Óskýrður launamunur kynja mælist 7%

Ný viðamikil rannsókn sem byggir á upplýsingum úr launabókhaldi 37 fyrirtækja og nær til rúmlega sex þúsund starfsmanna sýnir að konur sem könnunin náði til voru með rúmlega 7% lægri laun en karlar þegar tillit hafði verið tekið til ýmissa þátta sem eru mismunandi eftir kynjum. Í sambærilegri könnun árið 2007 reyndist óskýrður launamunur kynja 12% en rannsakað var hvaða áhrif kyn, starfsheiti, aldur, starfsaldur í fyrirtæki, menntun, vinnutími og fyrirtæki höfðu á föst laun án óreglulegra yfirvinnugreiðslna.

Í byrjun september 2008 gerðu Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og ParX viðskiptaráðgjöf IBM með sér samstarfssamning um rannsókn á launamun kynja á grundvelli gagnasafns ParX um launagreiðslur 2008. Rannsóknin er þáttur í samkomulagi aðila um jafnréttisáherslur sem fylgdi kjarasamningunum 17. febrúar 2008. Öll gagnavinnsla fór fram hjá ParX en niðurstöður voru unnar í samstarfi við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.  Rétt er að gera þann almenna fyrirvara við niðurstöðurnar að þær byggja ekki á slembiúrtaki heldur á gagnasafni þeirra fyrirtækja sem kjósa að taka þátt í árlegri greiningu á launagreiðslum. Niðurstöðurnar voru kynntar á blaðamannafundi SA, ASÍ og ParX fyrr í dag.

Frá blaðamannafundi 20. febrúar 2009

Óskýrður launamunur milli kynja er nokkru minni en í mörgum nýlegum rannsóknum hérlendis og má meðal annars rekja muninn til nákvæmrar starfaflokkunar og upplýsinga um menntun starfsmanna í þessari rannsókn. Lagt var upp með í rannsókninni að kanna áhrif ábyrgðar í starfi á launagreiðslur en það reyndist ekki hægt. Gögn um frammistöðu eða fjölskylduaðstæður voru heldur ekki tiltæk.

Í kynningu skýrði Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, frá því að launamunurinn ætti sér margvíslegar ástæður og að hann mætti skýra að hluta með mælanlegum þáttum sem eru aðgengilegir í launabókhaldi fyrirtækja. Launamunurinn væri 17% án tillits til þeirra þátta sem væru mismunandi hjá kynjunum og þegar leiðrétt væri fyrir hverjum þætti fyrir sig þá minnkaði munurinn stig af stigi uns niðurstaða um 7% óútskýrðan launamun fengist. Þetta má sjá í meðfylgjandi skýringarmynd.

Áhrifaþættir launamyndunar
Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!

Undanfarin ár hafa fjölmargar rannsóknir verið gerðar á launum karla og kvenna bæði hérlendis og erlendis. Skipta má þessum athugunum í tvennt. Annars vegar er litið til launa kynjanna án þess að skýra þau á nokkurn hátt. Hins vegar er leitast við að finna skýringar á mun á launum karla og kvenna og kannað hve mikið er ekki hægt að skýra með öðru en kynferði.  Óleiðréttur launamunur karla og kvenna í fullu starfi hefur farið minnkandi undanfarin ár bæði á Íslandi og annars staðar. Árið 1998 voru regluleg laun íslenskra kvenna í fullri vinnu á almennum markaði tæp 70% af launum karla, en árið 2007 voru þau komin í tæp 80% af launum karla.

Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á blaðamannafundi í dag - þær má nálgast hér að neðan.

Rannsókn ParX á launamun - febrúar 2009 (PDF)


Glærur Hannesar G. Sigurðssonar (PPT)