Opinber útgjöld að frátöldum ellilífeyrisgreiðslum eru hvergi hærri hlutfallslega en á Íslandi

Árið 2009 námu gjöld hins opinbera á Íslandi, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga, 51% af vergri landsframleiðslu (VLF). Ísland var ellefta af 32 aðildarríkjum OECD. (OECD Economic Outlook, Efnahags- og framfarastofnunin, maí 2011, tafla 25. Sjá einnig http://stats.oecd.org/)

Meðaltal OECD ríkjanna var 45% en meðaltal ESB-ríkjanna var 51% eins og á Íslandi. Árið 2010 er talið að hlutfallið hafi lækkað á Íslandi í 50% og samkvæmt áætlunum stjórnvalda fer hlutfallið lækkandi á þessu og næsta ári.

Danmörk trónir á toppnum í þessum samanburði eins og verið hefur um langt árabil með 58% hlutfall opinberra útgjalda af VLF. Þar á eftir komu Frakkland, Svíþjóð og Finnland. Lægsta hlutfallið, 33- 34%, var í Kóreu, Ástralíu og Sviss.

Smelltu til að stækka!

Í kjölfar fjármálakreppunnar jukust opinber útgjöld verulega í hlutfalli við VLF í flestum ríkjum, bæði vegna samdráttar efnahagslífs og aukningar opinberra útgjalda. Hlutfall opinberra útgjalda í 32 aðildarríkjum OECD jókst um 5% af VLF að meðaltali milli áranna 2007 og 2009. Árið 2010 var staðan nokkurn veginn óbreytt. Ísland var í hópi þeirra ríkja þar sem hlutfallið hækkaði mest, eða um tæplega 9% af VLF milli áranna 2007 og 2009. Einungis í þremur ríkjum, Írlandi, Finnlandi og Eistlandi, hækkaði hlutfallið meira, eða um 9-11% af VLF.

Samanburður án útgjalda til almannatrygginga og velferðarmála

Hagstofa Íslands flokkar útgjöld hins opinbera samkvæmt alþjóðlegum staðli sem nefnist COFOG (Classification of Functions of Government). Nýjasta flokkunin er frá febrúar 2010 og náði til tímabilsins 1998-2008. OECD birtir sundurliðun opinberra útgjalda eftir þessum staðli fyrir flest aðildarríki þess, eða 28 ríki. COFOG staðallinn flokkar opinber útgjöld í 10 höfuðflokka sem síðan eru flokkaðir enn ítarlegar. Höfuðflokkarnir 10 eru eftirfarandi: Almenn opinber þjónusta, varnarmál, löggæsla, réttargæsla og öryggismál, umhverfismál, húsnæðis-, skipulags- og veitumál, heilbrigðismál, menningar-, íþrótta- og trúmál, menntamál og loks almannatryggingar og velferðarmál.

Þegar hlutfall opinberra útgjalda af VLF til stærstu málaflokkanna er skoðað, þá er Ísland í hópi þeirra ríkja sem verja hvað mestu til almennrar opinberar þjónustu, heilbrigðismála og menntamála. Ísland ver þriðja hæsta hlutfallinu til almennrar opinberrar þjónustu, fjórða hæsta hlutfallinu til heilbrigðismála og hæsta hlutfallinu til menntamála.

Ísland frábrugðið vegna lífeyrissjóða og ungrar þjóðar

Almannatryggingar og velferðarmál (e. social protection) er hins vegar útgjaldafrekasti málaflokkurinn hjá flestum þjóðunum. Undir þann lið falla lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, sjúkratryggingar, atvinnuleysisbætur, barnabætur, húsnæðisbætur og önnur félagsleg aðstoð.Til málaflokksins árið 2009 vörðu Danir mest allra, rúmum 25% af VLF. Næstu þjóðir í röðinni, Finnland, Frakkland og Svíþjóð, vörðu 23-24% af VLF til þessa málaflokks. Ísland er í hópi þeirra þjóða sem varði hlutfallslega minnstum fjármunum til málaflokksins árið 2009, eða 11,3% af VLF. Skýringarnar liggja í tvennu. Annars vegar eru lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða, sem allar flokkast utan hins opinbera, en þær nema nærri 5% af landsframleiðslu árlega. Hins vegar eru lífeyrisþegar hlutfallslega fáir hér á landi borið saman við aðrar þjóðir. Lágt hlutfall lífeyrisþega ræðst af því að þjóðin er hlutfallslega ung og að Íslendingar hefja töku lífeyris tiltölulega seint á ævinni. Aðrar skýringar á því að Ísland ver hlutfallslega litlu opinberu fé til almannatrygginga og velferðarmála eru m.a. þær að reglur um greiðslu launa í veikindum eru mjög frábrugðnar því sem víðast gerist, þar sem greiðslutímabil vinnuveitenda er mjög langt hér á landi og þar á eftir taka sjúkrasjóðir verkalýðsfélaganna við og greiða bætur í langvarandi veikindum. Þetta veldur því að opinber framlög til sjúkratrygginga eru hlutfallslega mun lægri hér á land en í samanburðarríkjunum.

Mjög lágt hlutfall aldraðra á Íslandi

Árið 2009 voru aðeins 11,8% íbúa á Íslandi eldri en 65 ára sem er það næstlægsta í Evrópu, en aðeins á Írlandi er hlutfallið lægra, eða 11,1%. Til samanburðar voru 23% Japana eldri en 65 ára, 21% Þjóðverja, 20% Ítala, 18% Svía, 17% Finna, 16% Dana og 15% Norðmanna. Lífeyrisbyrðin, þ.e. það hlutfall skattekna sem varið er til greiðslu lífeyris, er því mjög misjöfn eftir því hve hátt hlutfall eldra fólks er af heildar íbúafjölda og á hvaða aldri fólk hefur töku lífeyris. Lág hlutdeild eldri borgara á Íslandi, tiltölulega hár lífeyristökualdur og miklar lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða, sem standa utan hins opinbera, eru meginástæður þess að Ísland sker sig úr í samanburði við aðrar þjóðir um hve litlum hluta skatttekna hins opinbera er varið til greiðslu ellilífeyris.

Opinber útgjöld, að frádregnum framlögum til almannatrygginga og velferðarmála, hæst á Íslandi

Raunhæfur samanburður á opinberum útgjöldum á Íslandi í samanburði við aðrar þjóðir þarf því að taka mið af framangreindum sérkennum. Opinber útgjöld á Íslandi til annars en almannatrygginga og velferðarmála eru langhæst af öllum OECD-ríkjunum eins og sést í meðfylgjandi súluriti. Hlutfallið á Íslandi var tæplega 40% af VLF árið 2009 en hlutfallið í Belgíu, sem kemur næst, var tæplega 35%. Hlutfallið var 31% að meðaltali í þeim 28 ríkjum sem samanburðurinn nær til.

Smelltu til að stækka!

Opinber útgjöld einnig hæst á Íslandi þegar ellilífeyrisgreiðslur hins opinbera eru dregnar frá

Ástæða þess að Ísland trónir á toppnum hvað varðar opinber útgjöld, að frádregnum framlögum til almannatrygginga og velferðarmála, liggur fyrst og fremst í tiltölulega lágum opinberum framlögum til lífeyrismála í samanburði við aðrar þjóðir. Með öðrum orðum skýringin er alls ekki sú að Ísland verji hlutfallslega litlum fjármunum til velferðarmála. Á vef OECD eru undirflokkar höfuðflokkanna 10 um opinber útgjöld ekki birtir. Það er hins vegar gert á vef hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, fyrir flest aðildarríki sambandsins auk Íslands og Noregs. (Sjá nánar hér og einnig hér. Tölur ársins 2009 fyrir Ísland eru ekki komnar á vef Eurostat, en er að finna á vef Hagstofunnar undir Þjóðhagsreikningar og opinber fjármál, Heildarútgjöld hins opinbera eftir málaflokkum í mestri sundurliðun.)

Því er unnt að bera saman hlutfall opinberra útgjalda af vergri landsframleiðslu, að frádregnum lífeyrisgreiðslum hins opinbera til ellilífeyrisþega. Því miður er þessi nákvæma sundurliðun ekki birt fyrir öll ESB ríkin en þó fyrir nægilegan fjölda til þess að skýr mynd fáist. Samanburð milli 24 ríkja má sjá í meðfylgjandi súluriti.

Smelltu til að stækka!


Í samanburðinum kemur fram að opinber útgjöld, að frádregnum ellilífeyrisgreiðslum almannatrygginga, eru hlutfallslega hæst á Íslandi meðal þessara ríkja, tæplega 49% af VLF, en þar á eftir koma Finnland með 46% og Írland með 45%. Hlutfallið í Svíþjóð er 44% og 42% í Noregi. Því miður eru útgjöldin í Danmörku ekki sundurliðuð nægilega á vef Eurostat til að landið geti verið með í samanburðinum. Óvegið meðaltal framangreindra ríkja er 40%. Ekki verður séð af þessum hlutföllum að samband sé á milli stærðar ríkja eða tekjustigs og hlutfalls opinberra útgjalda án lífeyrisgreiðslna. Í hópi ríkja með hlutfallslega hæstu opinberu gjöldin eru smáríki á borð við Ísland, og Írland og í hópi þeirra með lægstu gjöldin eru Lúxemborg og Malta. Stóru ríkin í Evrópu liggja hins vegar sitt hvoru megin við meðaltalshlutfallið, þ.e. Bretland og Frakkland með 43%, og Þýskaland og Spánn með 38% hlutfall.

Fylgiskjal: Útgjöld hins opinbera í hlutfalli við VLF skv. COFOG flokkun (Excel-skjal)