Óvissa um framtíðar rekstrarumhverfi sjávarútvegsins skaðleg

Það sem veldur sjávarútvegi mestum vanda í dag er aðallega tvennt. Annars vegar stórfelldur niðurskurður á aflaheimildum og hins vegar óvissa um framtíðar rekstrarumhverfi greinarinnar. Þetta segir Stefán Friðriksson framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, sem var meðal frummælenda á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins 2010. Stefán segir að engin atvinnugrein geti búið við að forsendum og rekstrarumhverfi sé kollvarpað með þeim hætti sem lagt er til með svokallaðri fyrningarleið.

Stefán ræddi í erindi sínu m.a. um stöðu sjávarútvegsins. Hann segir greinina skipta sköpum fyrir dreifðari byggðir landsins og skila þjóðarbúinu miklum gjaldeyristekjum. "Íslendingar eru í fremstu röð þegar kemur að markaðs- og sölumálum á fiski og fiskafurðum. Sjálfbærar veiðar úr öllum fiskistofnunum, þar með talið skötusel, og trúverðugt skipulag veiðanna skiptir sífellt meira máli í markaðssetningu sjávarafurða. Það traust má ekki glatast. Íslenskur fiskur er gæðavara og mikilvægt er að hann haldi þeirri sérstöðu."

Þá ræddi Stefán um hvað þurfi til að koma Íslandi af stað á nýjan leik. Hann nefndi að endurskipuleggja þurfi fjármálakerfið og leysa bráðan skuldavanda fyrirtækja og heimila. Nauðsynlegt sé að taka ríkisfjármálin fastari tökum og draga saman rekstrarkostnað ríkisins. Þá þurfi að efla og styrkja þær atvinnugreinar sem búi við góð ytri skilyrði og hlúa að þeim greinum sem hafi mátt þola mikinn samdrátt.  Síðast en ekki síst þurfi að taka á  agaleysi og reyna að styrkja siðferðisvitund þjóðarinnar.

Ræðu Stefáns má lesa í heild hér að neðan:

Ísfélag Vestmannaeyja er elsta starfandi hlutafélag landsins, stofnað árið 1901. Félagið hefur því lifað tímana tvenna. Staðið af sér eldgos, kreppur og samdráttarskeið, heimsstyrjaldir, bruna, fjölmargar ríkisstjórnir og aðrar hörmungar.

Ísfélagið hefur einnig lifað mikla uppgangs- og breytingatíma og tekið þátt í því ásamt öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum að gera íslenskan fisk að eftirsóttri gæðavöru um allan heim. Félagið er nú með starfsemi í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn á Langanesi og veitir 230 manns atvinnu.

Yfirskrift þessa fundar er "Ísland af stað".

Að mínu mati eru nokkur atriði forsendur þess að koma landinu af stað:

Mikilvægast er að endurskipuleggja fjármálakerfið og leysa bráðan skuldavanda fyrirtækja og heimila. Að auki er nauðsynlegt að taka ríkisfjármálin fastari tökum og draga saman rekstrarkostnað ríkisins. 

Hvað varðar atvinnuvegina  þurfum við að efla og styrkja þær atvinnugreinar sem búa við góð ytri skilyrði og hlúa að þeim greinum sem hafa mátt þola mikinn samdrátt.  

Síðast en ekki síst þurfum við að taka á  agaleysi og  reyna að styrkja siðferðisvitund þjóðarinnar því að bæði agaleysi og dómgreindarskortur  eru rótgróin vandamál á Íslandi. 

En fyrst vil ég víkja nokkrum orðum að stöðu sjávarútvegsins.

Sjávarútvegur var og er ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar. Hann skiptir sköpum fyrir hinar dreifðu byggðir og skilar þjóðarbúinu miklum gjaldeyristekjum. Á undanförnum árum hefur verið staðið fyrir mikilli vöruþróun og nýsköpun bæði innan greinarinnar og einnig hjá þeim fyrirtækjum sem byggja afkomu sína á þjónustu við greinina.

Íslendingar eru í fremstu röð þegar kemur að markaðs- og sölumálum á fiski og fiskafurðum.  Sjálfbærar veiðar úr öllum fiskistofnunum, þar með talið skötusel, og trúverðugt skipulag veiðanna skiptir sífellt meira máli í markaðssetningu sjávarafurða.  Það traust má ekki glatast.

Íslenskur fiskur er gæðavara og mikilvægt er að hann haldi þeirri sérstöðu.

Sjávarútvegsfyrirtækjum hefur reitt misjafnlega af í fjármálakreppunni og í bankahruninu á Íslandi.  Vegna gengisfalls krónunnar hafa skuldir stórhækkað en tekjur hafa jafnframt aukist, þó ekki hlutfallslega eins mikið og skuldirnar.

  

Það sem veldur atvinnugreininni mestum vanda í dag er  aðallega tvennt:

Annars vegar stórfelldur niðurskurður á aflaheimildum. Og hins vegar óvissa um framtíðarrekstrarumhverfi og oft og tíðum fjandsamleg orðræða um atvinnugreinina. 

Niðurskurður aflaheimilda hefur haft víðtæk áhrif á fyrirtækin, sjávarbyggðirnar og fólkið sem starfar í sjávarútvegi.

Aflaheimildir í nokkrum mikilvægum tegundum, eins og þorski og loðnu, hafa minnkað verulega á undanförnum árum og fyrirtækin hafa þurft að laga sig að breyttum aðstæðum með því að leggja skipum og draga saman í fiskvinnslu með tilheyrandi fækkun starfa.

Þessi niðurskurður hefur óneitanlega haft gífurleg áhrif á afkomu fyrirtækja og íbúa í sjávarbyggðunum.

Og þá komum við að því sem veldur atvinnugreininni mestum vanda.

Við sem störfum í sjávarútvegi þurfum ekki eingöngu að búa við hefðbundna rekstraróvissu sem tengist tekjum og gjöldum eins og aðrar atvinnugreinar.  Heldur búum við óþolandi óvissu um  grundvallarforsendur atvinnugreinarinnar. Hér á ég vitaskuld við þá óvissu sem núverandi stjórnvöld hafa þyrlað upp í kringum fiskveiðistjórnunarkerfið.

Engin atvinnugrein getur búið við það að forsendum og rekstrarumhverfi sé kollvarpað með þeim hætti sem lagt er til með svokallaðri fyrningarleið.

Það er satt að segja með ólíkindum að menn skuli veitast með þessum hætti að einni helstu burðarstoð atvinnulífsins.

Þeir sem byggja lífsafkomu sína á sjávarútvegi eru sammála um að okkar öfluga fiskveiðistjórnunarkerfi sé aðalástæðan fyrir því að greinin kemur standandi út úr þessari niðursveiflu.

Það er ástæða til að halda því til haga að meðal þeirra sem leiddu í lög þetta fiskveiðistjórnunarkerfi eru núverandi forsætisráðherra og núverandi fjármálaráðherra.  Framsýni þeirra ber að þakka.

Enginn velkist í vafa um að nauðsynlegt er að takmarka veiðarnar og þar með aðganginn að fiskimiðunum.  Um það vorum við Íslendingar sammála þegar fiskveiðilögsagan var færð úr 12 mílum í 50 og svo í 200 mílur árið 1975.  Þá var nauðsynlegt að koma útlendingum út úr landhelginni og líkt og í dag var á þeim tíma nauðsynlegt að takmarka aðgang að fiskimiðunum. 

Um það var þjóðin sammála.

Aðgangur nýrra útgerðaraðila hlýtur því að vera á kostnað þeirra sem þar eru fyrir.  Með öðrum orðum  veiða skip þeirra útgerða sem fyrir eru í greininni minna, starfsmenn þeirra og samfélögin sem þau starfa í bera minna úr býtum.   

Fjárfesting í skipum og búnaði eykst umfram það sem þörf er á.

Spyrja má hvort það  teljist réttlæti að sú hagræðing sem sjávarútvegsfyrirtækin sjálf, stór og smá, hafa fjármagnað með því að kaupa út önnur fyrirtæki, smá og stór, sé gerð upptæk án bóta?

En hvað þarf að gera til þess að koma Íslandi af stað?

Á síðustu árum hefur okkur skort aga og dómgreindarleysi hefur verið áberandi.

Það er auðvelt að sjá flísina í auga náungans en taka ekki eftir bjálkanum í eigin auga.  Það er auðveldast að kenna alltaf öðrum um það sem aflaga hefur farið.  En til þess að við vinnum bug á þessu meini sem hrjáir íslenskt samfélag, þá verðum við, hvert og eitt okkar, að taka okkur á og temja okkur vandaðri vinnubrögð. Gera meiri kröfur til sjálfra okkar, ekki bara annarra. Betra Ísland byrjar heima!  

Til að Ísland komist aftur af stað þurfum við í fyrsta lagi  að ljúka endurskipulagningu fjármálakerfisins og að rjúfa þá stöðnun sem við búum við. Við þurfum aðgang að fjármagni á eðlilegum vaxtakjörum til fjárfestingar og uppbyggingar atvinnulífsins.

Hluti af endurskipulagningunni er að leysa fjárhagsvanda heimila og fyrirtækja. Stöðnun mun ríkja þangað til sá vandi hefur verið leystur.   Það er hreinlega ekki hægt að ætlast til þess að þeir sem ekki sjá til lands í sínum vandamálum taki þátt í að koma Íslandi af stað.  Þeirra vandi er því vandi okkar allra.  

Í öðru lagi  þurfum við að efla og styrkja þær atvinnugreinar sem búa við góð ytri skilyrði.

Þær greinar sem skila okkur gjaldeyristekjum, s.s. orkuiðnaðurinn, ferðaþjónustan og sjávarútvegurinn búa við góð ytri skilyrði.  

Í  þessum atvinnugreinum hefur ekki orðið kerfishrun og því ætti að vera auðvelt að byggja á því sem fyrir er og með skipulögðum hætti má bæta starfsumhverfi þeirra.

Þá munu þessar greinar skapa meiri verðmæti. Við getum lengt ferðamannatímann og byggt á gæðum, fjölbreytni og góðri þjónustu.

Og við eigum marga kosti til að nýta þá orku sem við eigum óbeislaða. 

Í þriðja lagi eru svo atvinnugreinar sem hafa mátt þola mikinn samdrátt. Við þurfum að hlúa að þessum greinum. Þar skiptir öllu máli að ekki tapist þekking og reynsla og að þessar greinar geti til lengri tíma sinnt þeirri þjónustu og uppbyggingu sem þjóðin þarfnast. Ég tel að stjórnvöldum beri að koma til aðstoðar og sjá til þess að næg verkefni séu til þess að viðhalda þekkingunni og getunni svo að hún glatist ekki.


Að lokum vil ég minna fundarmenn á að við erum í raun lánsöm að búa á Íslandi, sem er lítið samfélag og einsleitt.  Við búum í landi þar sem boðleiðir eru stuttar og smæðin gefur okkur því forskot þegar við þurfum að ganga samhent til verka.  Þjóðin er sveigjanleg og hefur mikla aðlögunarhæfni og menntunarstigið er hátt.  Mikilvægast af öllu er þó að hingað til höfum við haft sjálfstraust til þess að takast á við vandamálin og til að skapa vinnu og tækifæri fyrir alla. Með því að bæta sjálfsaganum við ættum við að vera fær í flestan sjó.

Að lokum þakka ég gott hljóð og óska ykkur gleðilegs sumars.

Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja