Efnahagsmál - 

07. október 2009

Óljós skattastefna stjórnvalda skaðleg

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óljós skattastefna stjórnvalda skaðleg

"Óvissan sem nýframlagt fjárlagafrumvarp hefur skapað fyrir atvinnulífið, m.a. vegna skattahækkana, er mjög skaðleg. Það hefur verið vitað að skattahækkanir væru framundan og ég tel að þær hafi verið óumflýjanlegar. En þegar þær birtast að stórum hluta óunnar í fjárlagafrumvarpi þá grípur um sig mikil hræðsla í atvinnulífinu," segir Vilmundur Jósefsson formaður Samtaka atvinnulífsins.

"Óvissan sem nýframlagt fjárlagafrumvarp hefur skapað fyrir atvinnulífið, m.a. vegna skattahækkana, er mjög skaðleg. Það hefur verið vitað að skattahækkanir væru framundan og ég tel að þær hafi verið óumflýjanlegar. En þegar þær birtast að stórum hluta óunnar í fjárlagafrumvarpi þá grípur um sig mikil hræðsla í atvinnulífinu," segir Vilmundur Jósefsson formaður Samtaka atvinnulífsins.

Rætt var við Vilmund í Morgunblaðinu. Hann segir boðaða auðlindaskatta fæla frá fjárfestingar. "Það síðasta sem við þurfum á að halda er að fæla frá fjárfestingar í íslenskum efnahagslífi. Þess vegna tel ég það mjög óábyrgt að hálfu íslenskra stjórnvalda að setja fram áætlun um að afla 16 milljarða króna með sköttum sem ekki liggur fyrir hverjir eiga að borga. Fjárfestar halda að sjálfsögðu að sér höndum á meðan ekkert liggur fyrir um hvort mögulegt sé að reka fyrirtæki með arðvænlegum hætti eða ekki."

Í umfjöllun Morgunblaðsins segir  m.a. að markmið stöðugleikasáttmálans um að stýrivextir Seðlabankans verði komnir niður fyrir tveggja stafa tölu í lok október, tímasett áætlun um afnám gjaldeyrishafta verði kláruð fyrir 1. nóvember og skattahækkanir vegna aðgerða í ríkisfjármálum nemi ekki meira en 45 prósentum af þeirri upphæð sem þarf til að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálunum, séu í uppnámi að mati aðila vinnumarkaðarins. Auk þess sé mikil óánægja með þá ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra að fella úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að óþarft sé að setja lagningu Suðvesturlínu, vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík, í sameiginlegt umhverfismat með öðrum tengdum framkvæmdum.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ segir stöðu mála grafalvarlega. "Það svigrúm sem aðilar vinnumarkaðarins voru tilbúnir að gefa stjórnvöldum til þess að taka ákvarðanir um endurreisn íslensks efnahagslífsins hefur verið illa nýtt. Frá því í lok júní og til þessa hefur lítið sem ekkert gerst og vandamálin að stærstum hluta þau sömu. Svo standa stjórnvöld fyrir sérkennilegum ákvörðunum sem setja framkvæmdir sem komnar eru af stað í uppnám," segir Gylfi og vitnar til fyrrnefndrar ákvörðunar umhverfisráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Sjá nánar í Morgunblaðinu 6. október 2009

Samtök atvinnulífsins