Óskilvirk vinnumiðlun

Nú þegar álögur á atvinnulífið vegna atvinnuleysis hafa þrefaldast með hækkun atvinnutryggingagjalds úr 0,65% í 2,21% aukast kröfur um að vel sé haldið á fjármunum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Vaxandi kröfur eru gerðar til þess að fólk þiggi ekki atvinnuleysisbætur á sama tíma og laus störf eru í boði sem það getur unnið. Töluvert er kvartað yfir því í atvinnulífinu að illa gangi að manna sum störf ófaglærðra, t.d. á hótelum.

Það vekur upp spurningar þegar ekki tekst að fá starfsfólk í laus störf þó svo margir í viðkomandi starfsgrein séu skráðir atvinnulausir og þiggi atvinnuleysisbætur. Því má velta fyrir sér hvort brotalöm sé í vinnumiðlun Vinnumálastofnunar, sem á að þjóna bæði atvinnulausum og atvinnurekendum.

Skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur er að viðkomandi sé jafnframt umsækjandi um starf.  Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar varðar það bótamissi að hafna starfi sem býðst með sannanlegum hætti.  Á vef Vinnumálastofnunar er langur listi yfir störf í boði, sem ekki virðist hægt að manna þrátt fyrir mikið atvinnuleysi.  Á listanum er lýsing á starfi sem er í boði og ábending um við hvern eigi að tala í fyrirtækinu ef áhugi er á starfinu.

Til þess að fella þá af bótum sem hafna vinnu þarf vinnumiðlun að hafa milligöngu um útvegun starfanna. Þeir sem annaðhvort hafna starfinu eða mæta ekki í boðað viðtal eiga að falla af bótum þar sem þeir uppfylla ekki lengur skilyrðið um að vera umsækjandi um vinnu.  Það er ekki nægilegt að útbúa lista yfir laus störf og benda á að þeir sem hafi áhuga skuli hafa samband við fyrirtækið. Vinnumiðlunin verður að hlutast til um að manna störfin eða fella fólk af bótum að öðrum kosti. Atvinnuleysisbætur eru ætlaðar þeim sem eru tímabundið án vinnu en eru ekki valkostur þeirra sem ekki hafa áhuga á vinnu.