Óvissa í sjávarútvegi hefur neikvæð áhrif á íslenskan málmiðnað

Á fundi SA um atvinnuleiðina gerði Bolli Árnason, framkvæmdastjóri GT tækni grein fyrir stöðunni í málmiðnaði en hann lagði áherslu á mikilvægi stöðugs starfsumhverfis. Bolli sagði fleiri málmiðnaðarmenn vanta í greinina en í undirbúningi væri átak til að auka áhuga ungs fólks á iðnnámi. Hann sagði þó blikur á lofti vegna kjaramála og óvissu í sjávarútvegi sem hafi haft neikvæð áhrif á íslenskan málmiðnað.

"Ég man alltof vel þá tíð að kjarasamningar voru gerðir til skamms tíma með tugprósenta launahækkunum og í kjölfarið fylgdi tugaprósenta verðbólga. Það er sú mynd sem menn verða að hafa í huga þegar tekist er á við sérhópa sem telja sig vera í betri stöðu fyrir sig eina."

Bolli sagði fyrirtæki í sjávarútvegi halda að sér höndum með meiri háttar viðgerðar- og viðhaldsverkefni og að óvissa um rekstrargrundvöllinn hefði áhrif langt út fyrir þá grein. Þetta komi niður á málmiðnaðinum. Hann sagði þó verkefni næg hjá þeim sem smíða vörur til útflutnings eins og fyrir matvælavinnslu, heilbrigðistækni og svo tækninýjungar fyrir álver um víða veröld.  

Viðgerðar- og viðhaldsverkefni hafi verið á bærilegu róli og aukist mjög mikið undanfarið ekki síst vegna þess að stóriðjufyrirtækin hafa útvistað stórum hluta viðgerðar- og viðhaldsþjónustunnar.

Sjá nánar:

Erindi Bolla Árnasonar má lesa hér