Óskað eftir undanþágum frá reglum um hvíldartíma ökumanna

Samgönguráðherra mun í vikunni afhenda Eftirlitsstofnun EFTA beiðni um undanþágur fyrir Ísland frá nýrri reglugerð Evrópusambandsins um aksturs- og hvíldartíma ökumanna í samræmi við undanþáguheimildir reglugerðarinnar. Mun Eftirlitsstofnun EFTA skipa sérstaka nefnd með fulltrúum þeirra þriggja landa sem að stofnuninni standa til að fjalla um þessa beiðni. Verður þetta í fyrsta sinn þar sem sótt er um undanþágu frá reglugerð ESB hjá stofnuninni. Samtök atvinnulífsins og aðildarfélög sendu í desember síðastliðnum sameiginlega beiðni með ASÍ og Starfsgreinasambandinu til samgönguráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins um að sótt yrði um slíkar undanþágur en þær ganga m.a. út á að heimilt verði að lengja daglegan aksturstíma í allt að 11 klukkustundir tvisvar í viku á akstursleiðum sem fara yfir 400 kílómetra.

Hertar vinnutímareglur í farvatninu

Ný reglugerð ESB um aksturs- og hvíldartíma ökumanna mun þrengja enn að erfiðum vinnuskilyrðum ökumanna. Samkvæmt reglugerðinni er hámarks daglegur aksturstími 9 klukkustundir en heimilt verður að lengja hann í 10 klukkustundir tvisvar sinnum í viku. Þá verður ökumaður að gera hlé á akstri í a.m.k. 45 mínútur samfellt eftir akstur í fjóra og hálfa klukkustund. Undir þessar reglur og þar með skyldu til að hafa ökurita í bifreiðinni munu nú einnig falla minni farþegaflutningabifreiðar fyrir fleiri en níu farþega að ökumanni meðtöldum, en áður miðuðust þær eingöngu við ökutæki sem ætluð voru fleiri en 17 manns.

Undanþágubeiðnir SA og ASÍ ganga út á að heimilt verði að lengja daglegan aksturstíma í allt að 11 klukkustundir allt að tvisvar í viku á akstursleiðum sem fara yfir 400 kílómetra en með því yrði tryggt að hægt verði að komast á helstu áfangastaði flutningabifreiða úti á landi jafnt að sumri sem vetri til. Þá er einnig farið fram á að almennur aksturstími fram að vinnuhvíld verði 5 klukkustundir á akstursleiðinni milli Reykjavíkur og Freysness á Austurlandi, en ekki er um aðra fýsilega hvíldarstaði fyrir bílstjóra að ræða á þeirri leið. Auk þessa er farið fram á undanþágu frá vikulegum hvíldartíma þannig að hægt verði að fresta frídegi bílstjóra fram yfir 12 daga vegna aðstæðna þegar farið er með farþega um hálendi Íslands svo og undanþágu fyrir farþegaflutninga til og frá Keflavíkurflugvelli þannig að hægt verði að fara með hópa utan af landi að næturlagi í morgunflug án þess að taka 45 mínútna hlé, enda enginn hvíldarstaður á þessum leiðum opinn að næturlagi. Er það mat SA að undanþágur þessar séu ekki þess eðlis að umferðaröryggi verði á nokkurn hátt stefnt í hættu.

Nýjar sektarreglugerðir árið 2006

Það er ekki nóg með að atvinnubílstjórar eigi nú von á enn strangari reglum um aksturs- og hvíldartíma heldur gerir það málið enn alvarlegra að þann 1. desember 2006 gengu í gildi tvær nýjar reglugerðir frá Samgönguráðuneytinu sem hertu mjög viðurlög vegna brota á reglum um aksturs- og hvíldartíma. Voru sektir vegna slíkra brota hækkaðar um allt að 60% auk þess sem bílstjórar fá nú í fyrsta sinn punkta í ökuferilsskrá sína sem leitt getur til missis ökuskírteinis. Þegar viðurlagareglugerðirnar gengu í gildi gerðu SA ásamt Samtökum iðnaðarins, Samtökum verslunar og þjónustu og Samtökum ferðaþjónustunnar alvarlegar athugasemdir við þær. Gagnrýnin byggist aðallega á því að miðað við þjóðvegakerfi landsins, ófærð á vetrum og erfið veðurskilyrði er nánast ómögulegt fyrir atvinnubílstjóra að vinna starf sitt án þess að eiga það á hættu að fá háar sektir og punkta sem leitt geta til ökuleyfissviptingar.

Ekki var um það að ræða að með hinum nýju sektarreglugerðum væri verið að herða sektir að tilmælum Evrópusambandsins. Þá var ekki heldur um það að ræða að gerðar hefðu verið lagabreytingar sem kröfðust þyngri viðurlaga við þessum tegundum brota heldur var um einhliða reglugerðarsetningu Samgönguráðuneytisins að ræða. Hægt væri að breyta þessum sektarreglum til fyrra horfs með einföldum hætti.

Vegna þessara hertu viðurlaga er enn mikilvægara en ella að íslensk stjórnvöld beiti sér að krafti fyrir því að ná fram þeim undanþágum frá reglugerð ESB sem SA og aðildarfélög þess hafa farið fram á.