Óraunhæft að hækka lágmarkslaun um 21% við núverandi aðstæður

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir kröfur Starfsgreinasambandsins um að lágmarkstekjur fyrir fulla dagvinnu verði kr. 200.000  frá 1. desember 2010 óraunhæfar við núverandi aðstæður en krafan felur í sér 21% hækkun. SGS krefjast einnig almennra launahækkana frá 1. desember 2010 auk atriða vegna einstakra sviða kjarasamningsins sem ekki hafa verið metin.

Rætt var við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA,  í morgunfréttum RÚV. Vilhjálmur segir að í síðustu kjarasamningum hafi lægstu kauptaxtar og lágmarkslaun og verið hækkuð umfram annað. Kjarasamningarnir í febrúar 2008 hafi verið mestu láglaunasamningar sem gerðir hafi verið. Þannig hafi kaupmáttur lægstu launa verið varinn í kreppunni á meðan kaupmáttur hærri launa hafi lækkað.

Viljálmur segir að Samtök atvinnulífsins hafi þá sýn í komandi kjarasamningum að öll laun hækki svipað. Ólíklegt sé að það náist samstaða milli launþegahópa um að lægstu laun hækki umfram önnur laun eins og í síðustu samningum.

Einnig er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag en þar kemur fram að SA og SGS leggi bæði áherslu á að draga úr atvinnuleysinu og skapa þau skilyrði að fjárfestingar í atvinnulífinu geti hafist á nýjan leik en hlutfall þeirra af landsframleiðslu er orðið hættulega lágt. Vilhjálmur segir launakröfur SGS almennt ekki í þeim takti sem SA teljist samræmast sátt á vinnumarkaði og lítilli verðbólgu. SA vilji stefna að því að auka kaupmátt með sem allra minnstum launahækkunum.