Ráðgjöf um samfélagsábyrgð fyrirtækja 11. janúar 2012

Samtök atvinnulífsins í samstarfi við UNDP í Kaupmannahöfn (Skrifstofu þróunaráætlunar Sameinuðu þjóðanna) bjóða stjórnendum fyrirtækja á Íslandi ráðgjöf um Global Compact - Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, miðvikudaginn 11. janúar 2012 á skrifstofu Samtaka atvinnulífsins, Borgartúni 35, 5. hæð.

Helle JohansenUm klukkustundar einkafundi verður að ræða þar sem Helle Johansen forstöðumaður hjá UNDP í Kaupmannahöfn fer yfir hvernig fyrirtæki geta hagnast á því að skrifa undir Global Compact og hvaða skuldbindingar það felur í sér. Helle mun einnig veita góð ráð um hvernig hægt er að tvinna saman stefnu fyrirtækja og gildi Global Compact, hvar sé gott að byrja og á hvaða svið sé heppilegast að leggja áherslu.

Global Compact er helsta framtakið í heiminum á sviði samfélagsábyrgðar fyrirtækja (e. Corporate Social Responsibility / CSR). Um 8.700 aðilar eiga aðild að sáttmálanum en hann byggir á 10 almennum alþjóðlega viðurkenndum gildum á sviði mannréttinda, vinnumarkaðsmála og umhverfismála auk baráttu gegn spillingu.

Nánari upplýsingar má finna á www.globalcompact.org en SA og UNDP í Kaupmannahöfn eru samstarfsaðilar um kynningu Global Compact á Íslandi.

Áhugasamir geta óskað eftir fundi með Helle Johansen frá kl. 9-17, miðvikudaginn 11. janúar með því að senda póst á Hörð Vilberg hjá Samtökum atvinnulífsins (hordur@sa.is ) sem veitir jafnframt nánari upplýsingar í síma 591-0005.

Frestur til að bóka ráðgjöf er til 9. janúar en vissara er að bóka fyrr en seinna.

Helle Johansen er með meistaragráðu í hagfræði og viðskiptafræði og hefur yfir 13 ára reynslu af ráðgjöf til fyrirtækja um stefnumörkun á sviði samfélagsábyrgðar, Global Compact, og viðskipti í þróunarlöndum. Helle hefur stýrt Nordic Business Outreach verkefninu frá árinu 2007 en á árunum 1998-2007 vann Helle fyrir danska utanríkisráðuneytið þar sem hún var m.a. ábyrg fyrir Danida verkefninu - samstarfi fyrirtækja og opinberra aðila í þróunarlöndunum. Um var að ræða fyrsta verkefni danskra stjórnvalda á þessu sviði.