

Við erum afar stolt af því að koma þessu verkefni enda fyrsta stóra fjármögnunarverkefni nýja bankans.

Jarðgerðarstöðin Molta, jarðgerir lífrænan úrgang sem fellur til á Eyjafjarðarsvæðinu - um er að ræða úrgang frá sláturhúsum, kjötvinnslu og fiskiðju.

Þegar krónan féll lenti félagið að í vandræðum og þurfti á endurfjármögnun að halda og ákvað Íslandsbanki að fara í þetta verkefni auk þess sem sveitarfélög á svæðinu komu inn með aukið hlutafé.  Bankinn fór fram á ítarlegar upplýsingar og endurskoðaðar rekstraráætlanir.  Áætlanir gera ráð fyrir þungum rekstri - en engu síður ákvað bankinn, að vel ígrunduðu máli, að taka áhættuna með viðskiptavininum, enda um þarft og umhverfisvænt verkefni að ræða sem m.a. þjónar matvælafyrirtækjum á Eyjafjarðarsvæðinu.

Mér finnst líka við hæfi að segja ykkur frá fyrirtækinu Godthaab - eða "Góð von", sem er öflugt fiskvinnsluhús í Vestmannaeyjum. Þetta er dæmi um fyrirtæki sem byrjaði með um 20 starfsmenn fyrir 8 árum síðan en hefur í dag vaxið í að vera vinnuveitandi fyrir um 80 manns.

Godthaab er vaxandi fyrirtæki í fiskvinnslu - með góð og áreiðanlega viðskipti erlendis og eru m.a. að reyna fyrir sér í að pakka fiski í smærri einingar til að auka verðmæti og eru þátttakendur í nýju útflutningsfyrirtæki sem selur ferskar fiskafurðir til Evrópu.

Á síðasta ári var ljóst að fyrirtækið var búið að sprengja utan af sér allt húsnæði og vildu ráðast í byggingu á 700 fermetra húsnæði og leituðu til Íslandsbanka í Vestmannaeyjum.

Ingi útibústjóri í Eyjum tók þeirri málaleitan vel og Godthaab fengu lánalínu hjá Íslandsbanka til þess að geta hrint verkefninu í framkvæmd. Þetta verkefni hefur haft jákvæð áhrif á samfélagið í Eyjum og skapað smiðum og iðnaðarmönnum störf.

Nú förum við aftur norður en skiptum úr fiskvinnslu yfir í háspennu.

Norak  er fyrirtæki sem var stofnað  í kringum það verkefni að byggja og reka spennustöð til að þjónusta aflþynnuverksmiðju Becromal í Krossanesi. Fyrirtækið er samstarfsverkefni Norðurorku, Refeyri á Akureyri og

Orkuvirkis í Reykjavík.

Um var að ræða um 1100 milljóna króna framkvæmd sem þurfti að fjármagna. Eigendur lögðu til  hluta og með aðkomu bankans var fjármögnunin á þessu verkefnis tryggð.

Í gærdag var undirritaður samningur á milli Landsvirkjunar og Íslandsbanka um lánalínu uppá þrjá milljarða króna sem Landsvirkjun getur dregið á eftir þörfum.  Tilgangurinn með þessu láni er að auka enn frekar aðgengi Landsvirkjun að fyrirvaralítilli fjármögnun í íslenskum krónum og bæta þar með lausafjárstöðu fyrirtækisins.

Þessi samningur sýnir svart á hvítu að bankinn hefur fulla burði til þess að veita stórum jafnt sem smáum fyrirtækjum á íslandi þá þjónustu sem þau þurfa á að halda - sem er mikilvægt í því uppbyggingar- og endurreisnarstarfi sem framundan er á Íslandi.

Loks er gaman að segja frá því að á dögunum endurnýjuðum við samstarfið við Leikfélag Reykjavíkur sem er elsti viðskiptavinur bankans og erum við afskaplega ánægð að geta lagt menningunni lið líka.  

Ég vona að þessi dæmi hér að framan sýni að við bankafólkið höfum ekki setið auðum höndum síðastliðna 18 mánuði og tekið þátt í að koma Íslandi af stað.

Þetta er aðeins lítið brot af þeim fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við okkur ég verð að segja að ég er afar stolt af því hvað mörg þeirra eru kraftmikil og öflug í sinni starfsemi. Ég veit líka hinir bankarnir hafa svipaða sögu að segja.

Á síðustu misserum hefur mikið verið fjallað um úrræði og lausnir fyrir fyrirtæki og einstaklinga.

Eins og öllum hér inni er ljóst er þung skuldastaða íslenskra fyrirtækja í erlendri mynt eitt af því sem helst stendur í vegi fyrir því að þau komast aftur af stað.

Íslandsbanki mun í næstu viku hefja að bjóða fyrirtækjum sem eru með tekjur í íslenskum krónum og lán í erlendri mynt að sækja um höfuðstólslækkun þannig að höfuðstól lánanna færist eins og hann var  29. september 2008.  Um leið verður lánunum  breytt í óverðtryggð lán í íslenskum krónum og við það getur höfuðstóll erlendra lána til fyrirtækja lækkað allt að 30%.

Varðandi umræðu um eignarhald fyrirtækja sem hafa komist í eigu bankanna vil ég árétta að ef að Íslandsbanki lendir í þeirri aðstöðu að þurfa að leysa til sín fyrirtæki vegna skulda er það markmið okkar að koma þeim sem fyrst í hendur á áhugasömum fjárfestum og rekstraraðilum í gagnsæju og opnu söluferli.

Þá finnst mér einnig rétt að benda á að bankarnir eru að bjóða rekstraraðilum gengisvarnir með afleiðutengdum samningum á íslensku krónuna.  Margir halda að vegna gjaldeyrishafta sé slík þjónusta ekki lengur fyrir hendi - en það er ekki svo, enda stöðva höftin ekki afleiðusamninga á "raunflæði" gjaldeyris, þ.e. vegna viðskipta með vörur og þjónustu við útlönd.  Ég get upplýst hér að þó nokkur fyrirtæki eru byrjuð að nýta sér þann möguleika að verja sjóðstreymi sitt gegn gengissveiflum með aðstoð gjaldeyrissérfræðinga banka.

Þannig leggur bankinn áherslu á að bjóða fyrirtækjum uppá þjónustu sem gerir þeim betur kleift að takast á við óvissuna í efnahagsumhverfinu.

Ágætu fundarmenn.

Á liðnu ári hefur mikil vinna farið fram innan allra fjármálafyrirtækjanna þar sem allt regluverk og starfshættir hafa verið í endurskoðun. Bankarnir hafa átt gott samstarf við stjórnvöld í þessum efnum. 

Í ljósi þeirra atburða sem gengu yfir Ísland haustið 2008 er það vafalítið freistandi og í sumu tilfellum óhjákvæmilegt fyrir stjórnvöld að herða regluverkið. 

Í lánamálum sem öðru þurfum við að vanda til verksins og taka vel ígrundaðar ákvarðanir á faglegum grunni.  Hugsanlega þýðir það að lánamál taki lengri tíma en þau gerðu á árunum 2006 og 2007 en vonandi verða þau betur ígrundaðri fyrir vikið.

Við þurfum að draga réttan lærdóm af fortíðinni.

Að því er unnið á öllum vígstöðvum, bæði í Íslandsbanka og öðrum fjármálafyrirtækjum. Við verðum þó að gæta þess að horfa ekki eingöngu í baksýnisspegilinn. Við verðum líka að horfa fram á veginn.  Við þurfum að grípa tækifærin en einnig kunna að forðast hætturnar.

Aðeins þannig kemst Ísland af stað! 

Takk fyrir mig!

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka