Efnahagsmál - 

04. Desember 2003

Prósentuhækkanir og kaupmáttur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Prósentuhækkanir og kaupmáttur

Nú fara kjarasamningar í hönd og mörg félög launafólks á almennum vinnumarkaði skila Samtökum atvinnulífsins kröfum sínum á næstu vikum og mánuðum. Raunar er nokkrum viðræðum við flugstéttir lokið til skamms tíma, en þeir samningar urðu fyrstir lausir á síðast liðnu hausti. Stærstu fylkingar verkafólks, Starfsgreinasambandið annars vegar og félög innan þess á höfuðborgarsvæðinu hins vegar, svokallað Flóabandalag, hafa nýlega sett fram kröfur sínar.

Nú fara kjarasamningar í hönd og mörg félög launafólks á almennum vinnumarkaði skila Samtökum atvinnulífsins kröfum sínum á næstu vikum og mánuðum. Raunar er nokkrum viðræðum við flugstéttir lokið til skamms tíma, en þeir samningar urðu fyrstir lausir á síðast liðnu hausti. Stærstu fylkingar verkafólks, Starfsgreinasambandið annars vegar og félög innan þess á höfuðborgarsvæðinu hins vegar, svokallað Flóabandalag, hafa nýlega sett fram kröfur sínar.

Í umræðum nú í upphafi kjarasamninga stendur það uppúr að almenn ánægja er með árangur af yfirstandandi samningum. Sú áhersla sem verið hefur á efnahagslegan stöðugleika og raunverulega kaupmáttaraukningu á síðustu árum hefur líka skilað launafólki meiri raunhækkunum en dæmi eru um áður. Kaupmáttaraukning á almennum vinnumarkaði hefur í heildina verið 8% á yfirstandandi samingstímabili og kaupmáttur lægstu launataxta hefur aukist mun meira. Sú reynsla sem við höfum af annari nálgun að samningamálunum kennir okkur, að hærri prósentuhækkanir launa færa engar kjarabætur, ef hækkanir eru ekki reistar á traustum efnahagslegum forsendum, heldur þvert á móti.

Þannig hækkuðu laun um 2500% á tímabilinu 1980-2000, en kaupmáttur launa um 10%.  Þróunin var hins vegar verulega frábrugðin á fyrri og síðari hluta þessa tímabils.  Á tímabilinu 1980-1990 hækkuðu laun um 1450%, skv. launavísitölu Hagstofunnar, en kaupmáttur launa dróst saman um 14%!!  Á síðasta áratug, þegar verðbólga komst niður á sama stig og í nálægum löndum og launahækkanir kjarasamninga urðu hóflegri, hækkuðu laun um 67% skv. launavísitölu og kaupmáttur launa jókst um 27%.  Að jafnaði voru launahækkanir í heild rúm 5% á ári á síðasta áratug, þegar lögð er saman niðurstaða samninga og launamyndun á markaði, og árleg kaupmáttaraukning var um 2,5%.

Það er óskandi að þessi reynsla verði höfð að leiðarljósi við komandi samningagerð á vinnumarkaði. Samningarnir sjálfir verða að vera í samræmi við þau markmið sem menn setja sér um stöðugleika og lága verðbólgu. Launahækkanir sem horfa ekki til jafnvægis við það sem er að gerast í viðskiptalöndunum eru ávísun á gengislækkun og meiri verðbólgu. Krónurnar verða bara minni.

Þegar allt kemur til alls stjórnast varanlegar lífskjarabætur af framleiðniþróuninni í þjóðfélaginu. Langur vinnufriður og efnahagslegur stöðugleiki eru því besta viðspyrnan fyrir bætt lífskjör.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins