Óskiljanleg ákvörðun að halda stýrivöxtum í 18%

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við mbl.is það óskiljanlega ákvörðun að halda stýrivöxtum Seðlabankans óbreyttum í 18%. Hann segir það aum rök að lækka þá ekki og greinilegt að það vanti eitthvað upp á að menn tali saman. Eins veki það athygli að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, sem segist ekki hafa afskipti af stjórnmálum, vilji ekki lækka stýrivexti vegna ótryggs stjórnmálaástands á Íslandi.

Lækka verður stýrivexti

Með 18% stýrivexti eru hendur atvinnulífsins bundnar,
störf munu tapast og kreppan dýpka.

Í frétt mbl.is segir ennfremur:

"Ég tel að það sé röng ákvörðun að hafa vextina svo háa. Það er algjörlega nauðsynlegt að lækka þá." Hann segir það aum rök,  bæði hjá framkvæmdastjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og bankastjórn Seðlabanka Íslands, að lækka ekki stýrivexti nú.

"Í fyrsta lagi hefur það gerst síðan að þessi ákvörðun um 18% vexti var tekin að vextir hafa lækkað verulega í löndunum í kringum okkur. Í öðru lagi þá hefur, samkvæmt því sem Seðlabankinn segir, verðbólgan verið heldur minni en að reiknað var með. Í þriðja lagi þá virðist gengið vera nokkuð stöðugt og í fjórða lagi segist Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn ekki blanda sér í stjórnmál. Þannig að ég tel að það hafi verið haldið ansi illa á spilunum gagnvart Alþjóða gjaldeyrissjóðnum."

Vilhjálmur segist ekki skilja hvernig menn geti samþykkt það með öðru orðinu að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segi að það eigi ekki að lækka vexti vegna stjórnmálaástandinu um leið og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn segir að hann sé ekki að blanda sér í stjórnmál. Á sama tíma og þeir sem eru að standa í stjórnarmynduninni tala um það að þeir vilji fylgja þeirri efnahagsáætlun sem lagt var upp með gagnvart þjóðinni," segir framkvæmdastjóri SA.

"Þannig að þetta er óskiljanlegt og greinilega lítið um það að menn tali almennilega saman þarna á milli, bætir Vilhjálmur við.

Í Peningamálum kemur fram að til greina komi að fjölga vaxtaákvörðunardögum Seðlabankans og segist Vilhjálmur vilja sjá annan vaxtaákvörðunardag seinna í vikunni. Samtök atvinnulífsins vilja að stýrivextir verði lækkaðir strax niður í 12% líkt og þeir voru í nokkrar vikur í október. Vilhjálmur segir að síðan þurfi að lækka þá hratt enda sjái hann enga ástæðu til þess að halda vöxtum á Íslandi meira en 3% yfir stýrivöxtum á evru-svæðinu þar sem stýrivextir eru nú 2%. "Þangað þurfa vextirnir að vera komnir á einhverjum fyrirsjáanlegum tíma. Á þessu ári allavega," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Sjá frétt mbl.is