Ráðin framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins

Ingibjörg E. Guðmundsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins ehf. Ingibjörg hefur farsælan feril að baki við starfsfræðslu og fullorðinsfræðslu, og hefur að undan förnu verið framkvæmdastjóri Mímis-símenntar. Hún er menntunar- og kennslufræðingur. Ingibjörg tekur til starfa í júnímánuði nk. Hagvangur annaðist ráðningarferlið fyrir Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. og barst mikill fjöldi ágætra umsókna.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. er ætlað að standa fyrir víðtæku menntunar- og starfsfræðsluátaki fyrir þau 42% á íslenskum vinnumarkaði sem hafa aðeins lágmarksmenntun eða mjög takmarkaða skólagöngu að baki. Áætlað er að starfsemin hefjist á hausti komanda, og mun frekari kynning þá eiga sér stað. Fyrst um sinn hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins ehf. aðsetur að Grensásvegi 16A í Reykjavík.