Efnahagsmál - 

26. september 2001

Öll efnahagsleg rök með skattalækkun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Öll efnahagsleg rök með skattalækkun

Nánast öll efnahagsleg rök mæla með skattalækkun á fyrirtæki, jafnvel myndarlegri skattalækkun, að sögn Bolla Þórs Bollasonar, skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þetta kom fram í erindi hans á ráðstefnu viðskiptafræðinema við HÍ, "Þekking á leið úr landi - ráðstefna um skattaumhverfi á Íslandi."

Nánast öll efnahagsleg rök mæla með skattalækkun á fyrirtæki, jafnvel myndarlegri skattalækkun, að sögn Bolla Þórs Bollasonar, skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Þetta kom fram í erindi hans á ráðstefnu viðskiptafræðinema við HÍ, "Þekking á leið úr landi - ráðstefna um skattaumhverfi á Íslandi."

 

Umtalsverð veltuáhrif

Í erindi sínu sagði Bolli erfitt að meta svigrúm ríkissjóðs til skattalækkana á fyrirtæki, en lagði áherslu á að einfaldur þríliðureikningur dygði ekki til að leggja mat á það. Ekki þýddi að skoða heildartekjur ríkissjóðs af t.d. tekjuskatti fyrirtækja og deila með fjölda prósentustiga til að finna verðmæti hvers þeirra fyrir ríkissjóð. Lækkun fyrirtækjaskatta myndu hafa í för með sér almennt aukin efnahagsumsvif og veltuáhrifin af því yrðu umtalsverð. Að sögn Bolla hafa veltuáhrifin einmitt verið til skoðunar í fjármálaráðuneytinu að undanförnu, en hann sagði jafnframt ekki tímabært að fara með þær tölur. Bolli nefndi einnig dæmið um hvernig lækkun fjármagnstekjuskattsins um miðjan síðasta áratug leiddi til aukinna tekna af skattinum.

 

Samræmist traustri efnahagsstjórn

Loks sagði hann skattalækkun til fyrirtækja fyllilega í samræmi við trausta og aðhaldssama efnahagsstjórn. Aðspurður sagðist Bolli ekki óttast verðbólguáhrif af skattalækkunum og sagði jafnframt að þær myndu styrkja gengi krónunnar. Vissulega myndu skattalækkanir t.d. leiða til aukinnar fjárfestingar, en því bæri að fagna enda færi hún nú minnkandi.

Sjá erindi Bolla á heimasíðu fjármálaráðuneytisins.

Samtök atvinnulífsins