Opinn hádegisfundur SA um atvinnumálin á mánudaginn

Samtök atvinnulífsins efna til opins umræðufundar um hvernig nýta megi sóknarfæri í atvinnulífinu, mánudaginn 26. september í Hörpu - Silfurbergi á 2. hæð. Fundurinn hefst kl. 12 og verður lokið ekki síðar en 13.30. Yfirskrift fundarins er Ryðjum hindrunum úr vegi - atvinnulíf í uppnámi.

Í síðasta mánuði spáði Seðlabanki Íslands 1,6% hagvexti á Íslandi á næsta ári. Í vikunni var svo greint frá lækkaðri hagvaxtarspá AGS fyrir heimsbúskapinn sem mun hafa neikvæð áhrif hér á landi. Þetta þýðir að áfram verður mikið atvinnuleysi á Íslandi og lök lífskjör nema brugðist verði við, hindrunum rutt úr vegi og ný atvinnusókn hafin.

SMELLTU TIL AÐ SKRÁ ÞIG

SA hvetja alla áhugamenn um eflingu atvinnulífsins til að mæta en löngu tímabært er að kveða niður atvinnuleysið, auka tekjur fólks, fyrirtækja og hins opinbera. Einungis kröftugt atvinnulíf leggur grunn að sjálfbærri velferð. Við verðum að nýta færin!

Frummælendur eru Grímur Sæmundsen, varaformaður Samtaka atvinnulífsins, Kolbeinn Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Ístaks, Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu, Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ - Landssambands íslenskra útvegsmanna og Hannes G. Sigurðsson,

aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Fundarstjóri er Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.