Óstjórn í efnahagsmálum hefur fækkað Íslendingum

Ef horft er á mannfjöldaþróun Íslendinga síðustu áratugi kemur í ljós að almennt efnahagsástand hefur mótað allt þjóðlífið og haft bein áhrif á mannfjölda. Óstjórn í efnahagsmálum og óhagstætt árferði hafa í gegnum tíðina tvímælalaust haft áhrif til skamms tíma, en einnig má lesa afleiðingarnar langt aftur í tímann eins og árhringi í trjám. Í kjölfar síldarbrests og efnahagskreppu undir lok sjöunda áratugs síðustu aldar fækkaði barnsfæðingum t.a.m. verulega og á tímum óðaverðbólgu á áttunda og níunda áratugnum áttu önnur viðfangsefni en barneignir hug Íslendinga.

Í nýútkomnu riti SA, Ísland 2050: Eldri þjóð - ný viðfangsefni, er fjallað um mannfjöldaþróun á Íslandi síðustu áratugina og spáð fyrir um framgang mála til ársins 2050. Ef rýnt er í mannfjöldapíramída íslensku þjóðarinnar sem sýna aldursdreifingu þjóðarinnar kemur í ljós áberandi skarð ofarlega í kringum 70 ára aldurinn en það endurspeglar stöðnun barnsfæðinga á kreppuárunum á fjórða áratugnum.  Þá hefur barnsfæðingum fækkað á þremur tímabilum í seinni tíð. Í kjölfar síldarbrests og efnahagskreppu undir lok sjöunda áratugs síðustu aldar fækkaði barnsfæðingum verulega. Þeir árgangar urðu allt að 1.000 einstaklingum fámennari en eðlilegt hefði talist á þeim tíma. Það sama endurtók sig svo upp úr miðjum áttunda áratugnum og aftur um miðbik níunda áratugarins í kjölfar óðaverðbólgu og rýrnunar kaupmáttar launa árin á undan. 

Mannfjöldi 2005

Á myndinni má sjá bein áhrif efnahagslegrar óstjórnar og óhagstæðs árferðis á aldurssamsetningu íslensku þjóðarinnar eins og hún var árið 2005 og benda örvarnar á myndinni á tímabil fækkandi barnsfæðinga. Efsta örin til vinstri sýnir fækkun sem varð vegna síldarbrests og efnahagskreppu, örin í miðjunni bendir á afleiðingar aukinnar verðbólgu á síðari hluta áttunda áratugarins og sú þriðja sýnir áhrif óðaverðbólgunnar og minnkandi kaupmáttar um miðbik níunda áratugarins á barnsfæðingar.

Sjá nánar: Ísland 2050: Eldri þjóð - ný viðfangsefni (PDF)