Ólöglegar eftirlíkingar frá Kína

Sífellt fleiri fyrirtæki þurfa að kljást við ólöglegar eftirlíkingar á vörum þeirra sem ættaðar eru frá Kína. Eftirlíkingarnar skjóta nú víða upp kollinum og er vandamálið vaxandi, m.a. í Danmörku. Leikfangaframleiðandinn LEGO reynir t.a.m. að hafa upp á fyrirtækjum í Kína sem framleiða nákvæmar eftirlíkingar af vörum LEGO. Gæði eftirlíkinganna frá Kína fara vaxandi og oft þarf sérfræðinga til að greina í sundur upprunalega vöru og ólöglegar eftirlíkingar. Talið er að 60% af ólöglegum varningi af ýmsu tagi í Evrópusambandinu komi frá Kína.

Vaxandi vandamál

Dönsku samtök iðnaðarins (Dansk industri) efndu nýverið til ráðstefnu um hvernig hægt sé að bregðast við því þegar hugverkum fyrirtækja er stolið og nákvæmar eftirlíkingar af vörum þeirra flæða inn á markaðinn. Á fyrstu þremur mánuðum ársins óskuðu t.d. 19 dönsk fyrirtæki eftir aðstoð við að bregðast við ólöglegum eftirlíkingum á vörum þeirra frá Kína. Áður fyrr var það einkum lúxusvarningur sem framleiðendur í Kína líktu eftir en í dag víla þeir ekki fyrir sér að apa eftir vel heppnuðum húsgögnum og jafnvel þvottadufti. Í raun geta fyrirtæki átt von á öllu en meira ber á eftirlíkingum í sífellt fleiri atvinnugreinum.

Danskt og kínverskt LEGO

Danskt LEGO og nákvæm kínversk eftirlíking. Hver kannast ekki við KEXIN-kubbana?

Erfitt að bregðast við

Það getur verið erfitt fyrir fyrirtæki að bregðast við vanda sem þessum. Internetið gerir mönnum auðvelt að kynna og selja framleiðsluna og oftar en ekki eru framleiðendur fljótir að forða sér og finna sér nýjan samastað ef þeir telja að upp um þá kunni að komast. Þá eru þeir oftar en ekki í samstarfi við ýmsa dreifingaraðila og því getur verið erfitt að komast að rótum vandans. Danir hyggjast þó ekki leggja árar í bát og munu dönsk stjórnvöld og dönsk fyrirtæki taka höndum saman á árinu og reyna að finna leiðir til að verjast þessari meinsemd. Alþjóðasamfélagið hefur jafnframt þrýst á kínversk stjórnvöld að tryggt verði að hugverk séu virt í Kína og hefur málið m.a. verið til umfjöllunar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem Kína á aðild að og í tvíhliða viðræðum Kína og einstakra ríkja um viðskipti.