Ólögleg gjaldheimta og verðsamráð heilsugæslulækna?

Um helmingur heilsugæslustöðva hefur á undanförnum mánuðum hækkað gjald fyrir fjarvistarvottorð til atvinnurekenda, á grundvelli viðmiðunargjaldskrár Læknafélags Íslands sem ekki getur talist samræmast ákvæðum samkeppnislaga. Ennfremur virðist gjaldtaka stöðvanna viðhöfð án lagaheimildar og hið sama gildir um tekjur heilsugæslulækna af gjaldtökunni.


Verðsamráð
Á vegum Læknafélags Íslands var sl. vetur send út svokölluð viðmiðunargjaldskrá vegna læknisvottorða og nær hún til 52 mismunandi tegunda læknisvottorða. Um helmingur heilsugæslustöðva í landinu, og nær allar á höfuðborgarsvæðinu, hafa hækkað gjaldtöku sína vegna veitingar vottorðs um fjarvistir til atvinnurekenda - og hugsanlega fleiri vottorða -  til samræmis við viðmiðunargjaldskrána. Samtök atvinnulífsins könnuðu gjaldtöku heilsugæslustöðvanna og er niðurstöðurnar að finna í meðfylgjandi töflu. Samkvæmt gjaldskránni er gjald fyrir slíkt vottorð kr. 1700, en áður mun hafa verið algengast að gjaldið næmi kr. 1200. Ekki verður hins vegar séð að viðmiðunargjaldskrá LÍ samræmist ákvæðum samkeppnislaga.

Gjaldtaka án lagaheimildar
Samkvæmt lögum og ákvæðum kjarasamninga geta fyrirtæki krafið starfsmenn um vottorð vegna veikindafjarvista, enda greiði fyrirtækið vottorðið. Ekki verður hins vegar séð að í lögum og reglugerðum sé að finna heimildir fyrir slíkri gjaldtöku á heilsugæslustöðvum, heldur sé eingöngu heimilt að innheimta komugjald í slíkum tilvikum. Læknum sem reka eigin stofur er hins vegar frjálst að ákvarða gjaldtöku vegna slíkra vottorða, en mega þó ekki hafa verðsamráð um gjaldtökuna.

Ólöglegar tekjur heilsugæslulækna?
Svo virðist sem þetta gjald renni til heilsugæslulæknanna sjálfra. Launakjör heilsugæslulækna eru hins vegar heildarkjör samkvæmt úrskurði kjaranefndar, sem síðast var breytt 1. ágúst 2000. Samkvæmt úrskurðinum er ekki greitt fyrir aukaverk, nema í tilteknum tilvikum sem fjallað er um í fylgiskjali með úrskurðinum og ber heitið gjaldskrá heilsugæslulækna. Þar er í lið I-C fjallað um greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins til lækna vegna tiltekinna vottorða, en hvergi er fjallað um önnur vottorð, svo sem vegna fjarvista til atvinnurekenda. Ekki verður því séð að heilsugæslulæknum sé heimilt að þiggja greiðslur fyrir útgáfu umræddra vottorða.


Meðfylgjandi er tafla yfir gjaldtöku heilsugæslustöðva fyrir fjarvistarvottorð.