Ráðningaráform fyrirtækja ekki uppörvandi

Í nýrri reglubundinni könnun Capacent meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins kemur fram að nær allir aðspurðra telja sig hafa nægt starfsfólk og einungis 5,5% búa við skort á starfsfólki. Ráðningaráform stjórnenda eru ekki uppörvandi þar sem 14% hyggjast fjölga starfsmönnum á næstu sex mánuðum, 26% hyggjast fækka en 60% halda óbreyttum fjölda. Þetta er heldur lakari niðurstaða en í síðustu könnunum. Mesta fjölgunin er áformuð í fjármála- og tryggingastarfsemi en mesta fækkunin í iðnaði og framleiðslu.

Rætt var við Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra SA, um niðurstöður könnunarinnar í fréttum Stöðvar 2 mánudaginn 27. desember en Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um að kanna reglulega stöðu og framtíðarhorfur stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent en ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Hannes segir könnunina leiða í ljós að stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins séu jafn svartsýnir á þróun efnhagsmála í dag og þeir voru í miðju hruninu og aðeins tuttugu og fimm prósent þeirra telji að ástandið eigi eftir að lagast á næstu sex mánuðum. Viðhorf stjórnenda fyrirtækjanna séu könnuð á þriggja mánaða fresti og niðurstöðurnar hafi verið allar á sömu lund frá miðju ári 2008. Stjórnendum fyrirtækja lítist mjög illa á núverandi ástand en þeir séu þó heldur bjartsýnni þegar þeir líti fram á veginn.

Sjá nánar:

Niðurstöður könnunar Capacent meðal 400 stærstu fyrirtækjanna

Umfjöllun Stöðvar 2 27. desember 2010