Óskað eftir aðstoð við kafbátainnflutning

Ein af mörgum djúpum hugmyndum sem rædd var á Hugmyndaþingi SA sem fram fór á Hofsósi þann 5. september síðastliðinn var innflutningur á kafbáti fyrir ferðamenn. Upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar, Freyr Antonsson,  hefur undanfarið unnið að því að gera innflutninginn að veruleika og leitar nú stuðnings við verkefnið. Hugmynd hans er að starfrækja kafbát fyrir 36 farþega og sigla um Eyjafjörð á 12 sjómílna hraða ofansjávar og 5 sjómílna hraða neðansjávar, skoða undur  hafsins og elta hvali. Kafbáturinn kostar 400 milljónir króna.

Sumarið 2009 er ætlunin að leigja tveggja manna kafbát frá US Submarines í Bandaríkjunum. Tveir sérfræðingar koma með kafbátinn og munu þeir meta hvort raunhæft sé að bjóða upp á neðansjávar-skoðunarferðir fyrir ferðamenn í Eyjafirði. Freyr segir hugmyndina bæði djarfa og mjög áhættusama en hún sé einstök á heimsvísu á tvennan hátt. Í fyrsta lagi er hvergi í heiminum boðið uppá hvalaskoðun neðansjávar. Í öðru lagi er hvergi boðið uppá kafbátaferðir fyrir ferðamenn á kafbát sem gengur hraðar en 3-4 sjómílur ofan- eða neðansjávar. 

Dalvíkurkafbátur

Verkefnið hefur verið styrkt af IMPRU og það hlaut einnig styrk úr mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar til eflingar nýsköpunar og atvinnuþróunar. Meira þarf hins vegar til að kafbáturinn sigli um Eyjafjarðarála næsta sumar og leitar Freyr eftir frekari stuðningi til að hægt sé að ljúka forathugun á rekstrarmöguleikum kafbátsins. Áhugasamir geta sent fyrirspurnir á freyra@simnet.is